John F. Kennedy, þáverandi forseti Bandaríkjanna, var skotinn undir dularfullum kringumstæðum 22. nóvember 1963. Morðið var Bandaríkjamönnum mikið áfall og aldrei hefur náðst sátt um opinberu útskýringuna, að Lee Harwey Oswald hafi skotið hann einn síns liðs. Það að hann hafi sjálfur verið myrtur og því aldrei haldin réttarhöld um morð forsetans á örugglega þátt í því.

 

JFK_limousine

 

Það er þó fleira dularfullt við þennan dag en skotferlar kúlnanna sem bundu enda á líf Kennedys í Dallas.

 

Hinir frægu rithöfundar Aldous Huxley, höfundur A Brave New World (Veröld ný og góð) og C.S. Lewis, höfundur Narníu-bókanna og góðvinur J.R.R. Tolkiens, létust líka þann 22. nóvember 1963 en að vísu af náttúrulegum orsökum.

 

Huxley var þá 69 ára og hans síðasta ósk var að fá 100 míkrógröm af LSD í vöðva sem konan hans Laura lét eftir honum. Lewis var 64 ára og hafði verið greindur með nýrnabilun á lokastigi skömmu áður en hann lést.

 

Andlát þeirra féll næstum því algjörlega í skuggann af forsetamorðinu, þó að báðir séu þeir þekktir enn í dag, og sömuleiðis sú ótrúlega tilviljun að þessi þrír þekktu menn hafi allir látist sama daginn.

 

Bandaríska rithöfundinum Peeter Kreeft yfirsást þetta hinsvegar ekki og varð fráfall þessara þriggja hugsuða honum innblástur að skáldsögunni Between Heaven and Hell sem kom út árið 1982. Þar hittast þeir Kennedy, Huxley og Lewis í hreinsunareldinum og ræða saman um trú. Kennedy út frá sínu nútímalega kristna sjónarhorni, Lewis með íhaldssamari kaþólsku túlkun og Huxley undir áhrifum frá austurlenskum trúarhefðum.

 

kreeft

Kennedy, C.S. Lewis og Huxley af kápu Between Heaven and Hell.