Framtíðin hefur verið fólki hugleikin á tímum vísinda- og iðnbyltinga. Tuttugusta öldin var blómaskeið vísindaskáldskapar. Sýningar þar sem iðnfyrirtæki lofuðu fólki glæstri framtíð og glitrandi turnum nutu mikilla vinsælda í Bandaríkjunum, framtíðarlandi þeirrar aldar. Borgarskipulag og arkitektúr er kannski skýrasta tákn framtíðarinnar í bæði skáldverkum og auglýsingum sem selja okkur lífsstíl næstu áratuga.
 

Á fyrri helmingi tuttugustu aldar var New York tákn þess sem koma skyldi. Innflytendur streymdu í gegnum borgina á vit nýrra tækifæra innan um skýjakljúfa sem gnæfðu yfir strætunum hver öðrum hærri og áttu sér engan líka í heimalöndum þeirra. Það er því ekki að undra að hún hafi verið fyrirmynd framtíðarborgarinnar.

 

Árið 1930 kom út rómantíski gaman-söngleikurinn Just Imagine sem gerðist í New York ársins 1980. Myndin var sú fyrsta og jafnframt síðasta af þeirri tegund og þykir ekki merkileg nema fyrir sakir borgarlíkansins sem var smíðað fyrir leikmyndina.

 

Líkanið var það stærsta sem byggt hafði verið fyrir Hollywood fram að þessu og var sett saman í yfirgefnu loftskipaskýli. Það var um það bil 23 metrar á breidd og næstum 70 metrar á lengd. Hæsti skýjakljúfurinn var 12 metrar á hæð. Hann átti að vera næstum 600 metrar á hæð í fullri stærð.

 

Líkanið var í áþekkum stíl og Art Deco-háhýsi samtímans, eins og Empire State-byggingin og Rockafeller-turninn. Umferðin fór fram á mörgum lögum, hengibrýr á milli turnana svifu yfir marg-akreina hraðbrautum sem voru færibönd í líkaninu. Í myndinni flugu svo flugvélar í þéttum hópum yfir öllu saman.

 

Allt var gert til að líkja sem best eftir borg í fullri stærð. Bílar streymdu eftir færiböndunum og alvöru gler var notað í gluggana. Minnstu smáatriði voru mótuð í þau fimm tonn af múrhúð sem fóru í gerð líkansins.

 

 

Margir hafa ruglað myndum af líkaninu saman við leikmyndina úr Metropolis eftir Fritz Lang, plaköt hafa meira að segja verið gefin út fyrir myndina sem sýna líkanið úr Just Imagine í staðinn. Stílinn er á margan hátt svipaður, og Metropolis er þekktari og eftirminnilegri.

 

Lang sjálfur sótti innblástur til New York-borgar og mynd hans átti þátt í vinsældum Art Deco í bæði Evrópu og Ameríku.

 

Úr Metropolis.

 

Fyrirmynd módelsins í Just Imagine var þó ekki að finna í expressónísku meistaraverki þýskrar kvikmyndagerðar heldur borgarskipulagi New York sem byrjað var á 1922. Hér að neðan má sjá mynd sem teiknuð var fyrir útgáfu þess árið 1930 af fyrirhuguðu breiðstræti.

 

Hugmyndin um að umferð framtíðarborgarinnar færi fram í mörgum lögum var sótt til arkitektsins Harvey Corbett sem sá fyrir sér að New York árið 1970 myndi helst líkjast nútímalegum Feneyjum, þar sem gangandi vegfarendur gengu um brýr yfir skurðum fullum af bílum en ekki vatni.

 

 

Til vinstri: Breiðstræti í borgarskipulagi New York árið 1922. Hægri: Bílaumferð í skurðum á framtíðarsýn Harwey Corbetts. Smellið á myndina til að stækka hana.

 

Skýrustu áhrifin má þó finna í teikningum listamannsins Hugh Ferriss, sem hafði einna mest áhrif á það hvernig samtíðarmenn hans sáu fyrir sér borg framtíðarinnar með bók sinni „The Metropolis of Tomorrow“ frá 1929.

 

Drungalegar teiknikolamyndir hans sýna skýjaklúfa eins og fjallstinda umkringda lægri byggingum eins og fjallsrótum. Hjá honum streymir umferðin líka eftir mörgum lögum í gegnum byggingar og á milli þeirra.

 

 

Hér má svo sjá byrjunaratriði myndarinnar Just Imagine, þar sem aðalpersónurnar fljúga yfir borgarlíkaninu mikla:

Vídjó

 

Tengdar greinar:

Morð, háhýsi, líf og fjör í New York-borg

New York árið 1943 og enn fleiri myndir af New York á Lemúrnum

Viðtal við Fritz Lang, meistara myrkursins