Hvernig tengjast bandarískur sálfræðingur og bresku hljómsveitirnar Primal Scream og Tears for Fears?

 

„Þeir engdust um í krampaflogum og öskruðu og báðu foreldrana að elska sig, þeir lifðu hræðilegustu þjáningar, en komust í gegnum þær og batnaði, og búa nú með þá vitneskju í líkama sínum að veslings foreldrarnir, sem ekki heldur voru elskaðir af sínum foreldrum, gátu ekki elskað þá.“

 

Þessi orð voru rituð í Þjóðviljann árið 1977 og lýstu nýstárlegum aðferðum bandaríska sálfræðingsins Arthurs Janov. Hver er hann og hvernig tengjast tvær vinsælar breskar hljómsveitir honum?

1

 

The Primal Scream.

Bókin The Primal Scream eftir sálfræðinginn Arthur Janov.

Bókin Frumöskrið, The Primal Scream, eftir bandaríska sálfræðinginn Arthur Janov var metsölubók um allan heim á áttunda áratugnum. Janov heldur því fram að öll hugsýki manna sé bæling á sársauka sem til er kominn vegna andlegra áfalla í barnæsku. Hann lætur sjúklinga sína því endurupplifa minningar sínar frá því þeir voru lítil börn og hvetur þá til að öskra og grenja til að komast aftur á það skeið í huganum.

 

Frumöskrið kom út í janúar árið 1970 og varð gífurlega vinsæl, ekki síst eftir að John Lennon keypti bókina og gekkst í kjölfarið undir þriggja mánaða meðferð hjá Janov. Sama ár gaf Lennon út sína fyrstu sólóplötu, John Lennon/The Plastic Ono Band en talið er að margir textar plötunnar hafi orðið til í meðferðinni, til dæmis „Remember“, „Mother“, „My Mummy’s Dead“, og „Working Class Hero“.

 

James Earl Jones, leikarinn sem talsetti Svarthöfða í Stjörnustríðsmyndunum, gekkst undir meðferðina og sagðist hafa læknast af gyllinæð og náð að hætta að reykja þökk sé Janov.

 

2

 

Skoska hljómsveitin Primal Scream (sem heitir eftir bók Janovs) gaf árið 1991 út hina margrómuðu plötu Screamadelica. Þetta ár var sögulegt því þá komu einnig út Nevermind með Nirvana, Loveless með My Bloody Valentine og Blue Lines með Massive Attack. Allar teljast þessar rúmlega tuttugu ára gömlu plötur til meistarastykkja rokksögunnar.

 125-primal-scream

 

Screamadelica var framlag Primal Scream til sýruhousebylgjunnar sem skall á Bretlandsströndum undir lok níunda áratugarins. Þegar platan kom út var mikið skrifað og skrafað um fíkniefnaneyslu þeirra Bobby Gillespie og félaga í bandinu en þeir voru allir með tölu háðir heróíni í upphafi tíunda áratugarins.

 

Breski blaðamaðurinn James Brown fylgdist náið með hljómsveitinni og varð eitt sinni vitni að hávaðarifrildi. Hljómsveitarmeðlimirnir gátu ekki komið sér saman um hvort þeir ættu að panta víetnamskt, kínverskt eða indverskt. „Hvað með hamborgara?“ spurði þá annar blaðamaður sem þarna var staddur og vildi stilla til friðar. Primal Scream-menn sneru sér þá fokillir í átt að honum og hvæstu: „Við erum að tala um heróín, ekki mat!“.

 

Primal Scream mætti í breska tónlistarþáttinn Classic Albums og þar ræddu meðlimirnir, sem nú hafa snúið við blaðinu og hætt í dópi, um hvernig Screamadelica varð til:

 

Vídjó

 

3

 

Dúettinn Tears for Fears er önnur bresk hljómsveit sem dregur nafn sitt úr skrifum Arthurs Janov, hljómsveitarnafnið þýðir „tár í staðinn fyrir ótta“. Nýbylgjupoppararnir Roland Orzabal og Curt Smith voru á kafi í frumþerapíufræðunum þegar þeir stofnuðu hljómsveitina snemma á níunda áratugnum. Þeir urðu þó fyrir vonbrigðum þegar þeir hittu Janov í kringum 1985, en sálfræðingurinn stakk upp á að Tears for Fears skrifaði söngleik um aðferðir hans. Orzabal og Smith leist alls ekki á það, sáu Janov skyndilega í öðru ljósi og fannst hann vera of „Hollywoodlegur“, hallærislegur gaur.

 

En það breytir því ekki að einn helsti smellur Tears for Fears, Shout, varð til eftir að dúettinn hafði lesið Frumöskrið spjaldanna á milli.

 

Vídjó