Gleðilegt ár, kæri lesandi! Í dag, 1. janúar, höldum við ekki einungis upp á fyrsta dag á nýju ári heldur einnig hinn árlega Public Domain-​​dag. 

 

Höfundaréttur í löndum Evrópusambandsins, og víðar, heldur 70 ár eftir and­lát, sem þýðir að þegar árið 2013 gekk í garð nú fyrir skömmu datt úr gildi höf­unda­réttur þeirra sem lét­ust árið 1942. Verk þeirra verða þá almenn­ingseign (e. public domain), og almenn­ingi því frjálst að deila þeim og njóta án endurgjalds.

 

Lemúrinn hélt fyrst upp á Public Domain-daginn fyrir ári síðan og voru það þá meðal annars tveir risar í enskum bókmenntum á 20. öld, James Joyce og Virginia Woolf, sem urðu almenningseign. Margir glöddust sérstaklega að Joyce hefði verið „frelsaður“, en dánarbú hans þótti sérstaklega hart í horn að taka. Slíkar stórfréttir verða ekki á árinu 2013, en þó eru margir áhugaverðir listamenn meðal þeirra sem misstu höfundarrétt sinn um áramótin. Lítum á nokkra:

Verk austurríska rithöfundarins Stefan Zweig (1881-1942) komast í almannaeigu árið 2013 — þó einungis á frummálinu, þýsku, en þýðingar eru yfirleitt lengur í höfundarrétti. Zweigs er í dag aðal­lega minnst fyrir sjálfsævi­sög­una Veröld sem var, en á þriðja og fjórða áratug síð­ustu aldar var hann stór­stjarna í bók­mennta­heim­inum og skrifaði fjölda skáldsagna sem þýddar voru á fjölda tungumála og nutu vinsælda um allan heim.

 

Zweig var Gyðingur og flúði stríðsbröltið í Evrópu til Brasilíu þar sem hann framdi sjálfsmorð árið 1942. Lemúrinn hefur áður birt grein sem Zweig skrifaði í Brasilíu: „Í heimsókn hjá Kaffi konungi“.

 

 

Eftir pólska Gyðinginn Bruno Schulz (1891-1942) liggja einungis tvö smásagnasöfn, Krókódílastræti frá 1934 (til í íslenskri þýðingu Hannesar Sigfússonar) og Heilsuhæli undir merki stundarglassins frá 1937. En þrátt fyrir að höfundarverkið sé ekki stórt hafa draumkenndar lýsingar hans á lífinu í heimaborg hans Drohobych, sem þá var Pólland en er nú Úkraína, fest hann í sessi sem einn helsta stílista pólskra bókmennta.

 

Schulz var einnig myndlistamaður, myndskreytti eigin bækur og málaði málverkið hér að ofan, Ungur Gyðingur og tvær konur í húsasundi frá 1920.

 

 

 

Eric Ravilious (1903-1942) var enskur myndlistamaður, sem þekktastur er fyrir vatnslitamyndir sínar af heimahögum sínum í Sussex í suður-Englandi. Í seinni heimsstyrjöld var Ravilious útnefndur ‘stríðslistamaður’ og tók þá til við að mála herskip og kafbáta breska sjóhersins. Hann var sendur til Íslands að mála síðsumars árið 1942, en lést örfáum dögum eftir komuna þegar herflugvél sem hann var farþegi í fórst einhverstaðar við Íslandsstrendur.

 

Hér að ofan er verkið Beachy Head frá 1939. Verkið efst í greininni er einnig eftir Ravilious.

 

 

Bandaríski málarinn Grant Wood (1891-1942) málaði eitt frægasta málverk tuttugustu aldar: American Gothic, af hinum alvarlega bónda með heykvíslina og dóttur hans. Önnur verk Woods eru ekki eins þekkt, en málverk hans sýna yfirleitt sveitalíf í miðvesturríkjum Bandaríkjanna. Hér að ofan er Stone City, Iowa frá 1930.

 

 

Walter Sickert (1860-1942) hefur verið kallaður mikilvægasti breski málarinn á milli Turners og Bacons, og málverk hans brúuðu bilið milli impressjónisma og módernisma. Hann er einnig grunaður um að vera fjöldamorðinginn frægi Jack the Ripper, en það er önnur saga. Hér að ofan er verkið Mornington Crescent Nude, Contre-Jour frá 1907.

 

Auk þessara eru tveir af frumkvöðlum mannfræðinnar og dýrlingur meðal þeirra sem misstu höfundarrétt sinn um áramótin, en nánari umfjöllun má finna í vefritinu Public Domain Review.