Franski rithöfundurinn Albert Camus hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1957. Venju samkvæmt hélt hinn nýbakaði verðlaunahafi ræðu í Stokkhólmsráðhúsi þar sem hann þakkaði fyrir sig, en hér má lesa ræðuna. En stuttu eftir athöfnina ritaði Camus bréf til barnakennara síns, Louis Germain, og þakkaði honum fyrir ómetanlega aðstoð og kennslu í æsku.

 

Hér er þetta bréf á íslensku:

 

19. nóvember 1957

 

Kæri Monsieur Germain,

 

Ég lét gauraganginn í kringum þessa daga hjaðna aðeins áður en ég tala við þig frá dýpstu hjartarótum. Ég hef hlotið alltof merkilegan heiður, sem ég hvorki sóttist né falaðist eftir.

 

En þegar ég frétti af þessu hugsaði ég fyrst, fyrir utan móður mína, til þín. Án þín, án hinnar ástkæru hjálparhandar sem þú réttir smáa og fátæka barninu mér, án kennslu þinnar og fordæmis, hefði ekkert af þessu öllu verið mögulegt.

 

Ég er ekki mikið fyrir slíka upphefð. En nú hef ég að minnsta kosti tækifæri til að segja þér hvað þú hefur verið mér og ert enn og til að undirstrika það að viðleitni þín og vinna, sem þú vannst með örlátu hjarta, lifir enn í einum af litlu skóladrengjunum þínum, sem hefur aldrei, þrátt fyrir að mörg ár séu nú liðin, hætt að vera þakklátur nemandi þinn. Ég faðma þig af öllu hjarta.

 

Albert Camus

 

Camus var 11 mánaða þegar faðir hans lést í orrustunni um Marne í september 1914, þegar fyrri heimsstyrjöldin var á fyrstu stigum. Bláfátæk, ólæs og hálfheyrnarlaus móðir hans þurfti að ala drengina sína upp við erfiðar aðstæður í Belcourt-hverfi í Algeirsborg í Alsír, sem þá var hluti Frakklands. Amman hjálpaði mikið til. Camus stóð sig frábærlega í skólanum og það virðist hafa verið fyrst og fremst vegna hvatningar Monsieur Germain, barnakennara.

 

Camus komst í háskóla og þar hófst ferill hans sem rithöfundar og heimspekings. Hann lést í bílslysi 1960, aðeins 46 ára. (via Letters of Note)

 

louisgermain

Þessi mynd mun sýna hinn góða kennara, herra Germain.

 

oncle

Camus ungur að árum í Algeirsborg í Alsír.