Opinberar aftökur voru stundaðar í Frakklandi allt fram til ársins 1939, enda voru þær helsta skemmtun þjóðarinnar í aldaraðir. Þann mikla heiður að taka þátt í síðustu opinberu aftökunni, að vísu nauðugur viljugur, fékk morðinginn og Þjóðverjinn Eugen Weidmann.
Hann hafði rænt og drepið bandarískan danskennara tveimur árum fyrr, og síðan tekið æði og drepið fimm manns í viðbót þegar upp um hann komst. Málið fékk gríðarlega fjölmiðlaathygli og því mátti búast við miklum áhuga á aftöku Weidmanns. Þá var svo komið að yfirvöld kunnu illa við þá miklu athygli sem aftökur fengu. Þau ákváðu að reyna að láta sem minnst á því bera þegar Weidmann kveddi þennan heim.
Kveðjustund hans var því látin fara fram klukkan fjögur að nóttu, aðfaranótt 17. júní, á torgi einu í Versölum. En yfirvöld vanmátu ákafan áhuga landa sinna á slíkri skemmtun.
Hundruðir unnenda fallaxarinnar söfnuðust saman í bænum kvöldið áður og drukku stíft fram á nótt. Þegar nálgast tók aftökuna flæddi fólkið inn á torgið og slóst um fremstu plássin. Til þess að gera sem minnst úr uppákomunni höfðu yfirvöldin sleppt því að þessu sinni að reisa sérstakan pall undir fallöxina eins og vanalega var gert. Því gátu færri séð hvað gerðist, en á móti kom að áhorfendur gátu komist mun nær sjálfri fallöxinni en vanalega.
Og á meðan heldrukkinn lýðurinn æpti, öskraði og slóst uppgötvaði böðullinn sér til hryllings að hálsraufin – sem heldur haus hins dauðadæmda föstum – var skökk. Höfuð hins dauðadæmda fanga passaði augljóslega ekki í raufina. Í stað þess að reyna að laga hana reyndu menn enn að flýta sér og drífa aftökuna af. Aðstoðarmaður böðulsins var látinn standa fyrir framan fallöxina og toga í hár og eyru Wiedmans til að halda honum föstum.
Síðan féll öxin: höfuðið losnaði af eins og lög gerðu ráð fyrir, og aðstoðarmaðurinn hentist til baka, útataður í blóði sem spýttist úr hálsi líksins yfir áhorfendaskarann.
Nokkuð mun hafa sljákkað í fögnuði mannfjöldans þegar hann fékk yfir sig blóðspýjuna úr strúpa hins hálshöggna morðingja.
Síðan fóru allar aftökur í Frakklandi fram fyrir luktum dyrum.