Myndin hér að ofan heitir „Slippur, Reykjavíkurhöfn, 12. ágúst 1943“. Málarinn er Thomas Hennell sem kom til Íslands með breska hernum, hann var einn af fjölmörgum opinberum stríðslistamönnum sem bresk yfirvöld fengu til þess að túlka heimsstyrjöldina með penslum sínum.

 

Að minnsta kosti tveir breskir stríðslistamenn höfðu viðdvöl á Íslandi á meðan á hernáminu stóð. Sá fyrsti, Eric Ravilious, var og er einn af rómuðustu vatnslitamálurum Breta — því miður gafst honum ekki tóm að mála á Íslandi því hann fórst í flugslysi skömmu eftir komu sína til landsins árið 1942.

 

Eftirmaður hans á Íslandi, Thomas Hennell (1903-1945), notaðist líka við vatnsliti. Nokkurra mánaða vera hans á Íslandi varð farsælli og eftir hann liggur fjöldi vatnslitamynda af íslensku landslagi og lífi. Þá skrifaði hann ferðaþætti frá Íslandi sem birtust í National Geographic sumarið 1945 og síðar í íslenskri þýðingu í tímaritinu Degi.

 

Hér eru birt brot úr þeirri grein, en hana má lesa í heilu lagi á tímarit.is (framhaldið er á síðu 23). Smellið á myndirnar til þess að stækka þær.

 

"Norðanvindur yfir Esjunni".

 

„Í nokkurn tíma sigldi herflutningaskipið meðfram kollóttum, stöllóttum fjöllum, sem risu eins og veggur frá sjávarmálinu og minntu á Sínaifjöll, eins og menn kannast við þau á biblíumyndum. Litlu síðar vorum við látnir þyrpast í flutningapramma, og hann sígur síðan rólega inn í höfnina, smeygir sér í milli turnanna tveggja, sem standa á hafnargarðsendanum sinn hvorum megin. Þar inni fyrir er óasis, blár og silfurtær, blárri en himinninn uppi yfir, með dreifðum, háfleygum ullarskýjum.

 

Þegar litið er til baka yfir flóann, blasir Esjan við; hún er mesta fjallið í strandfjallgarðinum og stendur þar, sem hann sveigir til suðurs. Hver klettur og sprunga blasir greinilega við auganu, þótt fjarlægðin sé sjö mílur. En framundan endurvarpa steinsteypu- og bárujárnsbyggingar höfuðstaðarins mótordrunum jeppanna og herflutningabílanna, og dynurinn fyllir bjart, rykmettað sumarloftið.“

 

"Hitaveitulagning í Reykjavík, ágúst 1943".

 

„Við aðalgötuna — og í rauninni er aðeins ein aðalgata, er liggur frá vestri til austurs í gegnum bæinn — spreyta þeir sig á gluggaútstillingum að amerískum sið, en í sjötta eða áttunda hverjum glugga má þekkja einhvern hluta sama farmsins, venjulega frá Bandaríkjunum.

 

Handverksmenn og smærri kaupahéðnar hafast við í skúrbyggingum í gatnasundum. Þar hittir maður silfursmiði, útskurðarmeistara, söðlasmiði og skóara. Sums staðar eru búðir, sem selja grávöru, minkaskinn og silfurrefi, sauðskinn og hrosshúðir, og maður rekst á geymsluhús með saltfiski. Í skældum skúrræfli við lakara hafnarhverfið voru tveir forneskjulegir, gamlir menn að tilreiða kindahausa við glóð í kolasmiðju. Varningur þeirra mun hafa verið betri en hann leit út fyrir að vera.

 

Drengir, 10 ára og eldri, virtust geta fengið nóga atvinnu við höfnina og annars staðar. Maður rakst á þá alls staðar, stundum með skóflu og haka, sem þeir réðu tæpast við. Það var mikið að gera, því að skurðir voru grafnir um götur og torg til þess að leiða heita vatnið, sem á að hita hvert hús í bænum. Þessir drengir fá hátt kaup, er þeim ekki kennt að spara. Foreldrarnir telja bezt að láta þá sjálfráða, og ef til vill er eitthvað til í þeirri uppeldisfræði.“

 

"Skipton-kampur í Reykjavík" (á Skólavörðuholti).

 

„Bjarmi hádegissólarinnar, þrengslin á götunum, þar sem steinsteypu- og bárujárnshús byrgðu alla útsýn, og rykmökkurinn á vegunum — sem varð að svörtu hraundufti milli tannanna á manni og fyllti öll skilningarvit — allt þetta drap löngunina til þess að mála. Síðari hluta dagsins lifnaði hún aftur.

 

Á vesturströndinni eru kvöldin yfirnáttúrlega löng. Gullinn bjarmi kvöldsólarinnar dvelur á fjöllum og klettum svo lengi, að maður fer loks að ímynda sér, að útsýnin sé hugmyndaórar. Klukkan var orðinn ellefu áður en sólin hvarf í djúpið, en hún dvelur þar ekki lengi.“

 

"Bandarískir hermenn í skeifukasti."

 

„Leyfi mitt til þess að teikna og mála var komið frá ameríska hernum, og hafði Jones herdeildarforingi undirritað það. Ég þurfti aldrei að eiga í neinum útistöðum í sambandi við það. Herlögreglan rétt aðeins leit á það, og síðan sá hún um, að ég fengi að vinna störf mín í friði. Ég hitti íslenzku lögregluna, og hún var kurteis, og einn eftirlitsmann stjórnarvaldanna. Þeir ollu mér engum óþægindum, en stundum varð forvitni og áhugi Íslandi mér til trafala.

 

Ég kemst út úr jafnvægi, þegar einhver horfir fast á mig, rétt þegar ég ætla að fara að setja fyrstu strikin á auða pappírsörkina. Þegar verkið er vel á veg komið, gerir það ekkert til, en í upphafi þarfnast maður óskiptrar athygli, og ekkert má dreifa huganum. Ég hastaði stundum á þá, stundum skildu þeir það og fóru.

 

En mikill munur er á gagnslausri forvitni og raunverulegum áhuga. Nokkru seinna, um kaldan morgun, sat tólf ára gamall drengur á steinvegg skammt frá mér og horfði á mig mála í nær því klukkutíma. Hann talaði aldrei við mig, og ég ekki við hann.“

 

"Hvítanes".

 

„[Hvítanes] er nokkurn spöl frá Reykjavík, og þangað er farið eftir einhverjum versta vegi veraldarinnar. Þessi vegur lokast á hverju vori í leysingunum, þegar jarðföll þokast niður snarbrattar hlíðarnar. Vegurinn liggur um klettótta strönd, meðfram mjóum firði. Herbúðirnar höfðu verið reistar á svæði, sem rýmt hafði verið klettum og björgum, og allt efni til þeirra var flutt frá Englandi.

 

Þarna var allt gert til þess að hafa ofan af fyrir mér og láta mér líða vel. Lífið í Nissenkofunum var sæmilega þægilegt og allir unnu saman að því, að gera það eins skemmtilegt og kostur var á.

 

Nóg var að sjá fyrir þá, sem höfðu áhuga til þess. Hægt var til dæmis að klöngrast yfir klettagilin, upp á fjallsbrúnina. Þar uppi er slétta, að mestu þakin lyngi og mosa. Annars staðar voru ógróin björg, og þarna uppi voru rjúpurnar eins gæfar og kjúklingar. Einu sinni fórum við þrír saman um djúpt gil, þar sem sjófuglar verptu, og þar féll árspræna fram af fimm hundruð feta háum stalli.“

 

"HMS Goldfinch á Akureyri".

 

„Það var um þennan tíma, sem ég hélt norður á bóginn í Fordbíl. Fáir vegir liggja yfir fjöllin, heldur þræða ströndina, inn fyrir fjarðarbotna og fyrir klettótt nes. Einu sinni festum við bílinn í dýki, og þá kom sterklegur bóndi og hjálpaði okkur að ná honum upp úr. Seinna komum við að kaffisöluhúsi við þjóðveginn, margar mílur frá kaupstað, og þar var ljómandi útisundlaug með heitu laugarvatni.

 

Það var einkennileg tilfinning, að steypa sér í ylvolgt vatnið eftir að hafa afklætt sig í svalri norðaustan golunni. Þarna var okkur bent á staði, sem fornsögurnar gerðu fræga.“

 

"Stormasamur dagur. Akureyri, september 1943."

 

„Fyrstu þrjá dagana eftir að við kom um til Akureyrar var grenjandi stórhríð og við urðum að hýrast inni við. Langferðabíll tepptist þá í snjónum uppi á heiði og farþegarnir máttu dúsa í honum heila nótt þangað til vegurinn var mokaður.

 

Úti fyrir glugganum mínum stóð húsráðandinn og tíndi blóðrauð rifsber af búskum, sem voru hvítir af snjó. Eftir nokkurra daga slyddu- og leiðindaveður glaðnaði og kólnaði. Vegirnir urðu harðir og snjórinn var þurr og marrandi eins og kartöflumjöl.“

 

"Við Eyjafjörð."

„Fjörðurinn langi [Eyjafjörður] teygði sig eins og svartblá rönd út á milli snjóhvítra hlíðanna. Frá ströndinni var hin drif hvíta lína óbrotin upp á tinda kristallagaðra fjallanna. En norðanáttin var eins og rýtingur, og maður gat ekki staðið lengi og dáðst að náttúrufegurðinni.

 

Eitt sinn er ég var að mála niður við höfnina kom gamall maður til mín og spurði mig á stirðlegri ensku, hvort ég vildi koma og sjá myndir eftir dótturson hans; drengurinn var níu ára og hann ætlaði að verða listmálari. Þeir bjuggu í litlu húsi spottakorn frá bænum, uppi undir fjallsrótunum.  Enn voru ekki nema fáir dagar liðnir síðan síðustu heyin höfðu verið hirt af túnum og engjum þar efra.

 

Myndir drengsins voru innblásnar og lifandi. Ég gaf honum bursta og liti og gamli maðurinn gat ekki þakkað mér nógsamlega. Hann gaf mér gamla skeifu og forna látúnshringju, sem ég nota enn þann dag í dag.“

 

"Kolavinna á Oddeyrartanga".

 

„Á heimleiðinni fórum við um Seyðisfjörð og síðan til Hvalfjarðar. Seyðisfjörður er dimmblár og djúpur og þar skín sólin ekki á vetrum. Snjólína er jafnan á fjöllunum, færir sig niður í flæðarmál þegar vetra tekur, en hörfar upp undir tindana á sumrin. En hún hverfur aldrei.

 

Fólkið þar var sagt óvingjarnlegt í garð hermannanna, en eðlilegt væri, að það væri kaldara í viðmóti en Akureyringar, fjöllin og umhverfið eru skýring á því.

 

Þegar vetur nálgaðist voru norðurIjósin um allan himin, stundum eins og dauf silfurrák í órafjarlægð um þvert hvolfið; oftar þó bjartari og glæstari, með gáskafullu geislaflugi og sýndust þá koma miklu nær, ljálaga bogar í grænum og rósrauðum litum, eða fellingatjald, sem rís frá fjallatindum til himinhæða.“

 

"Reykjavík, septemberkvöld".

 

„Dagarnir styttust óðum, en himininn logaði, eins og kynt væri undir. Skýin báru mjúka liti um hádegisbil. En kuldinn og myrkrið varð mér ekki þungbært. Islenzkir vinir mínir sáu um það. Ég naut vináttu og gestrisni á fjölda íslenzkra heimila í höfuðborginni. Á meðal vina minna þar er landlagsmálarinn Kjarval, hinn mikli meistari íslenzkrar myndlistar. Hann var fyrstur til þess að skilja myndfegurð hraunbreiðanna og hins eldbrotna lands.

 

Ég hitti hann fyrst á Þingvöllum, í hraungjánni, þar sem hið fyrsta þing kom saman á sumrum, fyrr á öldum. Seinna fór hann með mig á heimili’ margra auðugra borgarbúa, sem höfðu safnað verkum hans. Sumar myndir hans voru mikilúðlegar og stórbrotnar, aðrar sýndu nærri því kvenlegt ímyndunarafl og fínleika.“

 

"Mánaskin, Reykjavík."

 

„Daginn sem ég átti að fara var stormur í aðsigi. Það var í desember, og dagurinn var ekki mikið lengri en þrjár stundir. Grár kollurinn á Esjunni reis úr móðunni, en var stundum hulinn hríðarmekki. Hríðin var líkust hagléli, en vindurinn feykti kornum eins og fjöðrum og þau festust varla á jörðunni.

 

Á einni bryggjunni var kynnt bál, svo að þegar við skildum við ísland var það ósvikin biblíumynd af eldi, myrkri og hagli, sem síðast hvarf í hafið. En þar búa spámenn og englar.“

 

 

 

 

Eftir dvölina á Íslandi tók Thomas Hennell þátt í innrásinni í Normandí og ferðaðist síðan áfram til Hollands, Indlands og Búrma. Í nóvember árið 1945 var hann drepinn af indónesískum þjóðernissinnum í Jakarta í Indónesíu.