Árið 1936 ferðaðist Breti um þrítugt til Íslands. Hann hét Wystan Hugh Auden, alltaf kallaður W.H. Auden og var um þær mundir eitt nafntogaðasta skáld enskrar tungu af yngri kynslóð og varð síðar eitt allra áhrifamesta ljóðskáld tuttugustu aldar.
Hann eyddi þremur mánuðum hér á landi ásamt vini sínum, írska skáldinu Louis MacNiece. Þeir gáfu síðan saman út bókina Letters from Iceland sem er öðrum þræði ferðasaga og lýsing á Íslandi en í bókinni er líka mikið af skáldskap og hugleiðingum þeirra félaga sem koma Íslandi ekki við. Nöturleg lýsing Auden á Reykjavík féll ekki í frjóan jarðveg. Mörgum fannst hann vega að íbúum höfuðborgarinnar:
Flest húsin er úr bárujárni. Þegar ég sá bæinn fyrst fannst mér hann lúterskur, drungalegur, afskekktur. Hafnarbakkinn var troðinn af miðlungshressum letingjum með húfur. Þeir virtust hafa legið þar lengi. Það voru engir gargandi farandsalar eða braskarar þarna. Jafnvel börnin þögðu.
Fræg voru skrif Audens um að fyrir utan Þjóðminjasafnið, málverkin í Alþingishúsinu og safn Einars Jónssonar væri lítið annað að sjá í höfuðborginni en Óla Maggadon, Odd Sigurðsson, Kjarval og Árna Pálsson prófessor. Óli og Oddur voru sérkennilegir menn í mannlífinu í Reykjavík, svokallaðir persónuleikar, menn sem gengu ekki heilir til skógar. Þótti mörgum broddborgurum svíða það að stórskáldið teldi þá til fyrirmenna borgarinnar.
En Auden var skemmtilegur gestur og þó honum hafi líkað misjafnlega við sumt á Íslandi hafði hann sannan áhuga á landi og þjóð. Hann mærði íslenskan bókmenntaarf og líkaði vel við Íslendinga almennt. Í bók hans og MacNiece kennir ýmissa grasa. Þar eru fjölmargar myndir af ýmsum mannamótum sem íslenskir lesendur skildu ekki hvers vegna hefðu ratað í bókina.
Þeir héldu kannski að stórskáldið Auden hefði viljað mynda fossa og fjöll í bak og fyrir. En um þessi náttúruundur lét hann sér fátt um finnast, kvaðst lítið yndi hafa af því að príla í bröttum hlíðum eða glápa á vatn steypast af bergi fram, slík fyrirbæri væru hvert öðru lík í öllum löndum.
Hann vildi miklu fremur kynnast svip fólksins, áhugaverðum körlum og kerlingum á gömlum sveitabæjum og fletta bókum. Hann tók til dæmis ljósmyndir af sundmóti á Seyðisfirði sem honum fannst einkennilega frumstæð samkoma og fylgdist sömuleiðis agndofa með sveitaböllunum.
Hann skrifar:
Sem þjóð held ég að Íslendingar séu ekki sérlega metnaðargjarnir. Nokkrir úr hópi sérmenntaðra mundu gjarna vilja fara til Evrópu, en flestir vildu heldur vera þar sem þeir eru komnir, og afla sér sæmilegra tekna. Miðað við flest önnur lönd er lítið um atvinnuleysi. Yfirleitt hef ég þá hugmynd um hinn venjulega Íslending, að hann sé raunsær, á smáborgaralegan hátt, órómantískur og lítill hugsjónamaður.
Gagnstætt Þjóðverjum hefur hann engar rómantískar þrár til suðrænna landa, og ég gæti ekki hugsað mér hann í einkennisbúningi. Afstaðan til Íslendingasagna er svipuð og afstaða venjulegs Breta til Shakespeares; ég hitti aðeins einn mann, málara, sem sagðist halda, að þær væru í grófara lagi.
Hörgull á atvinnu í mörgum Evrópuríkjum veldur því oft, að íbúarnir eru ábyrgðarlausir og þvi opnari fyrir róttækri þjóðernisstefnu, en Íslendingurinn er sjaldan ábyrgðarlaus, því að ábyrgðarleysi hjá íslenzkum bónda eða fiskimanni mundi hafa gjaldþrot í för með sér.
Munum að Auden var hér sumarið 1936 en þá voru óveðursskýin að hrannast upp í Evrópu. Skáldið var harður andstæðingur nasista og annarra einræðisherra og fylgdist óttasleginn með þróuninni í Evrópu.
Það var því einkennileg tilviljun þegar Auden hitti Herbert Göring, frænda nasistaforingjans Hermanns, á Hólum í Hjaltadal.
Göring var á ferðalagi um Ísland en á þessum tíma litu nasistar með mikilli velþóknun á Íslendinga. Ekki kom þá á milli átaka á milli þeirra en Auden segist hafa skipst á vandræðalegum kurteisiskveðjum við Þjóðverjann.
Ungur háskólastúdent, Ragnar Jóhannesson, sem síðar varð skólastjóri, var leiðsögumaður Audens á ferðalagi um landið. Hann skrifaði bráðskemmtilega grein í tímaritið Andvara árið 1960 þar sem hann rifjaði upp kynnin af skáldinu.
Þegar hér er komið við sögu sitja þeir félagarnir við veisluborð á sveitabæ:
Á borðið kom ilmandi og rjúkandi Hólsfjallahangikjöt, vel feitt og vel verkað. Þótti okkur, mörlöndunum, nú sem hnífur vor kæmist í feitt og hvolfdum okkur yfir hangiketið, en ekki hafði útlendi gesturinn sömu gleði af matnum. Hann borðaði fáeina bita, en hætti svo, féll ekki kjötið. Hann át því ekki meira, þótt svangur væri, drakk 5 eða 6 kaffibolla og reykti. Matvendni Audens reið ekki við einteyming, og má merkilegt heita, ef hann hefir ekki átt í erfiðleikum með mataræði víðar en hér á landi.
Hann krafðist ekki neinna kræsinga, og ef honum féll maturinn illa, lét hann sér nægja að snerta varla við honum og reyndi sjaldan að biðja um annað en það, sem á borð var borið. En hann sagðist þakka gott heilsufar sitt því, að hann borðaði aldrei annað en það, sem honum þætti gott, þeirri meginreglu vildi hann ekki víkja frá.
En hann drakk mikið kaffi, segist gizka á, að hann hafi drukkið um 1500 kaffibolla þá þrjá mánuði, sem hann var í Íslandsferðinni, og hygg ég það engar ýkjur. Reykingamaður var hann mikill, tók alltaf nokkra sígarettupakka með sér í rúmið. Vaknaði ég stundum við það um nætur, að skáldið settist upp við dogg í rúmi sínu og kveikti sér í sígarettu, dró að sér nokkra djúpa reyki og lognaðist svo út af aftur, án þess að hafa vaknað til fulls, að því er virtist.
Í kvikmyndinni Away from Her frá 2006, sem byggir á smásögu eftir Nóbelshöfundinn nýbakaða, Alice Munro, er lesið upp úr bókinni Letters from Iceland:
Frægasti hluti bókarinnar Letters from Iceland er vafalaust ljóðið Journey to Iceland eða Ferð til Íslands. Heyrum skáldið lesa það hér.
Hér er svo þýðing Magnúsar Ásgeirssonar á ljóðinu:
Og sæfarinn óskar: Æ, sé nú hver læknir mér fjarri!
og sjávarnöfn skáldanna fylgjast með honum um borð:
Borgleysa, Ótryggur, Svörfuður, Sorgin.
Og Synjun er Norðursins orð.
Og ómælissléttur hins blóðkalda veiðifisks blika,
og brim er í lofti af vængjum svífandi flokks.
Og undir þeim þjótandi, iðandi fána
sér eyjavinurinn loks
hilla undir von sína: og fannblikið nær honum færist,
fjöllin, nakin og seiðsterk, um vornætur dag.
Og undir þeim sandflæmi í ósum fljóta,
sem árskrímsl með blævængslag.
Svo megi hinn ágæti borgari furður hér finna:
fjöll eins og hófspor, eimgos sem bergrifa spýr,
gljúfur og fossa og hornbjargsins háu
höll, þar sem sjófuglinn býr.
Og höfundur sá, er vill kynna sér kjör manna og háttu:
kirkjustað biskups, sem troðið var niður í sekk,
laug mikils sagnfræðings, klettaey kappans,
sem kvíða langnættið fékk.
Og munið hinn seka, er fákur hans féll og hann mælti:
„Fögur er hlíðin og aftur um kyrrt ég sezt,“
konuna gömlu, sem vitnaði: „Ég var þeim
verst, er ég unni mest.“
Því Evrópa er fjarri, og einnig þá raunveruleikinn.
Við öræfa- og söguhefð landsins þeir kaupa sér dvöl,
sem dreymir sitt líf vera í óþökk, til einskis,
og andlitin fölu sem böl
of heitra tálkossa tærði, á þess öræfum laugast.
En tekst það? Því Heimur, Nútími og Lygi eru sterk.
Og hin örmjóa brú yfir beljandi ána
og bærinn í fjallsins kverk
eru eðlileg virki og herstöðvar héraðarígsins,
sem hollustu þegnsins bindur við merkjastein.
Og í bóndanum þarna, sem berst á hesti
út bakkans vallgrónu hlein,
sig þumlungar líka blóðið á bugðóttum leiðum
og biður um svör, eins og þitt: Finnst ei trúnaður neinn?
Ó, hvað dvelur réttlætið? Hver er gegn mér?
Ó, hví er ég stöðugt einn?
Svo kynnum þá heiminum eyna, hans eltandi skugga,
með oflæti í búningi og versnandi fisksölukjör.
Í afdal hvín jazzinn, og æskunnar fegurð
fær alþjóðlegt filmbros á vör.
Því hvergi á vor samtími vé þau, er allir unna.
Vor æska ekki neina staðhelgi, verndaðan reit.
Og fyrirheitið um ævintýraeyna
er eingöngu fyrirheit.
Tár falla í allar elfur og ekillinn setur
aftur upp glófa og bíl sinn á vegleysur knýr
í æðandi blindhríð, og emjandi skáldið
aftur að list sinni flýr.