Fyrir daga stafrænna myndavéla og myndvinnsluforrita þurftu eigendur svartra gæludýra að sætta sig við að dýrið þeirra væri eins og svört klessa á ljósmyndum. Í nýlegri hollenskri ljósmyndabók birtast myndir úr albúmi hollenskrar fjölskyldu sem átti svartan hund á síðari hluta hinnar frumstæðu tuttugustu aldar. Ritstjóri bókarinnar er Erik Kessels en hann hefur rannsakað ýmsar furðulegar hliðar áhugaljósmyndunar.

 

„Bókin fjallar um tilraunir fjölskyldu til að leysa eina af mestu ráðgátum ljósmyndalistarinnar: hvernig eigi að ljósmynda svartan hund,“ ritar Christian Bunyan, sem skrifar textann í bókinni, sem er sú níunda í ritröðinni Á hverri einustu mynd, en í henni eru hverdagslegar myndir áhugaljósmyndara skoðaðar á nýstárlegan hátt. „Áður en stafræna öldin hófst, áður en myndavélar komu til sögunnar sem geta leyst öll vandamál, frá rauðum augum til hungurs í heiminum, var tuttugasta öldin. Í þá daga þurftu ljósmyndarar að taka myndirnar sjálfir.“

 

„Tilraunir þessara hjóna, til að mynda gæludýrið sem þau elska, misheppnast aftur og aftur (tæknilega séð). Árum saman reyna þau að festa krílið sitt á filmu en sjá svo aðeins skuggamynd í stað hunds. Það er til mynd af eiginmanninum strjúkandi risastóra svarta klessu. Og það er er til mynd af konu hans þar sem hún ræðir við svartan þríhyrning. Og svo framvegis,“ skrifar Christian Bunyan. „Áræðni eigendanna er aðdáunarverð, „óhundurinn“ birtist hvarvetna í húsinu, hann stillir sér upp í garðinum og lætur konuna þurrka sig í eldhúsinu.“

 

Í bók Kessels og Bunyan er lögð áhersla á hina óvæntu fegurð sem myndavél af gamla skólanum gat veitt eigendum sínum, jafnvel við hverdagslegar athafnir. Eiga lesendur furðulegar myndir af þessu tagi af gæludýrum sínum?

 

„Mistök hjónanna eru frábær. Þessi röð ljósmynda sem allar mistókust snerta okkur dýpra en myndir af gæludýrum í milljónum fjölskyldualbúma,“ skrifar Christian Bunyan, meðhöfundur bókarinnar um þennan ólánsama svarta hund sem myndaðist einfaldlega ekki.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ósýnilegi hundurinn.