Þessi glæsilega skepna er afrískur villiköttur eða gresjuköttur, leptailurus serval. Árið 2004 sótti einhver Íslendingur um leyfi til landbúnaðarráðuneytisins að fá að flytja inn sæði úr slíkum ketti frá Bandaríkjunum, til sæðingar á íslenskum húsköttum. Guðni Ágústsson, þáverandi landbúnaðarráðherra, hafnaði umsókninni. Morgunblaðið sagði frá málinu 14. júlí 2004:

 

„Umsókn fyrir innflutningi á sæði úr afrískum villiketti, Leptailurus Serval, til sæðingar á íslenskum læðum barst ráðuneytinu í október sl. Allir umsagnaraðilar leggjast gegn innflutningnum.“

 

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra 1999-2007, og afrískur gresjuköttur. Guðni er til vinstri á myndinni.

 

Yfirdýralæknir sagði mál afríska villikattasæðisins „allsérstætt“. Mat hann það svo að samneyti afrískra villikatta og íslenskra húskatta væri ekki æskilegt, meðal annars sökum mikils stærðarmunar. Gresjukettir verða allt að metri á lengd, en meðal húsköttur aðeins 46 sentimetrar. Einnig benti yfirdýralæknir á að gresjukötturinn eigi það til að leggjast á alifugla — það væri sennilega ekki hægt að útiloka að hugsanleg afkvæmi hans á Íslandi myndu apa eftir föður sínum þá hegðun.

 

„Embætti yfirdýralæknis segir þetta mál vera allsérstætt. Af dýraverndunarsjónarmiðum telur embættið ekki rétt að mæla með innflutningnum þar sem framkvæma þurfi keisaraskurð á læðunum til að bjarga afkvæmunum. Sérfræðinefnd um framandi lífverur segir að vegna stærðarmunar umræddra kattartegunda þurfi að skoða málið gaumgæfilega út frá sjónarmiðum um dýravernd.

 

Villikötturinn lifir upprunalega á gresjum Afríku og í umsögn Umhverfisstofnunar kemur m.a. fram að lengd búksins geti orðið allt að einn metri, rófan allt að 45 cm löng og hæðin allt að 62 cm. Vekur stofnunin athygli á að afríski villikötturinn sé á alþjóðlegum lista tegunda villtra plantna og dýra sem eru í útrýmingarhættu. Vitað sé að kötturinn hafi lagst á alifugla og lifi einkum á hérum, rottum, íkornum, skriðdýrum og fuglum.“

 

Hefði ekki verið skemmtilegt að rekast á þennan í Þingholtunum?