Ævintýri Münchhausen baróns eru líklegast einar frægustu grobbsögur allra tíma. Þær eru eignaðar Karli Friðriki Híerónýmusi (1720-1797) fríherra frá Münchhausen (fríherra er annað orð yfir barón) sem ungur að árum gekk í rússneska herinn og barðist við Tyrki í tveimur herleiðöngrum.
Síðar gerðist hann virðulegur kaupsýslumaður sem hafði gaman að segja ýkjusögur af sjálfum sér í matarboðum. Hæfileiki hans til að segja sögur átti þó eftir að koma honum í koll. Þýskur rithöfundur, Rudolph Erich Raspe að nafni, gaf út sögur hans í Englandi árið 1875 sem ári síðar voru þýddar aftur yfir á þýsku (vert er að taka fram að sumar þessara frásagna voru eldri flökkusögur sem eignaðar voru baróninum).
Með útgáfu sagnanna á þýsku skaðaðist orðspor Karl Friðriks, sem eftirleiðis var kallaður lygabaróninn. Friðurinn á heimili hans var einnig úti þar sem fólk vildi endilega að fá að líta þennan sérkennilega mann augum. Svo mikill var ágangurinn að baróninn skipaði þjónum sínum að berja forvitna vegfarendur með prikum ef þeir kæmu of nærri heimili hans.
Sögur Münchhausen komu fyrst út í íslenskri þýðingu Þorsteins Erlingssonar árið 1913 undir titlinum Ferðir Münchhausen. Við skulum grípa niður í nokkrar frásagnir af baróninum í þýðingu Þorsteins. Fyrsta sagan segir frá ferð barónsins til Ceylon (Sri Lanka) þar sem hann, ásamt ferðafélögum sínum, lendir í ægilegum stormi. Þetta er það sem bar þeim fyrir augu:
[Stormurinn] hafði rifið upp með rótum afskaplega há trje og eftir því bolmikil. … Sum af trjám þessum ógu margar lestir og þó tók stormurinn þau svo ódæma hátt, að þau voru að sjá eins og smáfuglafiður í loftinu, því að þau tók að minsta kosti fimm mílur upp frá jörðu. En þegar storminn lægði komu trjen aftur niður úr loftinu og duttu þá þrábeint niður, hvert á sinn stað, og festu rætur öll nema það stærsta, en svo hafði viljað til, þegar það fór upp í loftið, að á grein af því sátu gömul hjón, mestu heiðursmenn, og voru að tína agúrkur, því að í þeim hluta heimsins spretta agúrkunar á trjánum.
Sagan endar á því að tréð fellur á höfuð höfðingjans á eyjunni sem var hinn mesti durtur. Önnur skemmtileg saga af Münchhausen fjallar um för hans til tunglsins. Hún hefst á því að hvirfilbylur ber skip barónsins til tunglsins og þar hittir hann ýmsar furðuverur. Svona lýsir Münchhausen íbúum tunglsins:
höfðin bera þeir í hægrihandar krika, en þá er þeir fara í langferðir, eða einhverjar harðartrjár, skilja þeir höfuðin oftast eftir heima, því þeim er jafn handhægt að ráðgast um alt við þau jafnt fyrir því, hversu langt sem þau eru í burtu, og finni einhver höfðingi eða heldri maður þeirra tunglbúa hvöt hjá sjer til þess að njósna eitthvað um almúgann, þá eru þeir heima, það er að skilja, skrokkurinn er sjálfur heima hjá sjer og sendir einungis höfuðið burtu, og er því leyfð umferð svo sem ókendu og að engu leyti á hans snærum, og leyft að snúa heim, þegar því líst, með það, sem það hefur orðið áskynja.
Á ferðum sínum lendir Münchhausen oftar en ekki í lífsháska en kemur sér jafnharðan úr honum með hugkvæmni sinni. Hér er segir baróninn frá því þegar grimmur úlfur varð á vegi hans:
[Eitt sinn] rjeðst óttalegur úlfur svo snögglega á mig og komst svo fast að mjer, að mjer varð það eitt fyrir, að reka hnefann inn í galopinn trantinn á honum. Til þess að vera viss, herti jeg á og ýtti á eftir, þar til allur handleggurinn var komin ofan í hann upp að öxl. En hverninn átti jeg svo að losa mig? Mjer þótti jeg ekkert vel staddur í þessari klípu, að horfast þarna í augu við úlf; og það voru engin ástaraugu, sem við rendum þar hvor til annars. Drægi jeg að mjer handlegginn var hann vís með að rjúka á mig enn þá vitlausari en áður, því að augun tindruðu í honum. Það er styst að segja, að jeg tók með hendinni í rófuna á honum, og sneri honum um að endilöngu eins og vetlingi, slengdi honum niður og ljet hann liggja þar eftir.
Við skulum nú hverfa um 150 ár fram í tímann eða til seinna stríðs. Árið 1942, á meðan hermenn þýska hersins börðust fyrir lífi sínu í rústum Stalíngrad, ákvað Joseph Göbbels, áróðursmálaráðherra nasista, að framleiða skyldi ævintýramynd um baróninn tungulipra. Átti hún að vera frumsýnd á 25 ára afmæli UFA, stærsta kvikmyndaframleiðslufyrirtæki Þjóðverja.
Munchhausen (1943) átti að sýna Þjóðverjum í eitt skipti fyrir öll að þeir stæðu öðrum þjóðum framar í kvikmyndagerð. Hún átti að vera íburðameiri en glamúrmyndir Hollywood (en Babelsberg Studios, þar sem kvikmyndin var framleidd, átti að leysa Hollywood af hólmi að stríði loknu sem borg draumanna) og í lit sem jafnaðist á við Technicolormyndir Bandaríkjamanna.
Myndin var að mörgu leyti afrek, og þá ekki síst í ljósi þeirra aðstæðna sem hún var gerð. Gríðarstórar sviðsmyndir voru byggðar, til dæmis eftirlíking af Feneyjum með síkjum og gondólum, og ekki voru leikmunirnir síðri samanber heljarinnar tertu er inniheldur dverg sem spilar á lítinn sembal.
Myndin varð mjög vinsæl í Þýskalandi enda kærkomin afþreying á þessum skelfilegu tímum. Hún fékk aftur á móti takmarkaða dreifingu utan Þýskalands eins og gefur að skilja. Fyrir áhugasama, þá fylgir hlekkur á myndina hér fyrir neðan.
Münchhausen (1943)
45 árum eftir að Münchausen var frumsýnd í Þýskalandi gerði bandaríski leikstjórinn, og fyrrum meðlimur Monty Python gengisins, Terry Gilliam, sína útgáfu af ævintýrum barónsins.
Myndin er einna helst fræg sem mesta flopp níunda áratugarins. Hún var fokdýr og fór langt fram úr áætlun. Það sem gerði illt verra var að nýir eigendur Columbia útgáfufyrirtækisins sem framleiddi myndina ákváðu að myndin fengi takmarkaða dreifingu. Þrátt fyrir þetta hlaut The Adventures of Baron Munchausen (1988) mikið lof gagnrýnenda, en áhorfendur létu sig engu að síður vanta.
The Adventures of Baron Munchausen (1988), stikla.