Fyrir nokkrum vikum sagði Lemúrinn frá sovéska lækninum Sergei Bryukhonenko og undarlegum tilraunum hans með afskorna hundshausa, sem leiddu til fyrstu hjarta- og lugnavélarinnar. Hundshausar Bryukhonenkos fönguðu athygli Evrópubúa, sem var sovéskum yfirvöldum mjög að skapi — þeim var mikilvægt að sýni yfirburði vísindamanna sinna á heimsvísu.

 

Annar liður í því starfi var leynileg rannsóknarstöð sem reist var fyrir utan Moskvu skömmu eftir seinni heimsstyrjöld. Fremstu vísindamenn Sovétríkjanna voru fengnir til starfa, markmið þeirra var aðeins að gera merkilegar uppgötvanir sem sönnuðu að sovéskir vísindamenn væru þeir bestu í heimi. Þótt ótrúlegt megi virðast snérust rannsóknir þessara bestu vísindamanna í heimi enn um hundshausa.

 

Meðal þessara frumkvöðla var Vladimir Demikhov, sem hafði áður verið læknir í Rauða hernum. Helsta ástríða Demikhov voru líffæraflutningar. Slíkt var þá nær óþekkt fyrirbrigði. Demikhov dreymdi um að gera flutninga á hjörtum og lungum milli manneskja að veruleika.

 

Einkunnarorð Demikhovs voru tilvitnun í annan frægan rússneskan lækni, hvers tilraunir á hundum hafa einnig öðlast heimsfrægð, Ivan Pavlov (einnig góðkunningi Lemúrsins): „Óendanlega fjölbreytilegar tilraunir eins langt og hugvit mannsins leyfir — það er höfuðregla lífeðlisfræðirannsókna.“

 

Demikhov hófst strax handa við slíkar rannsóknir í hinni nýju rannsóknarstöð. Rannsóknir sem hann framkvæmdi auðvitað á hundum.

 

Árið 1946 tókst honum að græða nýtt hjarta í hund, og árið þar á eftir — lunga. Árið 1952 gerði hann fyrstu kransæðahjáveituaðgerðina, á hundi.  En það var enn önnur tilraun Demikhovs sem fangaði athygli almennings. Árið 1954 afhjúpuðu Sovétríkin með stolti nýjustu sköpun sósíalismans: tvíhöfða hund.

 

 

Hundurinn var ‘búinn til’ með því að græða höfuð, axlir og framlappir á hvolpi einum á hálsinn á fullorðnum þýskum schäfer-hundi. Alls bjó Demikhov til tuttugu slíka blendinga en svo illa tókst til að þeir dóu flestir úr sýkingum fljótlega eftir skurðaðgerðina. Sá sem entist lengst lifði í 29 daga.

 

Hvuttarnir voru þannig í raun engu bættari við það að hafa fengið aukahöfuð.

 

 

Hundar Demikhovs vöktu gríðarlega athygli um heim allan. En þeir og skapari þeirra voru einnig  gagnrýndir harkalega og Sovétríkin sökuð um að vera einungis að reyna að vekja umtal.

 

Demikhov hélt því hins vegar statt og stöðugt fram að svo væri ekki, hann væri að þessu í alvöru og með þessu væri skýr læknisfræðilegur tilgangur. Hann hafði nú þegar sýnt fram á að hægt var að græða líffæri úr einni lífveru í aðra lífveru. Æðsta markmið Demikhovs var að geta grætt nýtt hjarta og lungu í lifandi manneskjur. Og þessir hundar voru eitt skref í þá átt.

 

 

Árið 1960 gaf Demikhov svo út bókina Tilraunir með líffæraflutning, fyrsta og lengi vel eina fræðiritið um líffæraflutning. Og nemandi hans var suðurafríski skurðlæknirinn Christiaan Barnard, sem árið 1967 græddi fyrstur allra nýtt hjarta í mann.

 

Vídjó