Annar þáttur Lemúrsins var á dagskrá Rásar 1. 8. október. Fjallað var um ýmsar útópíur, veraldlegar sem ímyndaðar. Við ferðumst um heiminn en byrjum á Íslandi.
Hlustið hér á þáttinn (mp3-skrá hjá hlaðvarpi RÚV).
Umsjónarmenn eru Helgi Hrafn Guðmundsson og Vera Illugadóttir. Lesari er Atli Freyr Steinþórsson.
Dr. Werner Gerlach var aðalræðismaður Þýskalands á Íslandi á árum Þriðja ríkisins. Nasistafáninn blakti þá við hún við Túngötu 18 í Reykjavík. Þegar breskur her gekk á land á Íslandi 10. maí 1940 var eitt hans fyrsta verk að handsama þýska aðalræðismanninn.
Gerlach hafði reynt að brenna pappíra og skjöl í baðkari í dauðans ofboði áður.
Gerlach skrifaði afar áhugaverða minnispunkta um Ísland og íbúa þess. Nasistar höfðu mikinn áhuga á Íslendingum, sem þeir töldu að hlyti að vera ákaflega glæst og hreinræktuð norræn þjóð. En þegar Gerlach er kominn til Íslands skrifar hann hins vegar: „Ekkert er eftir af hinni aðalsbornu þjóð, stoltinu, heldur þrælslund, sómatilfinningaleysi, skriðdýrsháttur, niðurlæging.“
Lesið er upp úr þessum minnispunktum í þættinum. Gerlach skrifar meðal annars: „Fyrir klukkan tíu að morgni eru engin tiltök að vekja nokkurn mann og kvenfólk ekki fyrir 12. Sífellt ónæði dag og nótt af völdum brjálaðra og útúrdrukkinna manna eða hvort tveggja. Alla nóttina, klukkan ellefu, tólf, tvö, upphringingar drukkinna Íslendinga, sem heimta að fá að tala við mig.“
Eftir spjallið um útópíuna Ísland, er farið í ferðalag til tveggja furðulegra staða. Annars vegar til Fordlandiu, sem var borg iðnjöfursins Henry Ford í frumskógum Amasón í Brasilíu. Þar reyndi Ford að beisla frumskóginn og rækta gúmmítré. Það endaði með ósköpum.
Síðast en ekki síst er farið til Lemúríu en það var undraverð heimsálfa sem margir trúðu að hefði sokkið í Indlandshaf í fornöld, þar sem forfeður mannsins bjuggu innan um lemúra og risaeðlur.