Lemúrinn heldur áfram að grúska í filmusafni British Pathé í leit að efni tengdu Íslandi. Hér sést stórmerkileg fréttaupptaka frá 24. ágúst 1944. Þar sjáum við Svein Björnsson, forseta hins nýstofnaða íslenska lýðveldis, ganga á fund Franklins D. Roosevelt bandaríkjaforseta. Roosevelt lést úr lömunarveiki tæpum átta mánuðum síðar.
Samkvæmt myndbandinu fékk Sveinn góðar móttökur í Hvíta húsinu og honum er lýst sem forseta yngsta lýðveldis í heiminum. Roosevelt kynnir hann fyrir dóttur sinni Önnu. Fram kemur að Sveinn vilji bandaríska herinn burt úr landi sínu að stríðinu loknu.
Sjómannablaðið Víkingur greindi frá heimsókninni:
Bandaríkjaför forsetans
Eins og kunnugt er bauð Roosevelt forseti Bandaríkjanna, fyrir skömmu síðan Sveini Björnssyni forseta íslands í heimsókn til Bandaríkjanna. Fór Sveinn Björnsson ásamt Vilhjálmi Þór utanríkisráðherra og öðru föruneyti loftleiðis til Washington. Tókst förin hið bezta og var forsetanum sýnd mikil virðing og sómi.
Fyrsta kvöldið sat forseti íslands og föruneyti hans boð Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu. Roosevelt forseti ávarpaði forseta íslands hlýjum orðum, en Sveinn Björnsson þakkaði í skörulegri svarræðu.
Síðar heimsótti Sveinn Björnsson Bandaríkjaþing og var hann kyntur fyrir ýmsum þingmönnum. Síðar þann dag ók forseti íslands til Mount Vernon, búgarðs Washingtons, fyrsta forseta Bandaríkjanna, skammt frá höfuðborginni, þar sem hann er grafinn og lagði blómsveig á gröf þessa fyrsta forseta Bandaríkjanna. Síðar lagði hann blómsveig á gröf óþekkta hermannsins, að Arlington gegnt Washington.
Þá sat hann og, ásamt Vilhjálmi Þór utanríkismálaráðherra, boð Cordells Hull utanríkismálaráðherra Bandaríkjanna. Lét Cordell Hull í Ijós mikinn hlýhug til Íslands í ræðu, sem hann flutti, en forseti Íslands svaraði og þakkaði.
Forseti íslands hafði síðdegisdrykkjuboð fyrir fulltrúa erlendra ríkja að Blair House, en þar dvaldist hann meðan hann var í Washington, að undanskilinni fyrstu nóttinni, er hann dvaldi í Hvíta húsinu. Mikill fjöldi ambassadora og sendiherra voru í boði þessu, þar á meðal Lord Halifax ambassador Breta, og sendiherrar Norðurlandanna.
Um kvöldið hafði sendiherra íslands, Thor Thors, boð inni fyrir forseta íslands, utanríkisráðherra og fylgdarlið. Þá sat forseti íslands einnig boð með Íslendingum vestan hafs, og var gleði manna innileg.
Þá þóttu þetta einnig merk tíðindi meðal Vestur-Íslendinga í Winnipeg í Kanada, og dagblað þeirra, Heimskringla, fjallaði um málið: