Hver kannast ekki við leikarann Hugh Laurie?
Hann kom fram ásamt Stephen Fry í breskum grínþáttum á borð við Jeeves & Wooster og Blackadder, og í dag er hann heimsþekktur í hlutverki House læknis í samnefndum sjónvarpsþáttum.
Ekki allir vita að Laurie er mikill áhugamaður um blústónlist, og leikur bæði á gítar og píanó. Myndskeiðið hér að ofan er úr gömlu BBC grínþáttunum A Bit of Fry and Laurie, þar sem ungur Laurie flytur stórkostlega dæmigert (en frumsamið) blúslag: „Too Long, Johnny“.
Í dag er Hugh Laurie hins vegar einn hæstlaunaðasti leikari Bandaríkjanna. Peningum fylgir visst frelsi og frægðin opnar ýmsar dyr. Árið 2011 ákvað hann að láta langþráðan draum verða að veruleika og tók upp sína fyrstu plötu, og það með aðstoð færustu manna í bransanum.
Afraksturinn var breiðskífan Let Them Talk, en hún er samansafn af gömlum og góðum blúslögum í flutningi Lauries. Á völdum lögum fékk hann auk þess í lið við sig stórmeistara á borð við Dr. John, Irmu Thomas og Tom Jones.
Bandaríska sjónvarpsstöðin PBS gerði stutta heimildamynd, „Let Them Talk: A Celebration of New Orleans Blues“, en hún segir frá tónlistarævintýrum Lauries og sýnir hann m.a. spila í New Orleans, mekku blúsins.
Hér er lagið „Six Cold Feet“ af plötu Lauries:
Og svo „You Don’t Know My Mind“ af sömu plötu: