Á áttunda áratugnum reis furðuleg verslunarmiðstöð í München í Vestur-Þýskalandi. Hún fékk nafnið Schwabylon og skartaði meðal annars gríðarstórum næturklúbbi sem hannaður var í anda bítlamyndarinnar Yellow Submarine. Klúbburinn var innan í fiskabúri og í kringum hann svömluðu 40 hákarlar. En þessi mikla verslunarmiðstöð fór nánast strax á hausinn og nú í ár voru síðustu leifar hennar rifnar niður.

 

Margir vilja tengja Þjóðverja við ráðvendi og íhaldssemi í fjármálum og tala jafnvel um að hefði slíkur hugsanagangur væri við lýði á Íslandi hefðum við nú heldur en ekki betur verið undirbúin fyrir hrun bankakerfisins.

 

En peningarnir eru til að eyða þeim og enginn hefur haft gaman af því að vera íhaldssamur og ráðvandur í fjármálum.

 

Þvert á allar staðalímyndir er tilvalið að líta til Þýskalands þegar kemur að ævintýralega skemmtilegu bruðli á fé. Nánar tiltekið München snemma á áttunda áratugnum.

 

Líkan af herlegheitunum.

Otto Schnitzenbaumer hafði auðgast mjög á sölu landbúnaðartækja. Hann fól svissneska arkitektinum prof. dr. Justus Dahinden það verk að hanna fyrir sig verslunar- og frístundamiðstöð með öllu sem átti að rísa í München.

 

Prof. dr. Dahinden fór í miklar heimspekilegar pælingar og vildi reisa nokkurs konar borg innan borgarinnar. Íbúar gætu unnið, verslað og eytt frítíma sínum innan „borgarmúranna“ og hefðu enga þörf fyrir að komast út úr miðstöðinni.

 

Útkoman varð neðri helmingur píramída baðaður í björtum litum rísandi sólar í forgrunni en fyrir aftan reis íbúðahluti en til hliðar Holiday Inn hótel og skemmtistaður í anda bítlateiknimyndarinnar Yellow Submarine. Miðstöðin fékk nafnið Schwabylon sem var samsett úr nafni borgarhlutans (Schwabing) og Babylon.

 

Hugmyndin hefði getað verið getin á sýrutrippi seint á sjöunda áratugnum og framkvæmd í kókaínrússi í byrjun þess áttunda.

 

Ætli Þórir Baldursson hafi dillað sér við diskósmelli sína undir vökulum augum hákarla hér?

 

Innan veggja Schwabylon mátti finna verslunarsvæði með 96 verslunarrýmum, 12 veitingahúsum, kaffihúsum, kvikmyndahúsi, ekta bjórgarði með stærðarinnar kastaníutrjám, leiktækjasal, líkamsrækt með rómversku baðhúsi, sundlaug, gufubað, sólbaðsstofu og skautasvelli.

 

Þar voru skrifstofur, hótel með 378 herbergjum, bílastæðahús og íbúðir. Í verslunarmiðstöðinni voru stigar leystir af hólmi með aflíðandi göngubrautum.

 

Schwabylon bjó einnig yfir Yellow Submarine, þriggja hæða hringlaga næturklúbbi sem var innan í gríðarstóru fiskabúri. Búrið var níu metra hátt, úr skotheldu 56 millimetra þykku gleri og tók 600.000 lítra af vatni. Innan þess svömluðu 40 hákarlar (veiddir í Mexíkóflóa) ásamt 600 fiskum og skjaldbökum. Hugmyndin hefur eflaust verið sú að gefa fólki þá tilfinningu að það væri statt djúpt neðansjávar í kafbáti.

 

Sundlaugin var mjög groovy.

 

Miðað við sýrustig staðarins gæti hugmyndin alveg eins hafa verið sú að það væri fólkið sem væri í búri og sjávardýrin fylgdust með hegðun þess, matar- og dansvenjum og mökunarsiðum.

 

Byggingarkostnaður Yellow Submarine var á þeim tíma 3 milljónir marka og daglegur fóðurkostnaður hákarlanna var 500 mörk. Heildarkostnaður Schwabylon fór alls upp í 160 milljónir marka.

 

Eftir búðaráp er alltaf gott að geta slakað á við listdans á skautum.

 

Scwhabylon opnaði þann 9. nóvember 1973. Reksturinn gekk mjög illa og aðeins 14 mánðuðum síðar, undir árslok 1974 lokuðu síðustu 6 verslanirnar.

 

Verslunarmiðstöðin var síðan rifin árið 1979 en hótelið og næturklúbburinn (þó án hákarlanna) stóðu til ársins 2013.

 

Vídjó

Niðurrif hótelsins og Yellow Submarine næturklúbbsins.

 

Í Derrick þættinum Málið í Salzburg (9. þáttur 2. þáttaraðar) frá árinum 1975 er Schwabylon nokkuð áberandi. Byggingin er nokkuð í mynd auk þess sem nokkrar senur eru teknar upp í íbúðahluta byggingarinnar.

 

Vídjó

 30:04: Harry Klein bíður átekta fyrir utan Schwabylon með Derrick á línunni.

 

Svæðið þar sem Schwabylon stóð. Mynd tekin áður en hótelið og skemmtistaðurinn voru rifin.


View Larger Map