Þrátt fyrir að jarðhnetubóndinn Jimmy Carter hafi ekki verið sérstaklega vinsæll sem forseti Bandaríkjanna á meðan hann gegndi embættinu, hefur sagan leitt í ljós að hann er líklega einn sá skásti sem hefur setið í Hvíta húsinu.
Lemúrinn hefur til að mynda fjallað um áhuga Carters á sjálfbærri orkunýtingu. Síðan hann lét af embætti hefur hann verið óhræddur að ferðast um heiminn allan og tala fyrir umhverfisvernd og friðarstefnu, sem varð að lokum til þess að hann hlaut Friðarverðlaun Nóbels árið 2002.
En það eru auðvitað bara hversdagslegir hlutir, miðað við eitt af hans helstu afrekum – að gjörbreyta bjórlandslagi Bandaríkjanna fyrir fullt og allt!
Það var nefnilega í stjórnartíð Carters sem ákveðið var að létta hömlum á bjórframleiðslu (deregulate) sem, fram til ársins 1979, var aðeins í höndum risavaxinna fyrirtækja. Greiddi þetta götu svokallaðra handverksbjórframleiðenda (craft beer), sem er nokkuð í ætt við það sem við Íslendingar köllum míkróbjórframleiðendur.
Fyrir bannárin í Bandaríkjunum, sem stóðu yfir frá 1920 til 1933, voru um 1500 bruggverksmiðjur í Bandaríkjunum – stórar sem smáar. Eftir að áfengisbannið var afnumið voru settar á strangar reglur um framleiðslu á bjór, sem fáir áttu kost á að fara eftir – nema þá risavaxin fyrirtæki í ætt við Miller eða Anheuser Busch, móðurfyrirtæki Budweiser. Á þessu súluriti má sjá þróunina á fjölda brugghúsa í Bandaríkjunum frá bannárunum og til ársins 2009.
Eins og sjá má fjölgaði brugghúsum jafnt og þétt eftir að Carter auðveldaði smærri framleiðendum að brugga bjór. Og þá þarf vart að minnast á gæðin. Skilgreiningin á handverksbjór er reyndar talsvert á reiki, en meðal þess sem einkennir hann er að framleiðslan fer ekki yfir 6 milljón tunnur á ársgrundvelli, að bruggarinn/bruggararnir sjálfir eigi að minnsta kosti 75 prósent í fyrirtækinu og að bjórinn sé gerður úr að minnsta kosti 50 prósent malti.
Innihald bjórsins er yfirleitt fengið frá svæðisbundinni framleiðslu bænda, og oftar en ekki framleiða þeir afurðir sínar á lífrænan hátt. Sem er gott fyrir alla, neytendur, bændur og að sjálfsögðu umhverfið.
Handverksbjórar hafa náð góðri stöðu á Bandaríkjamarkaði og eru fjölmargar tegundir í miklu eftirlæti alþjóðlegra bjórsérfræðinga. Stóru brugghúsin hafa þó enn um 90 prósent markaðshlutdeild, en hlutur handverksbjóranna fer þó stækkandi – auk þess sem bjórúrvalið verður meira og betra. Allt saman mjög jákvætt.
Á Íslandi er hægt að smakka nokkra slíka bjóra, sá vinsælasti kemur frá Kaliforníu og ber nafn fjallgarðsins sem skilur að Kaliforníu og Nevada – Sierra Nevada. Á Íslandi eru tvær tegundir fáanlegar í Vínbúðinni. Pale Ale er 5,6 prósent að styrkleika en á heimasíðu vínbúðarinnar er um hann skrifað : „Rafgullinn. Ósætur, mjúk meðalfylling, beiskur. Humlar, malt, ávöxtur.“ Torpedo Extra IPA er hins vegar 7,2 prósent og um hann stendur: „Rafgullið. Meðalfylling, ósætur, beiskur. Humlar, sítrus, malt.“
Þess má einnig geta að Sierra Nevada Brewing Company var valið grænasta fyrirtæki Bandaríkjanna árið 2010 af Umhverfisverndarstofnun BNA (US Environmental Protection Agency). Ein helsta ástæða fyrir því er að öll orka sem fer í að knýja brugghúsið er fengin með sólarorku. Á þaki brugghússins hefur verið komið fyrir sólarsellum, sem hjálpar til við að brugga bjór og tappa honum af á flöskur á sjálfbæran hátt.
Sierra Nevada er einnig stærsti kaupandi lífrænna humla í Bandaríkjunum, og styrkja þar með lífræna ræktun, auk þess sem lífrænt bygg er ræktað af fyrirtækinu sjálfu í nágrenni brugghússins. Þá er ótalið að vöruflutningabifreiðar fyrirtækisins ganga fyrir lífrænu eldsneyti, sem er búið til úr notaðri steikingarolíu úr mötuneyti starfsmanna Sierra Nevada.
Frábært!
Hér má lesa meira um sjálfbæra bruggun Sierra Nevada.
Hér má lesa meira um handverksbjóra á síðu Samtaka bandarískra bruggara, Brewers Association.