Í miðri Sahara-eyðimörkinni mætast Egyptaland og Súdan. Landamæri ríkjanna eiga rætur að rekja til árins 1899, þegar bæði féllu innan áhrifasvæðis Breska heimsveldisins. Bretar tóku að sér að marka skýr landamæri milli landsvæðanna tveggja og það gerðu þeir að sjálfsögðu á hinn sígilda máta nýlenduherrans: ráðfærðu sig hvorki við kóng né prest meðal innfæddra, heldur drógu einfaldlega línu eftir reglustiku á kortið sitt, eftir 22. breiddargráðu norður.

 

Þráðbein landamæri eru ekki sjaldséð í sandauðnum Sahara, en landamæri Súdans og Egyptalands reyndust aðeins of bein. Einungis þremur árum síðar neyddust Bretar til að endurskoða landamærin. Línan þráðbeina hafði klofið nokkra Bedúínaættbálka í sundur svo meðlimir ættbálkanna gátu ekki lengur farið frjálsir ferða sinna um heimahagana. Til þess að kippa þessu í liðinn var 7000 km² landsvæði við strendur Rauðahafsins — svokallaður Halaib-þríhyrningur — fært úr umsjá Kaíró til Kartúm.

 

 

Í sárabætur fengu Egyptar bút af Súdan vestur af Þríhyrningnum, á stærð við Dalasýslu. Bir Tawil („djúpi brunnurinn“) eru 2000 km² af óbyggðri, hrjóstrugri eyðimörk langt úr alfaraleið.

 

Í augum Egypta voru þetta ekki sérstaklega góð skipti, og í meira en öld hafa þeir neitað að viðurkenna breytingarnar. Samkvæmt þeirra landamærum er Halaib-þríhyrningurinn hluti af Egyptalandi en Bir Tawil tilheyrir enn Súdan. En á móti kemur að Súdanir girnast Þríhyrninginn sem Bretar lofuðu þeim og fullyrða því að Bir Tawil tilheyri Egyptalandi.

 

 

Hvorugt landið kærir því sig um Bir Tawil. Einungis örfáir Bedúínar leggja þangað leið sína með geiturnar sínar af og til en að öðru leyti virðist flestum vera saman um þessa landflís í eyðimörkinni sem engum tilheyrir.