Fyrir nokkrum árum fannst bunki af Polaroid myndum sem rússneski kvikmyndaleikstjórinn Andrei Tarkovsky (1932–1986) mun hafa tekið um 1979 til 1984.
„Árið 1977 birtist Tarkovsky með Polaroid vél í brúðkaupinu mínu í Moskvu. Hann hafði þá nýuppgötvað tækið og kætti okkur með brellum sínum með það. Hann og [Michelangelo] Antonioni voru vottar í brúðkaupinu. Venju samkvæmt þurftu þeir að velja tónlistina sem var leikin á meðan skrifað var undir hjónavígsluna. Þeir völdu Dónárvalsinn.
Antonioni notaði líka polaroid vél á þeim tíma. Ég man að þegar við skoðuðum staði í Úsbekistan, þar sem við ætluðum að gera bíómynd – en gerðum svo aldrei – gaf hann þremur eldri múslimum ljósmyndirnar sem hann hafði tekið af þeim. Um leið og sá elsti sá myndirnar skilaði hann þeim og sagði: „Til hvers eru þær, til að stöðva tímann?“ Svarið kom svo á óvart að við þögðum bara.
Tarkovsky hugsaði mikið um hvernig tíminn flýgur og einbeitti sér að því að stöðva hann – ef ekki væri fyrir augnablik með Polaroid myndavélinni.“ — Ítalska skáldið og handritshöfundurinn Tonino Guerra.
Tarkovsky var auðvitað meistari ljóss, drunga og þoku í kvikmyndum sínum og nýtti sér einnota og sjálfframkallandi vélina listilega. Þessar myndir og fleiri til hafa komið út í bók sem á ensku kallast Instant Light. Skoðið fleiri myndir á hinu stórgóða bloggi Poemas del Río Wang.