Við lok 19. aldar nutu svokallaðar játningabækur eða játningahefti talsverðra vinsælda. Í stuttu máli var um að ræða staðlaðar spurningar á blaði, sem fólk svaraði síðan eftir bestu getu.

Spurningarnar voru nokkuð persónulegar og sýndu því, eða gáfu að minnsta kosti vísbendingar um, hvað leyndist í innstu hjartahólfum fólksins sem svaraði þeim.

Í raun ekki ósvipað og þegar börn létu slíkar bækur ganga milli bekkjarfélaga sinna á síðasta áratugi 20. aldar, eins og margir lesendur muna sjálfsagt eftir. 

Langfrægasta slíka hefti hafði að geyma svör við spurningum sem var svarað af franska rithöfundinum Marcel Proust. Spurningarnar voru upphaflega á ensku, en Proust svaraði þó á frönsku. Hann átti þó eftir að endurtaka leikinn nokkrum árum síðar, þá með frönskum spurningum.

Marcel Proust um 1895. Mynd eftir Otto Wegener.

Það var æskuvinkona Proust, Antoinette Faure, sem átti játningarheftið hvar svörin voru rituð, fyrst um 1885 eða 1886. Sonur Faure, André Berge, fann síðan hefti móður sinnar árið 1924 og birti svör Proust í sínu eigin bókmenntatímariti, Les Cahiers du Mois sama ár. Síðan þá má segja að þessi dægradvöl hafi verið kölluð Proust-prófið, le questionnaire de Proust.

Upphafleg svör Marcels Proust í játningahefti Antoinette Faure.

Proust var síður en svo sá fyrsti sem tók þátt í þessari dægradvöl og alls ekki sá síðasti. Egill Helgason, menningarblaðamaður með meiru, tók til að mynda upp á því að þýða spurningarnar sem finna mátti í Proust-prófinu og leggja fyrir nokkra viðmælendur sína í þættinum Undir áhrifum sem var útvarpað á Rás 1 um sumarið 2016. Sjálfur var Egill líklega undir áhrifum frá Bernard Pivot, þáttastjórnanda hins rómaða franska sjónvarpsþáttar Apostrophes, sem lesendur Minnisbókar Sigurðar Pálssonar muna ef til vill eftir.

Lemúrinn ætlar nú að taka upp þráðinn og leggja Proust-prófið fyrir nokkra einstaklinga sem eiga það fyrst og fremst sameiginlegt að nenna að svara því. Til eru tvær útgáfur svara frá Proust sjálfum og voru þá spurningarnar mest 30 talsins. Hér verður stuðst við útgáfu Egils Helgasonar. Hann spurði 36 spurninga, sem hæfa ef til vill nútímanum ögn betur. 

Fyrstur til að fylla út prófið er Haukur Ingvarsson, rithöfundur og doktorsnemi við hugvísindasvið Háskóla Íslands. Haukur er fæddur árið 1979, ólst upp í Hafnarfirði en býr í dag í Vesturbæ. Haukur hefur sent frá sér fræðirit, skáldsögu og ljóðabækur. Fyrir Vistarverur, sem kom út um haustið 2018, hlaut hann Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar.

Vistarverur (2018).

Sæll Haukur. Í dag er sunnudagur, sá næstsíðasti í mars árið 2020. Hvernig hefurðu það í dag? 


Blessaður Lemúr, ég held að ég segi allt ágætt en þetta eru svo miklir óvissutímar að ég þori eiginlega ekki að gefa 100% afdráttarlaust svar.


Eins og þú sérð kannski í skjalinu, þá ætlum við að leggja fyrir þig útgáfu Egils Helgasonar af Proust-prófinu, sem er ögn lengri. Bæði því það er skemmtilegra fyrir lesendur og auðvitað til að þakka Agli og sýna honum virðingu  fyrir að hafa haldið þessu ljósi lifandi. Vonandi er það í lagi. Ertu tilbúinn? 


Ég er búinn að spenna beltið.


Hver er hugmynd þín um hamingju?

Einhvern tímann skrifaði ég ljóð sem hét hamingja og það lýsti kvistherbergi í blokk í Vesturbænum þar sem voru minnir mig nákvæmlega 250 kiljur og 150 plötur. Á herberginu var þakgluggi sem var hægt að spangóla út um og horfa á tunglið. Ég held að þetta lýsi lágmarkskröfum mínum til lífsins ansi vel en sem betur hefur heimsmynd mín stækkað síðan þetta ljóð var skrifað og tilfinningalíf mitt orðið ríkulegra. Ef ég reyni að hugsa um mínar innilegustu hamingjustundir þá finnst mér ég heyra klið í trjákrónum, þyt í grasi og hlátrasköll í strákunum mínum og nærveru konunnar sem ég elska. 


Hvað óttast þú mest?

Ég óttast ekkert meira en opið haf, dýpið þar fyrir neðan. Það er minn frumstæðasti ótti held ég.


Hvað er þér verst við í eigin fari?

Mér fannst mjög óþægilegt þegar það rann upp fyrir mér að húmor er valdatæki. Það var mjög margt í menningu tíunda áratugarins sem gekk út á að gera grín að öðrum. Þetta er þáttur í fari mínu sem ég hef reynt að venja mig af, það er að gera grín á kostnað annarra.


Hvað er þér verst við í fari annarra? 

Mér finnst kannski erfitt að nefna eitthvað eitt sem mér finnst verra en annað. Það er oft eitthvað samspil ákveðina persónueinkenna sem fara illa saman. Það fer oft illa í mig þegar fólk gerir aðrar kröfur til sjálfs sín en annarra, gerir skilyrðislausar kröfur um stundvísi en mætir svo sjálft þegar því sýnist. Í einhverju Pearl Jam lagi syngur Eddie Vedder: If you hate something, don’t you do it too. Þessi lína kemur mjög oft upp í huga mínum þegar ég pirra mig á öðru fólki.


Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 

Ætli ég dái Gretu Thunberg ekki mest af núlifandi manneskjum; ekki bara sem manneskju heldur líka sem einhvers lags tákn. Hún býr líka yfir hugrekki til að fylgja hugsjónum sínum skilyrðislaust. Það krefst hugrekkis að breyta rétt án þess að hafa áhyggjur af afleiðingunum sem það hefur í för með sér.

„Ætli ég dái Gretu Thunberg ekki mest af núlifandi manneskjum; ekki bara sem manneskju heldur líka sem einhvers lags tákn.“ (Mynd: Anders Hellberg).


Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi?

Ég borða í mjög miklu óhófi. Fram að þrítugu gat ég borðað endalaust án þess að þyngjast um gramm og ein skelfilegasta stund lífs míns var þegar ég áttaði mig á því að ég var byrjaður að fitna af því sem ég lét ofan í mig. Ég vildi óska að ég gæti borðað endalaust án þess að það hefði nokkrar afleiðingar í för með sér.


Hvert er hugarástand þitt núna? 

Mér líður eins og ég sé í auga stormsins. Það er einhvern veginn svo mikil óvissa á öllum sviðum en samt er ég sjálfur undarlega rólegur akúrat núna.

 

Hver er ofmetnasta dyggðin? 

Ég veit það ekki, eru dyggðirnar ekki bara soldið eins og Bítlarnir. Fólk sem talar um að Bítlarnir séu ofmetnir er yfirleitt bara að reyna að vekja athygli á sjálfu sér eða særa aðra. Ætli það sé ekki eins með þá sem telja e-ar tilteknir dyggðir ofmetnar.


Við hvaða tækifæri lýgurðu? 

Ég plata mjög mikið en lygi er svo gildishlaðin. Lygi er einhvers lags illvirki, maður lýgur til að ná vilja sínum framgengt. Ég er ekki viss um að ég geti horfst í augu við það hvenær ég ljúgi.


Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 

Ég vildi að ég gæti vanið mig á rétta betur úr mér. Og ég er með mjög stóra fætur. 


Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla? 

Ég held að það sé ýmislegt til í klisjunni um að maður verði að geta þagað með fólki. Margir af vinum mínum hafa mjög þægilega þögula nærveru. Kannski er þetta kostur sem ég kann að meta vegna þess að mér hættir til að tala mjög mikið sjálfum.


Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna? 

Ég hef alltaf átt mjög mikið af kvenkyns vinum. Ég á bara eina systur og við höfum alltaf varið mjög miklum tíma saman og erum mjög náin. Ég get ekki haldið því fram að ég sjái ekki kyn eða litarhaft fólks en trúlega kann ég best að meta fólk af báðum kynjum sem getur afborið mig.


Hvaða orð, eða frasa, notar þú of mikið? 

Já, sæll. Ég horfði á fyrstu Vaktaseríuna með sonum mínum síðasta vetur og fékk alla frasa Ólafs Ragnars á heilann. Það var dáldið eins og að ferðast 10 ár aftur í tímann.


Hver er stærsta ástin í lífi þínu?

Rut. 


Hvar og hvenær varst þú hamingjusamastur?

Það voru ákveðin þáttaskil í lífi mínu þegar ég hitti Rut sem ég hafði þá aðeins verið að hitta í stiganum í verslun Máls og menningar á Laugarveginum á Þorláksmessu. Ég kyssti hana gleðileg jól og við kvöddumst en á þeirri stundu rann upp fyrir mér að ég vildi vera með þessari stelpu næstu jól og öll jól sem ég ætti ólifuð eftir það. Á þeirri stundu ákvað ég að vera hamingjusamur. Ef ég hugsa um þetta atvik fyllist ég ró. Og ég finn fyrir hamingju innra með mér.


Hvaða hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir? 

Ég myndi mjög gjarna vilja geta búið til kvikmyndir eða leikið á hljóðfæri. En á nóttunni dreymir mig mjög oft að ég geti flogið. Stundum eru þessir draumar svo raunverulegir að ég verð fyrir sárum vonbrigðum þegar ég vakna.


Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfan þig, hvað væri það? 

Ég vildi að ég ætti auðveldara með að klára verkefni, vanda mig frá upphafi til enda. 


Ef þú myndir endurholdgast sem persóna eða lifandi vera, hver eða hvers konar vera væri það?

Ég held að það hljóti að hafa verið stórkostleg tilfinning að vera Muhammad Ali. Ég myndi kannski ekki vilja lifa ævi hans frá upphafi til enda en það hlýtur að hafa verið gaman að fagna sigrinum á Sonny Liston, til dæmis.

Cassius Clay, síðar Muhammed Ali, rotar Sonny Liston. Miami, 1964. (Mynd: Frictional/Wikimedia Commons).


Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa? 

Ég væri til í að búa í ýmsum borgum og löndum í skemmri tíma, t.d. New York eða Toronto en ég held að ég myndi alltaf vilja snúa aftur til Reykjavíkur.


Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 

Ég átti fóstru þegar ég var lítill, konu sem passaði mig daglega og ól mig að vissu leyti upp til jafns við foreldra mína fram að grunnskóla. Hún gaf mér lítinn postulínshund sem ég hef átt frá því ég man eftir mér. Hann hefur einu sinni brotnað og þá týndist á honum rófan. En það tókst að líma hann saman að öðru leyti og hann fylgir mér.

Hver væri versti harmleikur sem þú gætir hugsað þér? 

Úff. Ég sá The Road skömmu eftir að eldri sonur minn fæddist. Ég man eftir að hafa komið heim úr bíóinu og legið í rúminu og hlustað á hann anda í myrkrinu. Auðvitað er versta tilhugsunin sú að það bíða barnanna manns engin framtíð. Ef verstu spár ganga eftir í umhverfismálunum þá er heimur Mad Max handan við hornið. 


Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 

Það skemmtilegasta sem ég geri er að spila körfubolta með skemmtilegu fólki. Það og að skrifa þegar það gengur vel.  


Haukur með körfuboltaliði Eldofnsins, í aftari röð, annar frá vinstri. (Mynd: Bjarni Gíslason).

Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari? 

Ég er vanafastur og óskipulagður; mér líður stundum eins og strætó eða lest sem keyrir sína leið mjög samviskusamlega en á sama tíma vilja farþegarnir alls ekki sitja í sætunum og þrýsta á stop takkann í tíma og ótíma. Skipulagt kaos.


Hverjir eru uppáhaldsrithöfundar þínir? 

William Faulkner er uppáhaldsrithöfundurinn minn. En svo eru samtímahöfundar sem tala mjög sterkt til mín og ég les kannski með öðrum hætti. Kristín Eiríksdóttir er til dæmis höfundur sem ég hef mjög miklar mætur á. Mér finnst að verk hennar stækki reynsluheim minn, beini athyglinni að þáttum í tilverunni sem ég hafði ekki séð áður. Eiríkur Örn Nordahl og Fríða Ísberg eru líka höfundar sem höfða sterkt til mín, sömuleiðis Ófeigur Sigurðsson, Eiríkur Guðmundsson, Steinar Bragi og Sölvi Björn.

„Mér finnst að verk hennar stækki reynsluheim minn, beini athyglinni að þáttum í tilverunni sem ég hafði ekki séð áður.“ Kristín Eiríksdóttir. (Mynd: Forlagið/Saga Sig).


Hvaða skáldskaparpersóna er í mestu uppáhaldi? 

Ég held mjög mikið upp á margar persónur í skáldsögum Braga Ólafssonar, sögumaðurinn í Hvíldardögum er einhver mest heillandi landeyða sem um getur. Tónskáldið Markús Geirharður sem kemur fyrir í nokkrum skáldsagna hans er líka stórkostlega óþolandi. 


Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér mest að skapi?

Ég held að ég hafi aldrei fundið fyrir eins djúpri ást og lotningu gagnvart nokkurri látinni manneskju og Jónasi Hallgrímssyni – ef ég á að vera alveg heiðarlegur. Mér finnst hræðilegt að heyra aðra tala um ástmögur þjóðarinnar og verða mærðarlega í framan en svo er ég alveg eins. Hann stendur á svo spennandi tímamótum milli „fortíðar“ og nútíma og það er þessi núningur en um leið fullkomna samræmi milli skáldsins og vísindamannsins. 

Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér síst að skapi? 

Kynslóðunum sem uxu úr grasi eftir seinni heimsstyrjöldina hefur náttúrulega verið innrætt mér djúpstætt hatur á Adolf Hitler en það óhugnalegast við hann var kannski hvernig hann dró það versta fram í öðrum.


Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi? 

Undanfarin ár hef ég hlustað talsvert mikið á tónlist sem mér finnst óþægileg; rafplötur Miles Davis, Ornette Coleman, Talkingheads. Ég vil að tónlist hreyfi við mér, hafi áhrif á mig og kannski finnst mér betra að hárin rísi á bakinu á mér af óþægindum frekar en að það gerist ekki neitt. En svo finnst mér líka gott að vera innan þægindarammans þess á milli, þar eru Bítlarnir, Beach Boys, Bach, PJ Harvey, Björk. Bara hljómsveitir og tónlistarfólk sem byrjar á B og P. 

PJ Harvey á tónleikum 1998. (Mynd: Mika Väisänen).


Hvernig viltu deyja? 

Afi minn dó þegar hann var að veiða. Það var það skemmtilegasta sem hann gerði. Ég væri líka til í að deyja með flugustöng í annarri hendinni og þytinn í línunni í vinstra eyranu. Afi talaði um að dorga í sálarlífinu – að gleyma sér – hverfa inn í sjálfan sig án þess að vita af því.


Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 

Stjörnusteinbrjótur.


Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 

Helgafell.


Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó? 

We’ve tried nothing and we are all out of ideas, þessi orð móður Ned Flanders í Simpsons koma mjög oft upp í huga minn.


Agnes Flanders ásamt Ned Flanders, Sr.

Þá er þetta komið. Kærar þakkir, Haukur, það var mikill heiður að fyrsta Proust-próf Lemúrsins hafi verið fyrsta verkefni glænýja bluetooth-lyklaborðsins sem þú sagðir mér frá.

Takk fyrir kæri Lemúr. Það var mjög ánægjulegt að fá að verja með þér þessum tíma. Ég óttaðist dáldið að þetta væru efnislegar spurningar upp úr verkum Proust en ég kláraði aldrei nema fyrsta bindið af Í leit að glötuðum tíma. Ætli við getum fengið framleiðanda lyklaborðsins til að kosta þennan dagskrárlið? Ég ætla a.m.k. ekki að nefna hann nema við fáum pening.