Jakob Birgisson er uppistandari og handritshöfundur sem er fæddur árið 1998. Hann er alinn upp í Vesturbæ, gekk í MR og hafði vakið umtal sem efnilegur grínisti á menntaskólaárum. Hann sló síðan rækilega í gegn með sýningunni Meistari Jakob (2018) og þá hafa hann Jóhann Alfreð haldið úti sýningunni Allt í gangi (2019) í vetur við góðar undirtektir. Jakob fékk einnig mikið lof fyrir þátt sinn í handriti að Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins 2019, þar sem hann er líklega einn af yngstu höfundum frá upphafi. 

Jakob ætlar að taka Proust-próf Lemúrsins, eða öllu heldur Proust-próf Egils Helgasonar, en saga prófsins var einmitt rakin hér. 

Sæll, Jakob. Það er páskadagur árið 2020. Hefur sá dagur sérstaka merkingu fyrir þér? 

Sæll, Björn. Takk fyrir að fá mig. Þetta er góður dagur, en páskarnir hafa aldrei haft sérstaka merkingu fyrir mér. Frí voru mér erfið þegar ég var yngri. Ég varð eirðarlaus og leið ekkert sérlega vel í fríum. Þetta hefur þó skánað á síðari árum.

En þú ert í öllu falli reiðubúinn til að taka Proust-próf? 

Eins reiðubúinn og maður verður, já.

Frábært. Ræsum þetta. 

Hver er þín hugmynd um hamingju? 

Hamingja fyrir mér er að halda einbeitingu og líða vel. Ég verð hamingjusamur þegar ég sit lengi við eitthvað og læt utanaðkomandi áreiti sem vind um eyru þjóta. 

Hamingja fyrir mér er að halda einbeitingu og líða vel. Ég verð hamingjusamur þegar ég sit lengi við eitthvað og læt utanaðkomandi áreiti sem vind um eyru þjóta.  Mynd úr einkasafni.

Hvað óttast þú mest? 

Ég óttast getuleysi og að deyja. Ég held það sé minn helsti ótti, þá sérstaklega dauðinn. Ég hef alltaf kviðið uppákomum þar sem mér finnst eins og einhver gæti drepið mig. Eða þá að ég gæti hreinlega dáið.

Hvað er þér verst við í eigin fari?

Erfitt er að svara þessari spurningu. Það sem mér finnst verst í mínu fari er líklega það besta; einhvers konar sjálfsefi. Kannski hugsanir. Hugsanir geta verið erfiðar. Og svo finnst auðvitað einhverju fólki maður hrikalegur. Þannig verður það bara að vera.  

Hvað er þér verst við í fari annarra? 

Ég held ég sé nokkuð umburðarlyndur. En leiðinlegt fólk er hrikalegt, fólk sem hefur þetta hreinlega ekki. Þá er ég ekki að tala um frekju, dónaskap og annað. Bara fólk sem er raunverulega leiðinlegt. 

Hvaða lifandi manneskju dáir þú mest? 

Ég hef aldrei átt mér sérstök átrúnaðargoð. En á seinni árum dái ég föður minn, Birgi, mest.

Ég hef aldrei átt mér sérstök átrúnaðargoð. En á seinni árum dái ég föður minn, Birgi, mest.“ Birgir Hermannsson, stjórnmálafræðingur, í viðtali við Fréttablaðið, desember 2008.

Hvað, ef eitthvað, áttu til að gera í óhófi?

Ég er mjög meðvitaður um matarvenjur mínar. Og þarf að hafa hugann við það sem ég borða hverju sinni. Ég þarf að gæta þess að borða ekki of mikið og of hratt. 

Hvert er hugarástand þitt núna? 

Ég er ágætlega haldinn en nýlega vaknaður og örugglega ekkert sérlega víðsýnn og skemmtilegur. En alls ekki sem verstur.

Hver er ofmetnasta dyggðin? 

Úff. Erum við þá að tala um einhverjar ákveðnar dyggðir? Hve kristilegir erum við?

Við hvaða tækifæri lýgurðu? 

Ég lýg oft einhverju upp á fólk. Laug því að vini mínum að alvörunafn Maju, kunningjakonu okkar, væri Malasía, en ekki Hildur. Hann trúði því í um hálft ár. 

Hvað þolir þú minnst við útlit þitt? 

Ég er með útstæð rifbein, sem trufla mig gífurlega. Því feitari sem ég verð, því skárri eru þau. En hvort tveggja er slæmt, að vera feitur, og að hafa útstæð rifbein. Mér skilst þó að þetta tengist einhverjum bakvöðvum, sem hægt er að þjálfa, og þá á þetta að lagast.

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari karla?

Samkennd. Kímnigáfa.

Hvaða eiginleika kanntu mest að meta í fari kvenna? 

Nokkurn veginn það sama og hjá körlum. En auðvitað er það ekki svo einfalt. Konur skortir yfirleitt ekki samkennd. Nú met ég þær út frá körlum… Sjálfstraust.

Hvaða orð, eða frasa, notar þú of mikið? 

Ég segi líklega „einmitt“ of mikið.

Hver er stærsta ástin í lífi þínu?

Sólveig, ástkona mín.

Hvar og hvenær varst þú hamingjusamastur? 

Í gær, þegar ég gekk meðfram Ægissíðunni, með tveimur vinum mínum, í blíðskaparveðri.

Yfir hvaða hæfileika myndirðu helst vilja búa yfir? 

Ég væri til í að tala öll tungumál. Og geta reiknað einföldustu dæmi í huganum.

„Ég væri til í að tala öll tungumál.“ Franski symbólistinn Arthur Rimbaud var frægur tungumálamaður (polyglot) og gat talað, auk frönsku, ensku, þýsku, spænsku, ítölsku, rússnesku, hollensku, hindí, arabísku og fjölmargar austurafrískar mállýskur frá tíma sínum í Eþíópíu. Myndin er eftir Étienne Carjat, líklega frá 1872.

Ef þú gætir breytt einhverju einu við sjálfan þig, hvað væri það?

Ef ég segi ekkert, þá líður mér eins og siðleysingja. Og ég er ekki alltaf sáttur við sjálfan mig. En hverju ég vil nákvæmlega breyta, veit ég ekki. Kannski þarf ég að kynnast mér betur. Ég verð þunglyndur á að hugsa um svona.

Ef þú myndir endurholdgast sem önnur manneskja, lífvera eða hlutur, hvað væri það? 

Ég get bara sagt hvað ég vildi vera, ekki hvað ég væri. En ég væri líklega eitthvað praktískt, sem er þó lítið notað. Praktík sem snýst upp í andhverfu sína.

Í hvaða borg/landi myndirðu helst vilja búa? 

Stokkhólmi, Svíþjóð, hugsa ég. 

Hver er mikilvægasti hlutur sem þú hefur átt? 

Rúmið mitt.

Hver er mesti harmur sem þú gætir hugsað þér?

Vinir og vandamenn dæju. Og það væri á einhvern hátt mér að kenna.

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera? 

Eitthvað rólegt, sem enginn hávaði er af. Til dæmis að elda með einhverjum. Það er líka skemmtilegt að ganga. Mér finnst líka gaman í vinnunni. Mikið er þetta barnalegt svar.

Hver er sterkasti þátturinn í þínu fari?

Fyrsta orðið sem kom upp í hugann er viðleitni. 

Hvaða rithöfundar er þér mest að skapi?

Þeir, sem skrifa ekki glæpasögur um drauga. Rithöfundar sem hugsa eins og alvöru fólk.

Hvaða skáldskaparpersóna er í mestu uppáhaldi?

Það er eiginlega tvíþætt. Annars vegar afi minn og ættfólk, sem ég hitti aldrei. Mér finnst þau vera skáldskapur. Hins vegar Erlendur Sveinsson.

Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér mest að skapi? 

Konráð Gíslason, Fjölnismaður.

Hvaða einstaklingur í mannkynssögunni er þér síst að skapi? 

Einhver, sem er á lífi, og gerir hræðilega hluti. Ekki einhver, sem er dáinn.

Hvaða tónlistarfólk er þér mest að skapi? 

Mér finnst tónlist mjög oft þreytandi og leiðinleg. Hlusta aðallega á hana í annarlegu ástandi. En ég er lagalistastrákur. Nýja lagið hans Ingó Veðurguðs er til dæmis fínt, en að sjálfsögðu algjört drasl líka.

Hvernig viltu deyja? 

Ég vil sofna um áttrætt og deyja í svefni.

Hvert er uppáhaldsblómið þitt? 

Túlípanar.

Gulir túlípanar. Verk frá árinu 1925 eftir bandarísku listakonuna Georgiu O’Keeffe.

Hvert er uppáhaldsfjallið þitt? 

Ég á mér ekki uppáhaldsfjall.

Áttu þér eftirlætis einkunnarorð/mottó? 

Stundum bendi ég á, að fjórðungi bregður til nafns.

Þá er þetta komið. Kærar þakkir, Jakob.

Takk sömuleiðis. Var þetta ekki alger viðbjóður og ömurleg svör?