Guðrún Sóley Gestsdóttir er sjónvarpskona, menningarblaðakona og rithöfundur úr Reykjavík. Hún er fædd árið 1987, gekk í MR og tók þar þátt í ræðukeppninni Morfís. Á Háskólaárunum starfaði Guðrún sem blaðamaður hjá Morgunblaðinu og var einnig ritstjóri Stúdentablaðsins um veturinn 2012 til 2013. Þá um sumarið hóf hún störf hjá RÚV og hefur verið þar síðan í bæði sjónvarpi og útvarpi. 

Undanfarin ár hefur Guðrún séð um Menninguna á RÚV ásamt Bergsteini Sigurðssyni, en segja má að hún sé fædd í hlutverkið. Menning og listir hafa ávallt skipað stóran sess í lífi Guðrúnar. Fyrir utan sjálfsagða ástríðu fyrir skapandi greinum er hún auk þess alin upp í Unuhúsi að Garðastræti 15, þar sem andar Halldórs Laxness, Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur, Steins Steinarrs og Stefáns frá Hvítadal svífa yfir stofugólfinu. 

Unuhús eins og það leit út á fyrri hluta 20. aldar annars vegar og hins vegar nýleg mynd. Skjáskot úr umfjöllun Sveins Guðjónssonar um Unuhús, í Morgunblaðinu um sumarið 2005. Það var Gestur Ólafsson, arkitekt og faðir Guðrúnar Sóleyjar, sem endurbyggði húsið að miklum hluta á 8. og 9. áratugnum.

Guðrún er dýravinur, kaffifíkill, útivistarunnandi og einn frægasti grænkeri landsins, þar sem hún hefur barist ötullega fyrir mannúðlegri meðferð á dýrum. Hún er mikill matarunnandi og sem slíkur skrifaði hún matreiðslubókina Grænkerakrásir Guðrúnar Sóleyjar: vegan uppskriftir fyrir mannúðleg matargöt sem kom út hjá Sölku árið 2018. 

Guðrún ætlar að taka Proust-próf Lemúrsins, eða, öllu heldur Egils Helgasonar, eins og áður hefur komið fram. Saga prófsins var rakin hér

Sæl, Guðrún. Hvernig er heilsan í dag? 

Halló Björn! Heilsan er fín, nokkuð hress bara.

Gott að heyra. Eigum við ekki að vinda okkur í þetta? 

Júbb, til er ég.

Hver er þín hugmynd um hamingju? 

Hmmm. Ég held að hún sé drulluhverful, eiginlega bara tilfinning sem endist í andartak og kemur og fer. En svona almennt held ég að hún sé friður og fylling í hjartanu. Fyllingin getur til dæmis verið úr þakklæti eða núggati.

Hvað óttast þú mest? 

Að nýta tímann ekki nógu vel og að valda vonbrigðum.

Hvað er þér verst við í eigin fari? 

Hvatvísi og ásælni. Ojbara, burt með það.

Hvað er þér verst við í fari annarra? 

Eigingirni. Í svona víðasta og dýpsta skilningi þess orðs. (líka mjög illa við hana í eigin fari, getum bætt því við listann).

Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 

Pabba minn. Hann er hlýr, fróður, óeigingjarn og kemur fram við alla af virðingu. Svo er hann verklaginn og mjög þrjóskur. 

Ég dái líka Önnu Kristjánsdóttur vélstjóra, finnst hún ein stærsta ósungna hetja Íslands. Brautryðjandi og hugrakkasta manneskja sem ég get ímyndað mér.

Ég dái líka Önnu Kristjánsdóttur vélstjóra, finnst hún ein stærsta ósungna hetja Íslands. Brautryðjandi og hugrakkasta manneskja sem ég get ímyndað mér.“ Anna K. Kristjánsdóttir á mynd sem var tekin fyrir Starfsmannablað Orkuveitu Stokkhólms árið 1995. Mynd: SEKring.

Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi? 

Sama hlutinn, en búast við nýrri niðurstöðu. Líka smá að lemja á mér fyrir þetta og hitt. Og ríghalda í eitthvað skítastolt þó það skemmi bara fyrir. Heyrðu, mig langar að bæta einu við galla-listann minn. En nú man ég ekki hvað það er. Jæja, kemur á eftir. 

Hvert er hugarástand þitt núna? 

Óvenju bjart. Ég er með soldið sakbitinn vorfiðring. Hlakka til svo margs og líður vel í næðinu og friðsældinni sem nú ríkir.

Hver er ofmetnasta dyggðin? 

Sjálfsást.

Við hvaða tækifæri lýgurðu? 

Við tækifæri þar sem mikilvægar tilfinningar fólks eru í húfi. Ömurlegt. 

Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 

Ógeðfelldan prófíl og grófa andlitsdrætti. 

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna? 

Samhygð, örlæti, styrk og kærleika. Hugmyndaauðgi og galsa. Svo finnst mér einstaklega fallegt þegar fólk situr nógu vel í sjálfu sér að það geti lyft öðrum upp, gefið af sér og hrósað. Já og síðan er ég sérlegur sökker fyrir fólki sem er gott við dýrin.

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla? 

Nákvæmlega sömu. Þetta eru geggjaðir eiginleikar, þvert á öll kyn.

Hvaða orð, eða frasa, áttu til að nota of mikið? 

Hahaha, sjitt svo marga! 

„Allir hressir?“

„Myndi fleygja mér í hafið.“

„Þetta blessast allt að lokum.“

„Ég veit ekki einu sinni hvað ég heiti!“

Hver er stærsta ástin í lífi þínu? 

Úff. Ég hef verið svo heppin að elska vel valdar manneskjur mjög mikið. Það er önnur fylling í hjartað, engin leið að segja hver er stærst. Kannski er hún eftir.

Hvar og hvenær varst þú hamingjusömust? 

Í fyrradag í appelsínugulri viðvörun á fjalli, með svo mikið rok í fésinu að ég grét og svo mikinn mótvind að ég komst ekki úr sporunum. Fór í innilegt hláturskast yfir geggjuninni og kraftinum í náttúrunni.

Hvaða hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir? 

Lækningamætti sem græðir allar gerðir af sárum, á líkama og sál. Það yrði reyndar svolítið mikið að gera en það er allt í lagi.

Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfa þig, hvað væri það? 

Vil vera sterkariogyfirvegaðri. Eitt orð, eitt atriði!

Ef þú myndir endurholdgast sem önnur manneskja, dýr eða önnur lifandi vera, hvað væri það? 

Flóðsvín í japönskum heitum potti.

Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa? 

Sko það er smá óþolandi hvað ég elska Reykjavík. Hún er bara í hjartanu á mér og ég elska loftið og fólkið og húsin. En alltílæ, segjum Barcelona til vara, bjó þar einu sinni og það var mjög mjög gott.

Vídjó

„Sko það er smá óþolandi hvað ég elska Reykjavík. Hún er bara í hjartanu á mér og ég elska loftið og fólkið og húsin.“ Haukur Morthens syngur eigið lag við texta Vilhjálms frá Skálholti í upptöku frá árinu 1980.

Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 

Minidiscspilarinn minn. Því hann var flotholt og þangað sótti ég hugrekki og styrk og lífsvilja þegar ég átti lítið af því. Takk Björk, XXX Rottweiler og Beyoncé fyrir að koma mér gegnum unglingsárin.

Hver er mesti harmur sem þú gætir hugsað þér? 

Að við verðum fleiri og verri.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 

Hlæja með hjartanu. Og dansa og liggja í mosa og vera alveg á byrjunarpunkti á skemmtilegu ferðalagi. 

Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari? 

Dvel ekki óþarflega lengi við orðinn hlut. 

Hvaða rithöfundar eru þér mest að skapi? 

Já sorrí, þarf að hugsa þetta svo andskoti vel. Er að reyna að gera þetta ekki að 200 nafna upptalningu. Sko. Kristín Eiríksdóttir, Sigurbjörg Þrastardóttir, Sigríður Hagalín og Elísabet Jökulsdóttir. Þórbergur Þórðarson og Stefan Zweig. Ég má ekki nefna leikskáld?Æ nei þá endar þetta aldrei. Látum gott heita. Takk! 

Hvaða skáldskaparpersóna er þér mest að skapi? 

Hallgerður Langbrók. Og Gob Bluth.

Töframaðurinn, búktalarinn og ævintýramaðurinn George Oscar Bluth, eða GOB, úr Arrested Development (2003-2006, 2013). Mynd: Arrested Development Fandom.

Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér mest að skapi? 

Jane Goodall. 

Hvaða einstaklingur úr mannkynssögunni er þér síst að skapi?

Kaligúla, óviðkunnanlegur. 

Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi? 

James Blake.

Hvernig viltu deyja? 

Hraust, þakklát, sofandi.

Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 

Grænkál. Mig dreymir um einhver færi mér blómvönd úr ólíkum gerðum af káli. Það myndi gleðja inn að beini.

Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 

Fokk! Á bara að vera hægt að svara þessu? Kilimanjaro og Kverkfjöll.

Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó? 

Heldur gef mér leirugt gull en gylltan leir. 

Prýðilegt. Þá er þetta komið. Kærar þakkir, Guðrún Sóley. Allir hressir? 

Hver einasta manneskja hress! Mikið var þetta erfitt og skemmtilegt, takk fyrir mig.

Guðrún Sóley í kjöraðstæðum með tíkinni Matthildi. Mynd úr einkasafni.