Téténía með augum Chrystal Callahan er á dagskrá á hverju sunnudagskvöldi á Grozny TV, sjónvarpsstöðvar í samnefndri höfuðborg rússneska sjálfstjórnarlýðveldisins Téténíu. Í þættinum ferðast kanadíska fyrirsætan Chrystal Callahan um Téténíu og kynnir sér menningu landsins og siði.

 
Þáttastjórnandinn Chrystal Callahan er fædd og uppalin í Toronto í Kanada. Hún kom fyrst til Téténíu árið 2007 til þess að taka upp heimildarmynd um glímukappa. Þá kynntist hún Ramzan Kadyrov, sem Vladimir Pútín hafði þá nýskipað í embætti forseta hins stríðshrjáða lýðveldis. Það fór svo vel á með þeim að ári síðar bauð Kadyrov fyrirsætunni að setjast að í Téténíu og sjá um sjónvarpsþátt á hinu ríkisrekna Grozny TV.

 
Callahan talar hvorki rússnesku né téténsku—þættirnir hennar eru á ensku og er ætlað að kynna útlendingum og útlaga Téténum „jákvæðu hlið“ Téténíu, sem hingað til hefur aðallega ratað í heimsfréttirnar vegna blóðugra styrjalda sem þar hafa geisað frá falli Sovétríkjanna milli uppreisnarmanna og yfirvalda í Moskvu.

 

 

Vídjó

 

Í brotum úr þáttunum sem sjá má á YouTube lærir Callahan téténska þjóðdansa, heimsækir helstu verslunarmiðstöðvar Grosníborgar, eldar téténskan mat og fleira. Callahan les líka fréttir, tekur viðtöl við téténska stjórnmálamenn og fjallar um íslamska guðfræði, þó sjálf sé hún ekki múslimi. Stór hluti þátta hennar eru svo tileinkaðir því sem Téténíuforsetinn og vinur hennar Ramzan Kadyrov hefur tekið sér fyrir hendur þessa vikuna.

 
Þættirnir hafa sætt mikilli gagnrýni og Callahan sögð vera einungis áróðurstól og málpípa hins umdeilda Kadyrov og velunnara hans í Kreml. Callahan vísar því á bug. Hún þvertekur einnig fyrir ásakanir blaðamanna og mannréttindasinna að Kadyrov stundi það að pynta og myrða pólítíska óvini sína. „Ef það eru engar sannanir fyrir því, hverjum er ekki sama?“ sagði hún í samtali við CNN í fyrra.

 

Vídjó

Öll hefum við velt þessu fyrir okkur — hvar eru bestu snyrtistofurnar í Grosní?

 

 

Vídjó

Chrystal Callahan ræðir við unglingana í „Þjóðrækniklúbbnum Ramzan“, nefndum eftir forsetanum.
 
 

Vídjó

Harmónikkuleikarinn Ramzan Paskayev reynir að kenna Callahan að spila á téténska harmónikku.

 

 

Vídjó

Callahan ræðir við vegfarendur á Pútínstræti í Grosní og eldar þjóðarrétt Téténa.

 

 
Callahan hefur líka reynt fyrir sér sem poppstjarna, á téténsku:

Vídjó