Sjónvarpsþátturinn Rainbow var heilnæmt barnaefni í anda Sesamstrætis, sem Thames Television framleiddi á árunum 1972 til 1992. Í þáttunum átti umsjónarmaðurinn Geoffrey Hayes fullt í fangi með að hafa hemil á skrípalátunum í bangsaklaufanum Bungle, bleika fílnum George og hinum athyglissjúka Zippy.

 

Yfirleitt lærðist brúðunum einhver mikilvæg lífssannindi í hverjum þætti, milli þess sem sungið var um töfraheim bók- og tölustafanna.

 

Þeir sem unnið hafa á stórum vinnustöðum kannast ef til vill við að starfsfólkið sjái að einhverju leyti sjálft um skemmtiatriði á árshátíðum eða jólaskemmtunum – til að mynda með söng, leikþætti eða myndbandi.

 

Stutt grínmyndband var einmitt það sem framleiðendur Rainbow gerðu fyrir jólaskemmtun starfsfólks Thames Television árið 1979, en í myndbandinu bregða Hayes og brúðurnar á leik með talsvert öðrum hætti en venjulega.

 

Vídjó

 

Brúðurnar og umsjónarmaðurinn eru sakleysið uppmálað þrátt fyrir mjög augljósan orðaleik og skondin skrauthvarfaheiti. Þó svo að myndbrotið hafi ekki verið ætlað almenningi var það dregið úr glatkistunni árið 1997 og sýnt í skemmtiþættinum TV Offal á Channel 4.