Jarðhnetubóndinn Jimmy Carter var líklega einn óvinsælasti forseti Bandaríkjanna frá upphafi þegar hann yfirgaf Hvíta húsið árið 1981. Í seinni tíð hefur forsetatíð hans þó verið endurmetin honum í hag, enda er arfleifð hans sem forseta merkileg fyrir margra hluta sakir.

 

Carter var til dæmis mikill frumkvöðull í umhverfismálum. Hann virtist hafa áttað sig á dvínandi orkulindum jarðarinnar, þegar árið 1977. Hann stofnaði til að mynda umhverfisráðuneyti Bandaríkjanna og veitti fé til stuðnings tilrauna- og þróunarstarfsemi með sjálfbæra og umhverfisvæna orkugjafa.

 

Carter sýndi auk þess gott fordæmi sjálfur með einstökum töffaraskap, þegar hann lét koma fyrir sólarsellum á þaki Hvíta hússins í Washington! Carter vildi sýna fram á að hægt væri að reka forsetaembættið, eða að minnsta kosti orkuþörf þess, með sjálfbærum hætti.

 

Jimmy Carter við sólarsellurnar sínar. Hann var einstaklega stoltur af þeim.

Jimmy Carter við sólarsellurnar sínar. Hann var einstaklega stoltur af þeim.

 

Þótt ótrúlegt megi virðast voru fjölmargir sem gagnrýndu þessar tilraunir Carters. Fannst lítið til þeirra koma og fannst þær „óamerískar“ (un-american). Einn þessara gagnrýnenda var ríkisstjóri Kaliforníu, Ronald Reagan. Í augum Reagan var ekkert jafn bandarískt og óhófleg notkun á jarðefnaeldsneyti, til að mynda með því að keyra risastóra kagga og pallbíla. Þegar Reagan tók við forsetaembættinu eftir Carter var hann ekki lengi að skrúfa fyrir fjárveitingar til þróunar sjálfbærra orkugjafa og veita olíufyrirtækjum ríflega skattaafslætti. Hann lét sér það ekki nægja. Á táknrænan hátt tók hann niður sólarsellur Carter, svona eins og til að leggja áherslu á að ekkert slíkt „hippakjaftæði“ yrði liðið á meðan hann væri húsbóndi í Hvíta húsinu.

 

Ronald Reagan í joggingbuxum. Reagan fannst umhverfisvernd ekki merkileg.

Ronald Reagan í joggingbuxum. Reagan fannst umhverfisvernd ekki merkileg.

 

Þess má geta að núverandi forseti Bandaríkjanna, Barack Obama, lofaði því árið 2010 að sólarsellum yrði komið fyrir á þaki Hvíta hússins á nýjan leik. Þær eru hins vegar hvergi sjáanlegar nú, þremur árum síðar, þrátt fyrir að Obama hafi ítrekað loforð sitt þegar hann kynnti aðgerðaráætlun sína gegn loftslagsbreytingum í júní.

 

Obama heldur ræðu við sólarsellur en hann segist aðdáandi þeirra. Hann hefur ekki staðið við loforð um að koma þeim fyrir á þaki Hvíta hússins.

Obama heldur ræðu við sólarsellur en hann segist aðdáandi þeirra. Hann hefur ekki staðið við loforð um að koma þeim fyrir á þaki Hvíta hússins.