Í Montréal í Kanada býr Harley Morenstein, fyrrverandi forfallakennari. Undanfarið ár eða svo hefur hans helsta verkefni verið að búa til vefþætti (wepisodes) um heldur óvenjulega matreiðslu, svo vægt sé til orða tekið. Morenstein hefur ásamt vinum sínum skapað matreiðsluþættina Epic Meal Time, en þættirnir njóta sífellt meiri vinsælda og eru þeir orðnir að svokölluðu „költ-fyrirbæri.“

 

Hugmyndin varð til einhvern tímann þegar Morenstein var á leið heim til sín af galeiðunni. Ákvað hann að stoppa fyrst til að seðja hungrið með skyndibita, eins og fólk á til að gera eftir talsverða áfengisneyslu. Úr varð sannkölluð kalóríusprengja sem dvergar hvaða Hlöllabát sem er, en Morenstein ákvað þá að vefja nokkrum hamborgurum, popp-kjúklingi, frönskum, tortillum og fleira góðgæti innan í stóra ostapizzu. Vinur hans var til staðar til að kvikmynda ósköpin og síðan hafa Morenstein og félagar ekki stoppað.

 

Nú er svo komið að Epic Meal Time-klíkan er farin að fá talsverðar tekjur af þáttunum, og hafa þeir því flestir sagt upp störfum sínum, til þess að geta einbeitt sér að almennri ölvun og skyndibita – skyndibita sem er af allt öðrum heimi eftir meðferð þeirra félaga.

 

Jack Daniels viskí og beikon eru fastir gestir þáttaraðarinnar, en annars verður að viðurkennast að ímyndunarafl þessarra kanadísku „matgæðinga“ er ansi frjótt. Einhverjum kynni að detta í hug líkingin við að koma að lestarslysi; það er vissulega hryllilegt, en á sama tíma er erfitt að horfa undan. Það er í öllu falli ljóst að Epic Meal Time virðist bera litla virðingu fyrir umhverfi sínu, lífríki og auðlindum… eða hvað? Sumir vilja halda því fram að það sé einmitt markmiðið, að sýna fram á það með öfgunum hve bjagað og sýkt gildismat okkar vesturlandabúa er orðið. Þar kann að vera sannleikskorn, enda höfða þættirnir á vissan hátt til sektarkenndarinnar, öll langar okkur (kjötætum hið minnsta) að taka stóran bita af þessum beikonvafða skyndibita þegar enginn sér til… Það hafa allir veikan blett, það eiga allir matgæðingar „guilty pleasure.“

 

Hér má sjá Epic Meal Time bjóða vinum sínum í Þakkargjörðarmáltíð, en þátturinn var framleiddur fyrir rétt rúmum mánuði. Varað er við myndskeiðinu af þessum Turbaconepicentipede en það er alls ekki fyrir viðkvæmar sálir, ekki frekar en kvikmyndirnar um Human Centipede.

 

Vídjó