Nei, kæru lesendur. Þetta er ekki grín. Diego Maradona, sem er af mörgum talinn besti knattspyrnumaður allra tíma, lék eitt sinn með enska liðinu Tottenham Hotspur!

 

Því miður fyrir Tottenham-aðdáendur var það einmitt málið, hann lék bara í eitt skipti.

 

Um vorið 1986 voru landsliðsmenn þátttökuþjóða á Heimsmeistarakeppninni í Mexíkó að undirbúa sig fyrir stærsta íþróttaviðburð ársins. Argentínumenn voru þar engin undantekning. Þeir léku vináttuleik við Norðmenn þann 30. apríl á Ullevaal-leikvanginum í Ósló, þar sem tilvonandi heimsmeistarar töpuðu fyrir heimamönnum með marki Kjetils Osvolds. Hér má sjá svipmyndir úr þeim leik:

 

Vídjó

 

Diego var fljótur að hrista tapið af sér. Daginn eftir, á alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins 1. maí, var hann mættur á White Hart Lane, heimavöll Tottenham. Tilefnið var vináttuleikur heimamanna við ítalska liðið Internazionale, sem var leikinn til heiðurs Ossie Ardiles, sem þá lék enn með Tottenham. Þeir Diego og Ardiles voru (og eru enn) miklir vinir en þeir höfðu verið samherjar í argentínska landsliðinu.

 

Diego tók sér stöðu á miðjunni hjá Tottenham en við hlið hans lék Glenn Hoddle, sem þá var helsta stjarna liðsins. Hoddle lék venjulega í treyju númer 10 hjá Tottenham, en í þetta eina sinn eftirlét hann besta leikmanni heims númerið sitt – enda ekki á hverjum degi sem slíkir snillingar heimsækja norðurhluta Lundúna.

 

Í myndskeiðinu að neðan má sjá netta takta frá Diego gegn leikmönnum Inter. Þar léku margir þekktir leikmenn á þessum tíma. Í markinu stóð hinn kattliðugi Walter Zenga og í vörninni voru til að mynda Guiseppe Bergomi og Guiseppe Baresi, eldri bróðir Franco Baresi sem gerði garðinn frægan með erkifjendum Inter í AC Milan. Á miðjunni lék HM-hetjan Marco Tardelli og í sókninni Allessandro Altobelli, sem skoraði einnig í úrslitaleik HM 1982. Þess má geta að Tottenham sigraði Inter, 2-1.

 

Eitt magnaðasta atriði myndskeiðsins á sér stað eftir að leiknum er lokið. Martin Tyler, sá gamalkunni fótboltalýsandi, spyr þá Diego skemmtilegrar spurningar. Já, Martin… hvern hefði grunað?

 

Vídjó