Allir þeir sem hafa átt líf sitt undir hjarta- og lugnavél mega meðal annars vera þakklátir sovéska lækninum Sergei Bryukhonenko. Á þriðja áratug síðustu aldar fann hann upp fyrstu slíku tæknina, vél sem hann kallaði autojektor.

 

Vélina smíðaði Bryukhonenko í ákveðnum tilgangi — að stýra flæði blóðs og súrefnis um hundshöfuð. Hundshöfuð sem Bryukhonenko hafði skorið af líkama sínum. En með hjálp autojektorsins tókst lækninum að halda afskornu höfðinu á lífi og með fullri meðvitun í rúmar þrjár klukkustundir.

 

 

 

Árið 1928 fór Bryukhonenko með hundshausana sína á alþjóðlegt læknaþing í Moskvu og sýndi áhorfendum hvaðanæva úr heiminum. Hundshaus nokkur var látinn bregðast við ýmiss konar áreiti og hljóðum, svo enginn vafi léki á að hann væri með fullri meðvitund. Hausinn gat jafnvel kyngt ostbita, þó að bitinn kæmi að vísu strax siglandi aftur út um hálsinn á dýrinu.

 

Sergei Sergeivich Bryukhonenko, 1890-1960.

Þetta sjónarspil vakti mikla athygli um alla Evrópu, eins og vafalaust var aðalmarkmið sovéskra yfirvalda með því að láta Bryukhonenko troða upp á læknaþinginu.

 

Leikskáldið George Bernard Shaw skrifaði til að mynda lesendabréf í þýska dagblaðið Berliner Tageblatt þar sem hann lýsti hrifningu sinni á þessari nýju tækni. Hann stakk upp á að hún yrði notuð til að lengja líf dauðvona fræðimanna. Hann sá fyrir sér að hvikult hold snillinga yrði fjarlægt svo að heilinn gæti lifað áfram sem vitsmunir einir saman. Heilu háskólunum væri síðan stýrt einungis af höfðum án líkama.

 

Hann hélt áfram: „Sjálfur gæti ég vel hugsað mér að verða hálshöggvinn svo ég gæti haldið áfram að semja leikrit og bækur án þess að þurfa að veikjast, án þess að þurfa að klæða mig í og úr, án þess að þurfa að borða, án þess að gera neitt nema framleiða bókmenntaleg meistaraverk.“

 

 

Skýringarmynd á starfsemi autojektorsins.

 

Nokkrir af hundum Bryukhonenko hafa öðlast eilíft líf í kvikmyndinni „Tilraunir í endurlífgun lífvera” sem sovésk yfirvöld létu gera árið 1940. Þar má sjá hundshaus leika sömu kúnstir og á læknaþinginu í Moskvu, ásamt skýringum á starfsemi autojektorins. Í lok myndarinnar framkvæmir Bryukhonenko svo enn annað kraftaverkið, það sem hann fór að sýsla við eftir að hundshausarnir fönguðu athygli Evrópu.

 

Lifandi hundur—í heilu lagi—er lagður á skurðarborðið og úr honum sogað allt blóð, með þeim óhjákvæmilegu afleiðingum að hann deyr. Tíu mínútum síðar er hundurinn fyrrverandi tengdur við autojektorinn og blóðinu pumpað aftur í gegnum æðar hans. Hjartað í hundinum hrökk í gang, og samkvæmt þuli myndarinnar lifði hann hamingjusamlega til æviloka eins og ekkert hefði í skorist.

 

Það kunna að vera ýkjur. En myndina má sjá hérna að neðan:

Vídjó