Í báðum Afríkuríkjum kenndum við ána Kongó, og í samfélögum Kongómanna erlendis, má finna félagsskap karla sem kalla sig La Societe des Ambianceurs et Personnes Elegantes (SAPE) — Félag frumkvöðla og fágaðs fólks, gæti það kallast á íslensku. Meðlimir félaganna, sapeurs, hafa áhuga á tísku og leggja sig fram um að klæða snyrtilega, áberandi og sem glæsilegast.

 

 

Meðlimir SAPE-hreyfingarinnar hafa lífgað upp á götur borga í Kongó í áratugi. Ekki einu sinni valdatíð einræðisherrans alræmda Mobutu Sese Seko í Austur-Kongó náði að ráða niðurlögum glæsimennanna. Sem hluti af herferð sinni að losa landið undan áhrifum nýlendustefnunnar bannaði Mobutu þegnum sínum að klæðast vestrænum jakkafötum. Í stað þeirra lét hann hanna óspennandi búning sem hann kallaði abacost — stytting á à bas le costume, niður með jakkafötin. Jakkaföt voru loks leyfð að nýju árið 1990. Tískulega sinnaðir kongóskir karlmenn tóku þeim fagnandi og urðu glæsilegri en aldrei fyrr.

 

 

 

Það er ekki ódýrt að vera glæsimenni. Merkjavara er þeim mikilvæg eins og flestum tískuáhugamönnum. Sum glæsimennin safna árum saman eða vinna myrkranna á milli til þess að eiga fyrir nýjum klæðnaði. Það skiptir máli að vera elegant.  „Kongóskur sapeur er hamingjusamur þó hann borði ekki,“ sagði eitt glæsimenni við blaðamann. „Því það að vera í glæsilegum fötum nærir sálina og gleður líkamann.“

 

 

Glæsimennin keppa sín á milli í tísku og glæsileika. Hörð samkeppni er einnig milli glæsimennasamfélaganna í höfuðborgum Austur- og Vestur-Kongó, Kinshasa og Brazzaville, sem standa sitt hvoru megin við ána Kongó. Aðaltískan í Brazzaville er að vera aldrei í meira en þremur litum, en í Kinshasa er slíkum reglum varpað fyrir róða. Því litríkari því betra.

 

En annars eru herramennirnir friðarsinnar. „Leggjum niður vopnin, vinnum saman og klæðum okkur glæsilega“ er mottó glæsimennanna í Austur-Kongó, þar sem mannskæðasta styrjöld í sögu Afríku geisaði á síðasta áratug.

 

 

Hlýðum á lag með kongólska soukous-meistaranum Franco á meðan við skoðum fleiri myndir af þessum frábæru bjartsýnismönnum:

Vídjó

 

Ítalinn Francesco Giusti tók myndir af glæsimennum í Brazzaville, höfuðborg Vestur-Kongó: