„Orðið „Raggari“ er sænskt slanguryrði, sem upphaflega þýddi ökumaður, sem narrar ungar stúlkur upp í bíl sinn, en orðið hefur nú misst fyrri merkingu sína. Nú er það notað um uppreisnargjarna og ódæla unglinga.“ Svo er skrifað um hið sænska menningarfyrirbæri „raggara“ sem vakti athygli blaðamanns Alþýðublaðsins árið 1961.

 

Raggaramenningin er fylgifiskur þeirrar velmegunnar sem Svíar bjuggu við eftir heimsstyrjöldina síðari. Í lok sjötta áratugarins höfðu sænsk ungmenni, líkt og víða um heim, meiri frítíma og pening milli handanna og var bílaeign þeirra með því mesta sem þekktist í heiminum.

 

Fyrsta raggaragengið var stofnað í Stokkhólmi við lok sjötta áratugs síðustu aldar. Þekktasta gengið var The Road Devils, en leiðtogi þeirra var Bosse Sandberg sem gekk jafnan undir viðurnefninu „Gammurinn“. Önnur þekkt gengi voru The Car Angels og Teddy Boys Car Club.

 

Raggararnir sækja innblástur í bandaríska rokk og ról menningu, bíómyndir og tónlist. Þeir klæða sig í gallabuxur, hvíta stuttermaboli og leðurjakka og maka briljantíni í hárið. Dömurnar eru vitanlega klæddar í stíl við herrana í áberandi rokkkjólum.

 

Flestir aka þeir um á stórum bandarískum köggum frá sjötta, sjöunda og áttunda áratugnum. Einnig eru til svokallaðir bleyjuraggarar, einnig þekktir sem volvoraggarar, en það er skammaryrði yfir þá sem aka um á evrópskum köggum í stað bandarískra. Alvöru töffararnir eru sannfærðir um að bleyjuraggararnir séu verri bílstjórar.

 

Á áttunda áratugnum ríkti stríðsástand milli raggara og pönkara í Svíþjóð. Söngvarinn Eddie Meduza gaf út lagið Punkjävlar og áttu bæði sænskar og útlenskar pönkhljómsveitir fótum fjör að launa á tónleikaferðum um landið. En algengt var að Raggarar mættu á pönk tónleika til þess eins að lúskra á hljómsveitarmeðlimum.

 

Vídjó

 

Á níunda áratugnum leit út fyrir að raggaramenningin væri hægt og bítandi að deyja út en hún hefur heldur betur tekið við sér á nýjan leik og er nú í fullum blóma. Best þrífst hún í dreifbýli og smærri bæjum en það getur verið eins og að fara inn í tímavél að koma til raggarabæja í sænska dreifbýlinu.

 

Hér má sjá Íslandsvinina Frank Hvam og Casper Christensen lenda í kröppum dansi þegar sænskum röggurum var sigað á þá:

 

Vídjó

 

Power Big Meet, stærsta bílasýning heims. Haldin í Västerås hvert sumar þar sem fleiri þúsund klassískra kagga eru til sýnis:

 

Vídjó

 

 

Í maí 1979 birtist þessi frétt í Tímanum.

Í maí 1979 birtist þessi frétt í Tímanum.