Vídjó

Heimildarmyndin Fire and Ice – The Winter War of Finland and Russia (2006) greinir frá Vetrarstríðinu svokallaða, sem hófst 30. nóvember 1939 þegar Sovétríkin réðust inn í Finnland. Stríðið stóð í rúma þrjá mánuði og varð 150 þúsund manns að bana. Orsakir átakanna má rekja beint til Stalíns, sem vildi ná undir sovésk yfirráð þau svæði sem runnið höfðu frá Rússum til Finna við undirritun Brest-Litovsk samningsins 1917.

 

Finnski herinn stóð frammi fyrir gríðarlegu ofurefli, því Rauði herinn var með mun meiri mannafla og algjöra yfirburði í skriðdrekum og flugvélum. Samt tókst Finnum með hugrekki og herkænsku að verja víglínuna næstu þrjá mánuði, og út stríðið féllu fimm sovéskir hermenn fyrir hvern Finna.

 

Finnska ríkið rak auk þess kröftuga áróðursherferð og leitaði aðstoðar erlendis frá, eins og sést í eftirfarandi myndbroti sem sýnt var í bresku sjónvarpi:

 

Vídjó

Eins og hlaut að verða náði Rauði herinn að lokum yfirhöndinni og í mars 1940 neyddust Finnar til þess að undirrita friðarsamning þar sem stór hluti Karelíu gekk til Sovétríkjanna.

 

Stríðið fór þó illa með orðspor Rauða hersins og þótti undirstrika hernaðarlegan veikleika bjarnarins í austri. Á árunum áður höfðu hreinsanir Stalíns orðið bestu herforingjum landsins að bana, og herinn bjó við skipulagsleysi og vanhæfni æðstu stjórnar. Fregnir af stríðinu bárust að sjálfsögðu til Þýskalands og sýnilegur vanmáttur Rauða hersins átti sinn þátt í að sannfæra Hitler um að Sovétmenn yrðu snarlega yfirbugaðir af hersveitum Þriðja ríkisins.