Árið 1984 hafði Federico Fellini þegar verið talinn til eins af risum evrópskrar kvikmyndagerðar um áratuga skeið. Ódauðleg listaverk á borð við 8 ½, La strada og La dolce vita höfðu fært honum ógrynni verðlauna og viðurkenninga – en hylli gagnrýnenda er ekki ávallt ávísun á mikil auðæfi og því tók févana Fellini að sér að leikstýra auglýsingu fyrir kunningja sinn, pastakónginn Pietro Barilla.
Á tyllidögum er kvikmyndalistin stundum nefnd sjöunda listformið, sem vísar til upptalningu þýska heimspekingsins Hegels á hinum sex klassísku listformum: arkitektúrs, höggmyndagerðar, listmálunar, tónlistar, dans og ljóðagerðar.
Hugtakið er tvírætt. Sjöunda listformið gæti eingöngu talist sem viðbót við þær greinar sem fyrir eru, að kvikmyndalistin eigi enn eftir að sanna gildi sitt – ólíkt hinum listformunum sem fylgt hafa manninum nánast frá upphafi og þróast með honum öld eftir öld, kynslóð fram af kynslóð.
Aftur á móti mætti túlka hugtakið á þann veg að kvikmyndalistin inniberi þann möguleika að verða sambræðsla eða syntesa hinna listformanna; hún fái að láni eiginleika hinna listformanna og tjáningarsvið hennar sé því jafnvel umfram það sem hver og ein af hinum náði yfir.
Þessi háfleyga draumsýn um möguleika kvikmyndalistarinnar til að tjá hið ótjáanlega og segja frá því ósegjanlega er ekki svo fjarstæðukennd ef staldrað er við og rifjaðar upp stundir í myrkvuðum kvikmyndasal, þar sem samspil sögu, leiks, myndar, klippingar og tónlistar færðu áhorfendur inn í annan heim — veraldar sem hópur af ókunnugu fólki deildi í skamma stund, eins og sameiginlegum draumi.
Atvik sem eru ekki nema leikur að ljósi og hljóði vekja raunverulegar tilfinningar í brjósti áhorfanda sem hefur gleymt stað og stund og lifir sig inn í atburðarrásina; hann skellir uppúr yfir gríninu, verður stjarfur af ótta yfir hryllingi og tárast yfir sorglegum senum. En auglýsingar, þær sökka big time … nema stundum.
Augýsingin sem Fellini gerði fyrir Barilla pasta nefnist Alta societá (‘hástéttin’) og er í formi stutts, en afar tvíræðs brandara. Par er statt á stefnumóti á glæsilegum veitingastað þegar herskari aldraðra þjóna nálgast þau. Yfirþjóninn býður parinu gott kvöld og þylur upp langa og óþjála runu af afar vönduðum frönskum sælkeramat, sem hann mælir með fyrir hið ástfangna par.
Konan kemur þeim hins vegar öllum skemmtilega á óvart þegar hún kýs fremur að panta rigatoni, hversdagslegan og einfaldan ítalskan rétt, heldur en franska snobbmetið. Yfirþjóninn svarar „Aah!“ og við endurtökum eins og bergmálið: „Barilla, Barilla …“ og allir gestir veitingastaðarins taka undir „… Barilla, Barilla“.
Auglýsingin hlaut talsverða athygli á sínum tíma og ekki aðeins fyrir þær sakir að leikstóri hennar var Federico Fellini. Hin augljósa ástæða vinsælda hennar er sú að hún höfðar til ættjarðarástar Ítala, því hér er sagt á afar einfaldan og skemmtilegan hátt að ítalskur matur taki allri annarri matseld fram.
Hin ástæða þess að auglýsing fyrir Barilla pasta varð á allra vörum er sú að rigatoni er gamalt slangur fyrir munnmök, og engum dylst ástríðan í augngotum parsins, sem virðist ekki geta beðið eftir að kvöldverðinum ljúki. Punkturinn yfir i-ið er síðan röddin sem segir í lokin: „Barilla ti fa sentire sempre al dente“ sem þýðir „Barilla gerir þig alltaf al dente (stinnan)“.
Munúðarfullt andrúmsloft, sveimkennd tónlist Nino Rota og klunnalega ‘döbbaðar’ raddir er meðal þess sem aðdáendur meistarans ættu að kannast við úr myndum á borð við I Vitelloni, Le notte di Cabiria og Amarcord. Þó svo þessi auglýsing fyrir Barilla pasta, sem er ekki nema slétt mínúta að lengd, standist auðvitað ekki samanburð við þessi stórvirki ítalskrar kvikmyndagerðar, ber hún augljóst handbragð Fellini – og færa má rök fyrir því að um raunverulegan listamann sé að ræða, þegar vald hans yfir forminu og persónulegur stíll er svo auðkennanlegur að jafnvel minnsta skissa hans hrópar nafn skapara síns.