Ho Chi Minh í jakkafötunum sem hann tók á leigu til að koma vel fyrir á ráðstefnu Þjóðabandalagsins. Á myndina vantar kúluhattinn sem hann tók einnig á leigu.

 

Maðurinn á þessari mynd heitir Nguyen Sinh Cung. Þegar myndin var tekin, í júní 1919, var hann ungur námsmaður í Frakklandi. Í seinni tíð er hann þó betur þekktur undir nafnu Ho Chi Minh og þekktur sem byltingarleiðtogi kommúnista í Víetnam. Myndin er tekin á friðarráðstefnu Þjóðabandalagsins í Versölum. Hinn fátæki Minh lagði sig allan fram við að koma vel fyrir og höfða til hinna siðmenntuðu og vestrænu stórþjóða en hann leigði jakkafötin sérstaklega fyrir tilefnið.

 

Markmið Minh var að biðla til Woodrow Wilson, forseta Bandaríkjanna, um hjálp við að losa Víetnam undan oki Frakka og koma á sjálfstæðu ríki og ríkisstjórn. Í hinum svokölluðu Fjórtán punktum sem Wilson hafði lagt fram árið 1918 lagði hann höfuðáherslu á sjálfsákvörðunarrétt sérhverrar þjóðar. Það var því aðeins rökrétt að Minh reyndi að ná tali af honum.

 

En Minh fékk ekki einu sinni að hitta Wilson og plaggið sem Minh kom með á fundinn var aldrei borið undir bandalagið. Eftir á að hyggja átti Minh aldrei möguleika á að ræða við Wilson á jafnréttisgrundvelli enda voru öll þau grunngildi sem Wilson mótaði líf sitt eftir honum í óhag: Rasismi, nýlendustefna og kommúnistahatur. Hann var dæmdur úr leik áður en leikurinn hófst.

 

Ho Chi Minh sem og leiðtogar flestra þeirra þjóða sem ekki komu frá hinum vestræna heimi komust að því að það frelsi og sjálfstæði sem Wilson hafði boðað var aðeins forgangsmál fyrir vestræn Evrópulönd. Hinar þjóðirnar þurftu flestar að vinna fyrir því með vopnavaldi en ekki fyrir tilstilli örlætis nýlenduherra sinna.