Carlos Soria er argentínskur stjórnmálamaður sem nýlega var kjörinn héraðsstjóri Rio Negro í Argentínu.

 

Stuttu eftir kosningarnar birtist í blöðunum ljósmynd af veisluborði. Við þetta borð sitja fjórar manneskjur sem brosa út að eyrum. Hjónin fjær á myndinni eru Carlos Soria og konan hans.

 

Hjónin nær á myndinni eru Erich Priebke og konan hans. Hann er nasisti úr röðum SS-sveitanna og eftirlýstur stríðsglæpamaður er bjó í Argentínu áratugum saman á flótta undan réttvísinni.

 

Carlos Soria var á dögunum kjörinn héraðsstjóri Rio Negro, sem er mjög víðáttumikið hérað í Patagóníu, suðurhluta Argentínu. Hann sest í héraðsstjórastólinn í desember.

 

En nú segjast margir kjósendur sjá eftir að hafa kosið hann. „Hvað í fjandanum er Carlos að gera á mynd með fyrrum yfirmanni hjá SS-sveitunum?“ spyr Roberto Garcia, viðmælandi staðarblaðsins El Ciudadano í Bariloche. „Er hann kannski einn af þessum gerspilltu stjórnmálamönnum okkar sem hjálpar svona körlum í skiptum fyrir meiri peninga og meiri völd?“

 

Soria segist ekkert skammast sín fyrir þessa mynd. Hann hafi verið nemandi Priebke í skóla sem nasistinn rak í fjallaborginni Bariloche í suðvesturhluta Argentínu. Þeir hafi aldrei rætt pólitík, heldur verið fyrst og fremst nágrannar í litlu samfélagi við rætur Andesfjallanna.

 

Erich Priebke var yfirmaður hjá SS-sveitum Adolfs Hitlers. Hann hefur játað aðild að fjöldamorðunum í Ardeatine-hellunum á Ítalíu í seinni heimsstyrjöldinni. SS-menn drápu þá 335 ítalska andspyrnumenn í hefndarskyni eftir að 33 þýskir hermenn höfðu verið myrtir. Sjálfur myrti Priebke að minnsta kosti tvo þessara andspyrnumanna með byssu sinni.

 

Priebke, sem er fæddur árið 1913, fluttist til Argentínu eftir stríðið og bjó þar í felum fram á tíunda áratuginn. Árið 1994 fann bandaríski sjónvarpsmaðurinn Sam Donaldson hjá ABC nasistann gamla í Bariloche og tók þetta viðtal við hann:

 

Vídjó

 

Priebke viðurkennir aðild sína að fjöldaaftökunni en segist aðeins hafa hlýtt skipunum.

 

Hann var framseldur til Ítalíu fljótlega eftir viðtalið. Eftir áralöng réttarhöld var hann dæmdur í lífstíðarfangelsi og er nú haldið í stofufangelsi á Ítalíu, enda er hann 98 ára gamall og ekki við nægilega góða heilsu til að dúsa í venjulegu fangelsi.