Á eftirstríðsárunum varð fjölföldun á ýmsu menningarefni að andófsstarfsemi í Sovétríkjunum. Fróðleg birtingarmynd þess var þegar gamlar röntgenmyndir fengu framhaldslíf sem hljómplötur.

 

Á umbrotatímunum undir lok seinna stríðs, áður en járntjaldið umlukti Austur-Evrópu og leynilögreglan herti ritskoðun í Sovétríkjunum, fengu þegnar smjörþefinn af vestrænni menningu í gegnum hersetu á stríðshrjáðum svæðum.

 

Fyrst um sinn létu yfirvöld sig lítið varða hvaða bækur voru lesnar og hvaða tónlist var spiluð eða um kynhneigð og skoðanir listamanna.

 

Það breytist fljótt til hins verra með tilheyrandi ritskoðun, bannvæðingu og útskúfunum. Sovéskir menningarvitar dóu hinsvegar ekki ráðalausir heldur hófu víða að afrita með handskrift bannað ritefni og deila því leynt.

 

Sú iðja fékk nafnið Samizdat eða „sjálfsútgáfa“, sem andófsmaðurinn Vladimir Bukovsky lýsti á eftirfarandi hátt: „Ég skrifa það sjálfur, ritstýri því sjálfur, ritskoða það sjálfur, gef það sjálfur út, dreifi því sjálfur og sit í fangelsi fyrir það sjálfur.“

 

Prýðilegur svartur markaður grasseraði brátt en eðli málsins samkvæmt reyndist öllu erfiðar að afrita og fjölfalda tónlist. Boltinn fór fyrst að rúlla árið 1946 þegar Pólverjinn Stanislav Philo kom til Leningrad með litla Telefunken-upptökugræju hugsaða fyrir fréttaritara á stríðstímum.

 

 

Philo opnaði búð þar sem vegfarendur gátu litið inn, tekið upp stutta kveðju á vínyl og sent vinum eða ættingjum. Ekki leið á löngu þar til hann var farinn að halda samkomur á kvöldin þar sem hann afritaði bannaðar plötur á meðan tilvonandi kaupendur blönduðu saman geði.

 

Einn fastagesta Philos á þessum tíma var ungur maður að nafni Ruslan Bogoslovsky sem eyddi þar löngum stundum ásamt félaga sínum. Það voru ekki bara kurteisisheimsóknir því á meðan veru sinni stóð tókst honum að skrá niður ítarlegar upplýsingar um græjuna svo lítið bar á með það í huga að smíða sína eigin. Svo vildi nefnilega til að faðir hans var verkfræðingur og hafði aðstöðu í skúrnum heima hjá sér til framkvæmda.

 

Þeim tókst ætlunarverk sitt og gott betur, vélin var svo vel heppnuð að gæðin þóttu betri en hjá sjálfri frumútgáfunni og hófu þeir félagar þegar fjöldaframleiðslu og sölu á plötum undir nafninu Gullhundagengið, sem var tilvísun í frægt einkennismerki breska plötuframleiðandans His Masters Voice.

 

Fljótlega rákust þeir þó á vegg. Eftirspurnin var slík að þeir gátu illmögulega fundið efnivið til að skera plöturnar með löglegum hætti án þess að vekja eftirtekt yfirvalda. Þá vildi svo heppilega til að spítalar voru í óða önn að losa sig við gríðarlegt magn röntgenmynda sökum nýrrar reglugerðar þar sem myndirnar sköpuðu eldhættu.

 

Á þessum tímum var lítið hugsað um persónuvernd og iðulega var starfsmaður bara beðinn um að henda þeim í næsta ruslagám. Því gat Gullhundagengið einfaldlega valsað inn með örfáar rúblur, eða jafnvel vodkapela sem gjaldmiðil, og kippt með sér heilu bunkana af röntgenmyndum á leiðinni út. Röntgenmyndirnar skáru þeir síðan í hringlaga form og var gat brennt fyrir miðju með sígarettu en þaðan kemur jú einmitt nafnið Roentgenizdat. Stykkið kostaði að jafnaði eina til eina og hálfa rúblu.

 

Einn stærsti markhópur Gullhundagengisins voru hin svokölluðu Stilyagi. Hópur ungmenna með vestræna menningu á heilanum, klæddu sig á ýktan máta eftir vestrænni tísku þess tíma og hlustuðu á rokk, blús og djass.

 

En þótt að hin litríku Stilyagi og áhugi þeirra á vestrænni menningu hafi fengið mestan hluta sviðsljóssins við enduruppgötvun þessa fyrirbæris nú eftir fall Sovétríkjanna virðist sem svo að þeir innlendu listamenn sem höfðu orðið fyrir barðinu á ritskoðun, t.a.m. hinn samkynhneigði Vadim Kozin, voru ekki síður vinsælli og þá jafnvel söluhæstir.

Vídjó

Þetta framtak Bogoslovskys gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Á ferli sínum var hann fangelsaður þrisvar, og þá í nokkur ár í senn, en aldrei gafst hann upp heldur tók upp fyrri iðju af nýjum eldmóð í hvert skipti þegar út var komið. Þegar hann loks slapp út eftir þriðju fangelsunina voru tímarnir hinsvegar breyttir. Í kjölfar hinnar sjöttu alþjóðlegu ungliðahátíðar sem haldin var í Moskvu árið 1957 mýktust yfirvöld gagnvart erlendri tónlist og lyftu t.a.m. banninu gagnvart djassinum.

 

Stuttu síðar leyfðu yfirvöld einkaeigu á kasettutækjum þannig að markaðurinn hvarf endanlega fyrir vínylplötum Gullhundagengisins og voru dagar þess þar með taldir. Ekki er vitað til þess að gengið hafi haldið neina skrá yfir útgáfur sínar og þar fyrir utan entust þær ekki lengi. Hljómgæðin þóttu ekki góð nýpressaðar hvað þá heldur eftir ítrekaðar spilanir en þrátt fyrir það þykja Roentgenizdat plötur eigulegir safngripir í dag.

 

Vídjó

Húni Hilmarsson aka dj presmach