Rottur gera nú mikinn óskunda í vesturbæ Reykjavíkur, og ógna þar börnum og sundlaugargestum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Reykvíkingar þurfa að kljást við þennan vágest. Árið 1946 var svo mikil rottuplága í Reykjavík að kalla þurfti á aðstoð að utan til að ráða niðurlögum skaðræðisins.
Þetta er forsíðufrétt Morgunblaðsins, 20. júlí 1946.
„Allsherjarrottueyðing er að hefjast hjer í bænum um þessar mundir. Er áætlað að að henni lokinni verði að velli lagðar yfir 90% af þeim tugþúsundum rotta, sem í bænum eru nú. — Það er breskt fjelag „The British Ratin Co. Ltd“, sem tekið hefir þessa eyðingu að sjer samkvæmt beiðni bæjaryfirvaldanna.“
Tölfræði plágunnar var ógnvænleg. Morgunblaðið skrifar að leitað hafi verið að rottum í 4807 húsum, þar af 376 bröggum. Í 3519, eða 75,3% húsa, hafi orðið vart við rottur eða mýs, og í 60% tilvika var um „talsvert mikinn rottugang að ræða“. Þá var mikið um rottur við strandlengjuna, við höfnina og á sorphaugum borgarinnar.
Borgaryfirvöld í Reykjavík sá ekki annan kost en að kalla til breska sérfræðinga í rottueyðingu frá British Ratin Co. Það fyrirtæki framleiddi danska rottueitrið ratín sem selt hafði verið á Íslandi um árabil. British Ratin sendi sína bestu menn að kljást við óvættinn, meðal annars stofnanda þess, K. G. Anker-Petersen, yfirmanninn S. R. Gounflet og fjóra eftirlitsmenn til viðbótar.
„Kvað Anker-Petersen rottumergðina hjer vera mjög mikla og jafnvel svo, að einn starfsmaður fjelagsins, sem hefir unnið hjá því í 16 ár, hafi aldrei orðið var við eins mikinn rottugang, þar sem hann hefir eitrað.“
Þetta var því meðal umfangsmestu verkefna félagsins til þessa og hefur orðið forsvarsmönnum þess minnistætt. Í dag heitir fyrirtækið Rentokil Initial og má lesa á vef þess grein um „The Rats of Reykjavik“.
Allsherjarsóknin hófst í húsunum við Elliðaár og þaðan var haldið smátt og smátt áfram vestur eftir út á Seltjarnarnes. Fljótlega varð ljóst að plágan var enn verri en fyrst var talið og var vígvöllurinn því stækkaður, og teygði sig að lokum alla leið út á Kársnes í suðri og að Korpúlfsstöðum í norðri.
Alls unnu ellefu sérfræðingar Breska ratínfélagsins að eyðingunni ásamt fjölda Íslendinga. Brauðmolum, vættum í eitrinu, var komið fyrir í húsum þar sem rottur gengu lausar.
„Sjerhver móttækileg rotta, sem neytir eitursins er dauðans matur, en um 80-90% allra brúnna rotta, sem hjer eru algengastar, eru móttækilegar fyrir „radin“-sýkinni [svo]“
Hernaðurinn var þó allur hinn mannúðlegasti ef marka má frásögn Morgunblaðsins:
„Það sem miklu skiptir í þessu sambandi er, að rotturnar finna ekki til neinna kvala og eitrið byrjar ekki að verka fyrr en eftir nokkra daga, en þá byrja rotturnar að veslast upp. Þær rottur, sem ekki neyta eitursins í fyrstu lotu, smitast ýmist með móðurmjólkinni eða með því að leggjast á náinn, og eftir um það bil 4 vikur hefir sóttin herjað á allt byggðarlagið, án þess að vekja minnsta grun hjá þeim sem eftir lifa.“
Fyrir þær 10-20% rottur sem eru ónæmar fyrir ratín var notast við sterkara efni, ratínin, sem átti að geta komið hverri rottu fyrir kattarnef. Fyrir þær allra þráustu rottur sem lifðu af hvort tveggja fengu svo að kenna á svokölluðum „ratín-auka“ sem var allra efna sterkastur:
„Þetta eitur er gjörólíkt ratinin og er hættulegt mönnum og skepnum. Verður því að gæta ýtrustu varúðar í meðferð þess, enda er sú bót í máli, að sjaldan þarf að grípa til þess og þá jafnvel farið mjög varlega. Daginn eftir að eitrað hefir verið með því, mun verða séð um, að hverju leyfðu agni verði safn að og þeim brennt,“ skrifaði Alþýðumaðurinn á Akureyri um ratín-aukann, en rottur voru einnig til vandræða á Akureyri um þessar mundir og voru sérfræðingar Breska ratínfélagsins sendir þangað einnig.
Herferðin bar tilætlaðan árangur. Í nóvember sögðu dagblöðin frá því að eyðingunni væri lokið, og að 93,3% fasteigna í Reykjavík væru nú lausar við óæskilegan skottpening.
„Framvegis verður reynt að halda rottugangi hjer í bænum í skefjum, og er fólk því beðið um að tilkynna um rottugang til skrifstofu heilbrigðisfulltrúa, Vegamótastíg, sími 3210.“