Áður en Bee Gees urðu diskókóngar alheimsins fluttu bræðurnir frá eyjunni Mön yndislegar poppballöður sem nutu nokkurra vinsælda, sérstaklega á Bretlandseyjum og í Evrópu. En það var ekki fyrr en þeir sömdu texta sem minnir helst á háalvarlegan harmleik eftir bandaríska leikskáldið Tennessee Williams sem þeir komust loksins inn á topp 10 listann í Bandaríkjunum. Textinn er dimmur og dökkur en um leið hjartnæmur og fallegur.

Erfitt hafði reynst fyrir Bee Gees að slá í gegn í Bandaríkjunum. Árið 1967 samdi sveitin við bresku plötuútgáfuna Polydor eftir að umboðsmaður Bítlanna, Brian Epstein, ráðlagði umboðsmanninum Robert Stigwood að semja við bræðurna. Stigwood var einnig umboðsmaður ofursveitarinnar Cream á þessum tíma. Gibb-bræður, þeir Robin, Barry og Maurice, voru þá nýfluttir til Lundúna frá Ástralíu – en þangað fluttu þeir með foreldrum sínum á táningsaldri.

Gibb Frost Stigwood
Robert Stigwood ásamt Bee Gees í New York 1979. Stigwood varð milljarðamæringur sem umboðsmaður Bee Gees, ekki síst vegna vinsælda kvikmyndarinnar Saturday Night Fever. Stigwood var framleiðandi myndarinnar og tónlistin úr myndinni seldist í yfir 30 milljónum eintaka.

Stigwood samdi einnig við dótturfyrirtæki bandaríska plötufyrirtækisins Atlantic Records, Atco, um dreifingu á plötum Bee Gees vestanhafs. Komst hann þar með í samband við nokkra listamenn sem voru samningsbundnir Atlantic, en þar tóku upp helstu risarnir í sálartónlistinni á þessum tíma. Nægir þar að nefna Sam og Dave, Percy Sledge og Otis nokkurn Redding.

Stigwood ætlaði sér því upphaflega að notfæra sér náðargáfu Gibb-bræðra sem lagasmiða, við að græða böns af pening í Bandaríkjunum. En örlög þeirra áttu greinilega að vera önnur. Fyrsta smáskífulag Bee Gees, „To Love Somebody,“ var upphaflega samið fyrir áðurnefndan Redding. Hann átti að taka lagið upp fyrir jólin 1967, en lést í flugslysi þann 10. desember það ár. Það sem gerðist í staðinn var að Bee Gees komu sér á kortið, ekki aðeins sem höfundar, heldur einnig sem flytjendur.

otisreddingpng
Hinn eldheiti Otis Redding átti upphaflega að flytja „To Love Somebody.“

„To Love Somebody“ gekk ágætlega, en ekki eins vel og Stigwood hafði vonast eftir. Hann hélt enn í drauminn um að selja Atco lag sem kæmist í efsta sætið, og árið 1968 fékk hann þá hugmynd að leita til næstu stjörnu Atlantic Records á  listanum: Percy Sledge.

Það voru þeir Robin og Barry sem sömdu lagið, sem var nokkurn veginn tilbúið þegar bræðurnir mættu í hljóðver í júlímánuði 1968. Textinn var hins vegar ekki tilbúinn og þá voru góð ráð dýr. Robin lagði höfuðið í bleyti og fékk loks snilldarhugmynd. Hvað ef hann ímyndaði sér, að hann væri á aftökudeild í bandarísku fangelsi? Hvað ef hann ætti að mæta örlögum sínum í rafmagnsstól eftir aðeins eina klukkustund? Og hvað ef hann ætti eiginkonu sem hann langar að tala við í hinsta sinn? Útkoman var ein fallegasta poppballaða tónlistarsögunnar; „I’ve Gotta Get A Message To You.“

Hér má sjá lagið í mögnuðu tónlistarmyndbandi. Þvílíkir menn!

Vídjó

Útkoman er mögnuð, og sérstaklega fyrir loka-„twistið“ í textanum. Sem snýst um af hverju fanginn okkar er á aftökudeildinni. Ert þú, lesandi góður, ekki annars að hlusta á lagið?

Eins og að horfa á upphafsatriði kvikmyndar þar sem hellirignir og dramatíkin svífur yfir vötnum, færa upphafsorð textans okkur strax á kaf í sögu Robins Gibb:

The preacher talked to me and he smiled,
Said, „Come and walk with me, come and walk one more mile.
Now for once in your life you’re alone,
but you ain’t got a dime, there’s no time for the phone.

 I’ve just got to get a message to you, hold on, hold on.
One more hour and my life will be through, hold on, hold on.

Fanginn er að ræða við prest, eins og siður er fyrir aftökur, mögulega að semja frið við Guð og menn. Presturinn bendir honum á að ganga með honum síðustu míluna – sem margir kalla einmitt „grænu míluna,“ sem Stephen King gerði að heimsfrægu hugtaki. Fanginn á ekki einu sinni 10 senta pening, og það er enginn tími eftir til að fá að hringja. Fanginn er alveg, alveg, gersamlega, einn á báti.

I told him I’m in no hurry,
but if I broke her heart, won’t you tell her I’m sorry.
And for once in my life I’m alone,
and I’ve got to let her know just in time before I go.

I’ve just go to get a message to you, hold on, hold on.
One more hour and my life will be through, hold on, hold on. 

Fanginn er ef til vill ekki tilbúinn til að sleppa lífinu alveg strax. Hann er að minnsta kosti ekki að drífa sig. Honum er ofarlega í huga að fá fyrirgefningu eiginkonu sinnar, hafi hann sært hana – vill hann koma því til skila að hann sjái eftir því.

Well I laughed but that didn’t hurt,
and it’s only her love that keeps me wearing this dirt.
Now I’m crying but deep down inside,
well I did it to him, now it’s my turn to die.

I’ve just got to get a message to you, hold on, hold on.
One more hour and my life will be through, hold on, hold on.

Fanginn virðist sætta sig við örlög sín, svo lengi sem hann veit að konan hans elskar hann. Hann hlær en grætur síðan. Innst inni veit hann samt, að hann á skilið að deyja. Af hverju? Jú, hann hafði nefnilega komið að eiginkonu sinni með öðrum manni inni í hjónaberberginu… og myrt hann. Þetta er svona eins og ef Andy Dufresne hefði farið í rafmagnsstólinn. Mögnuð saga!

old_sparky
Rafmagnsstólar eru í alvöru kallaðir Old Sparky. Það er að sjálfsögðu Thomas Edison sem á heiðurinn af þessari grimmilegu aftökuaðferð.

Það er skemmst frá því að segja að Percy Sledge, sem öðlaðist heimsfrægð fyrir lag sitt „When a Man Loves a Woman,“ hafnaði laginu. Það sló hins vegar í gegn í flutningi Gibb-bræðra. Það náði efsta sæti vinsældalistans í Bretlandi og á Írlandi og loksins komust þeir á topp 10 lista Billboard í Bandaríkjunum, en lagið komst hæst í 8. sæti.