Lemúrinn var stofnaður 8. október 2011 og er því tveggja ára í dag! Ritstjórn þakkar frábærar móttökur!
Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim tíma. Lesendahópur Lemúrsins hefur vaxið jafnt og þétt. Við minnum ykkur á að fylgjast með okkur á Facebook, en hópurinn þar telur nú hátt í 5000 manns.
Við minnum ykkur líka á að Lemúrinn er kominn með þátt á Rás 1. Hann er á dagskrá alla þriðjudaga klukkan 16:00 og er endurfluttur á laugardagskvöldum klukkan 20:00. Ef þið eigið útlenska vini má benda þeim á enska ljósmyndabloggið okkar Iceland Visual History blog.
Hér er yfirlit yfir vinsælustu greinar ársins.
Drakk 156 bjóra og setti heimsmet í drykkjuskap!
Margir muna vafalaust eftir risanum Fezzik í költ-kvikmyndinni The Princess Bride frá árinu 1987. Með hlutverk Fezzik fór alvöru risi, sem gekk iðulega undir nafninu André the Giant, eða risinn André. Hann setti vafasamt met. Og írska Nóbelsskáldið Samuel Beckett skutlaði honum í skólann þegar hann var lítill (en samt stór), en það er nú önnur saga.
Fólk í Reykjavík fyrir hundrað árum
Stórmerkilegar ljósmyndir sem Magnús Ólafsson tók og sýna fólk í Reykjavík á árunum 1910–1920.
Áður en hrifning milli karla varð „hommaleg“
Árið 1896 var kvartað yfir því að íslenskir karlmenn væru of innilegir. „[Þeir] kyssast hverjum rembingskossinum á fætur öðrum, þó þeir sje aðeins málkunnugir.“ Og aragrúi ljósmynda frá nítjándu öld sýna karlmenn í hlýlegum faðmlögum. Hvað breyttist?
Myndafjársjóður danskra landmælingamanna sýnir Ísland um 1900
Landmælingar Íslands geyma á heimasíðu sinni stórt safn ljósmynda sem danskir landmælingamenn tóku við störf á Íslandi á fyrsta áratug tuttugustu aldarinnar. Óhætt er að segja að hér sé mikill fjársjóður því ljósmyndirnar sýna allskyns sjónarhorn og staði sem hvergi eru annars staðar til á myndum frá þessum tíma.
„Þar búa spámenn og englar“: Breskur stríðslistamaður á Íslandi, 1943
Málarinn Thomas Hennell kom til Íslands með breska hernum. Hann var einn af opinberum stríðslistamönnum sem bresk yfirvöld fengu til þess að túlka heimsstyrjöldina. Hér birtast merkileg málverk hans frá Íslandi með bráðskemmtilegum lýsingum hans og sögum af Íslandi sem birtust í National Geographic árið 1945.
Everest-fjall: Sóðalegt líkhús á hæsta tindi veraldar
Svörtu síðurnar: Þó stórlega hafi dregið úr því að fjallgöngumenn láti lífið á Everest-fjalli er það enn hættulegur staður. Vegna aðstæðna er erfitt að koma líkum látinna niður af fjallinu og því liggja þeir í opinni gröf í hlíðunum árum saman. Líkin eru ekki það eina sem eftir hefur orðið á fjallinu því rusl og drasl eftir fjallgöngumenn liggur eins og hráviði um allt. Við vörum við myndum sem birtast í greininni.
Minnispunktar SS-manns á Íslandi: Þrælslund, lágkúra og aðalsbornir Íslendingar
Nasistar höfðu mikinn áhuga á Íslendingum, sem þeir töldu að hlyti að vera ákaflega glæst og hreinræktuð norræn þjóð. En Werner Gerlach, ræðismaður Þjóðverja á Íslandi, skrifaði hins vegar í minnispunktum sínum: „Ekkert er eftir af hinni aðalsbornu þjóð, stoltinu, heldur þrælslund, sómatilfinningaleysi, skriðdýrsháttur, niðurlæging.“
Kengúrurnar sem gleymdust í kulda og trekki í Hafnarfirði
Sædýrasafnið í Hafnarfirði lokaði árið 1987 og flestum dýrunum þar var lógað. En af einhverjum ástæðum urðu fjórar kengúrur eftir á safninu, og hímdu mánuðum saman við ömurlegar aðstæður í kofaskrifli í vetrarkuldanum.
Píramídinn: Rússneskur draugabær á Svalbarða
Vegna kuldans á Svalbarða er talið að rússneski draugabærinn Pyramiden muni ekki breytast mikið næstu 500 árin. Þar bjuggu einu sinni 1000 manns og störfuðu í kolanámum. Styttan af Lenín á aðaltorgi bæjarins er einmanaleg og enginn hefur leikið á flygilinn í menningarmiðstöðinni í áratugi.
Drykkfelldir með klunnalega líkama: Íslenska kynstofninum lýst árið 1902
Svona var íslenska kynstofninum lýst árið 1902: „Íslendingar eru með þéttbyggða, klunnalega líkama sem virðast of langir og þungir fyrir leggina, en þeir eru stuttir og sterkbyggðir, og fæturnir stórir og flatir. Göngulagið er þunglamalegt og klaufalegt, þótt ungar konur séu vissulega léttar á fæti og þokkafullar.“