Þeir Íslendingar sem hafa eytt einhverjum tíma á meginlandi Evrópu kannast sennilega við að grípa með sér döner þegar hungrið steðjar að. Flestir sem þessi uppgrip hafa stundað, kannast sennilega einnig við að hafa verið undir áhrifum áfengis á sama tíma. Eða þá kannast kannski enginn við þetta?
Í öllu falli hefur reynst erfitt að verða sér úti um góðan döner á Íslandi, með fullri virðingu fyrir Kebab-húsinu sem er starfrækt á tveimur stöðum í Reykjavík. Þar hefur verðið sennilega eitthvað um að segja, sem skilur einfaldlega eftir sig slæmt bragð í munni. Það er bara rangt að þurfa að borga jafngildi 7-8 evra fyrir döner.
En nú er komin lausn á þessu agalega vandamáli. Matargagnrýnandi breska blaðsins The Guardian, Tim Hayward, sýnir hérna hvernig á að búa sér til sinn eigin döner. Leiðbeiningarnar eru skýrar og skilmerkilegar, og fylgja ljósmyndir hverju skrefi. Hayward stingur upp á að notað sé lambakjöt, en í raun má nota hvaða kjöt sem er. Þá eru þetta auðvitað leiðbeiningar frá Bretlandseyjum, en mismunandi útgáfur þessa lostætis skipta hundruðum, ef ekki þúsundum. Eftir stendur að með þessum leiðbeiningum má fá kjötið í ákjósanlegu formi, og síðan er einfaldlega hvers og eins að laga dönerinn að sínum smekk.