Frá árinu 1954 hefur súkkulaðidrykkurinn Pucko verið gífurlega vinsæll hjá frændum okkar Svíum og er af mörgum talinn vera þeirra þjóðardrykkur. Súkkulaðimjólkina drekka þeir vanalega með pylsum og er sú blanda jafn þjóðleg hjá þeim og Bæjarins Beztu og kók hjá Íslendingum.
Nafnið á drykknum er fengið af orðinu pucko sem þýðir einfaldlega bjáni eða vitleysingur. Þannig er ekki óalgengt að heyra við pylsuvagna á vesturströnd Svíþjóðar og þá sérstaklega í Gautaborg, menn panta sér Stokkhólmara og hálf-spesíal (pylsa með kartöflumús), eða bjána og pylsu.
Svíar elska ekki bara súkkulaðimjólkina og pylsurnar, því þeir dýrka kvikmynd Hrafns Gunnlaugssonar Hrafninn flýgur. Fær höfundur undantekningalaust að heyra þegar hann kynnist nýjum Svíum hin fleygu orð „þungur hnífur“. En hvernig tengist víkingamyndin Hrafninn flýgur súkkulaðimjólk?
Jú, árið 1993 lék einn ástsælasti leikari Íslands, Helgi Skúlason heitinn, í auglýsingu fyrir áðurnefndan drykk. Þar er hann í gervi kúreka sem er að skjóta á flöskur og skýtur þær allar í spað þar til hann kemur að seinustu flöskunni, Pucko flöskunni. Skemmst er frá því að segja að kúlan hrekkur af flöskunni og til baka í Helga og gerir hann að „bjánanum“.