Skoski matreiðslumeistarinn Gordon Ramsay er ekki allra. Hann hefur að minnsta kosti unnið að því hörðum höndum um árabil að skapa ímynd af sjálfum sér sem algerum fávita. Sem er frekar fávitalegt.

 

Á Íslandi er hann sennilega þekktastur fyrir hræðilega þætti eins og Hell’s Kitchen eða Masterchef US, þáttaraðir sem ganga meira út á tilfinningalegt niðurbrot og niðurlægingu en matinn sjálfan – sem ætti auðvitað að vera í aðalhlutverki í matreiðsluþáttum. Svo eru þættir sem heita Kitchen Nightmares… því minna sem er sagt um þá þætti, því betra.

 

En nú verðum við að átta okkur á því að þessi blótandi fáviti hefur unnið sér inn 15 Michelin stjörnur á ferli sínum sem matreiðslumeistari. Hann hlýtur bara að kunna eitthvað til verka. Hann hlaut auðvitað eldskírn sína hjá goðsögninni Marco Pierre White, en um hann hefur lemúrinn einmitt fjallað. Og það er auðvelt að sjá taktana sem Ramsay hefur lært hjá White, sem átti það einnig til fleygja blótsyrðum hingað og þangað. En burtséð frá blótsyrðum og ömurlegri ímynd, þá kann þessi fáviti að elda.

 

Í þáttunum Gordon Ramsay’s Ultimate Cookery Course má nefnilega sjá nýjan Ramsay. Mann sem einbeitir sér að matnum, mann sem gefur manni góð ráð sem eiga eftir að koma sér vel. Í þáttunum, sem eru þematengdir, kynnir Ramsay til leiks 100 uppskriftir sem þú getur „veðjað lífi þínu á.“ Þær eru allar auðveldar í framkvæmd, jafnvel fyrir byrjendur. Og inn á milli gefur Ramsay góð ráð, svona „tips,“ sem koma í alvörunni að góðum notum. Svona eiga matreiðsluþættir að vera! Þar að auki er hann óhræddur við að sýna áhorfendum matinn sem hann elskar og er óhræddur við að nota krydd – óhræddur við að hafa bragð af matnum. Þetta er þáttur fyrir fólk sem kann að meta góðan mat!

 

Mahlzeit mælir hiklaust með þessum þáttum, sem eru blessunarlega allir á myndbandavefnum youtube. Hér má til dæmis sjá þriðja þáttinn í seríunni, þar sem þemað er hinn guðdómlegi chili-pipar. Njótið!

 

Vídjó