Alnetið er undarlegur staður. Á sakleysislegum spássitúr mínum um einn helsta höfuðstað þess, Fjasborg, urðu skyndilega á vegi mínum kettir með rakettur á bakinu. Svo undarlegur staður er Alnetið að þetta í sjálfu sér var ekki undarlegt, ekki á þessu póstlolkattaskeiði þar sem 13. aldar handritalýsingar af köttum eru hafðar til sambærilegra hlátraskalla og hin margvíslegustu kattamyndbönd í þeirri miklu skuggsjá er nefnist YouTube.

 

Kettir úr Ashmoledýrafræðinni frá 13. öld. Sá lengst til vinstri sem sleikir auga hins illa er nánast símískur, en apar voru taldir vera djöfullegir á miðöldum.

 

Það undarlega var að þær voru frá 16. öld, einhverjum 400 árum áður en mannkyninu datt fyrst í hug að festa Sean Connery við rakettu (og síðan aldrei meir, því miður), hvað þá húsdýr.

 

Sean Connery, svalur sem þotuköttur.

Sean Connery, svalur sem þotuköttur.

 

Enn sérkennilegra er að ekki er einasta um að ræða ketti, heldur einnig fugla, sem að öllu jöfnu þurfa ekki annað eldsneyti til flugtaks en viljann. Ef annað er mannvonska þá er hitt hið minnsta tvíverknaður ef ekkert fleira.

 

Þotufugl og þotuköttur

Þotufugl og þotuköttur

 

Svo hvað kemur til? Nær þessi hefð jafnvel aftur til miðalda? Sátu munkar löngum stundum við agnarsmáa ljóstíru klausturskrifstofa við að lýsa handrit nostursamlega máluðum myndum af dýrum þjótandi um himinhvolfin með þotupoka til þess eins að undirrita þær með fagurlega rituðu karlungaletri: lœl? Og hvað um þessar rakettur allar? Er hér um að ræða áður óþekkt menningaráhrif frá sköpurum púðursins, Kínverjum?

 

Svarið er, því miður, öllu einfaldara. Megi lesandi nú hætta lestrinum og halda í gleðina sem fylgir þessum skýringum, ellegar fræðast og fyllast hryllingi (eða hryllilegri gleði, eftir innræti lesandans).

 

Þotuköttur úr Folger Shakespeare Library, V.b.311, f. 129r.

Þotuköttur úr Folger Shakespeare Library, V.b.311, f. 129r.

 

Þótt engar myndskreytingar af svipuðum athöfnum fallegra smádýra sé að finna í íslenskum handritum (svo ég viti til, að minnsta kosti), þá eigum við vissulega til texta, t.d. Morkinskinnu og Haralds sögu Sigurðssonar úr Heimskringlu:

 

En er Haraldur kom til Sikileyjar þá herjaði hann þar og lagði þar með liði sínu til einnar borgar mikillar og fjölmennrar. Settist hann um borgina því að þar voru sterkir veggir svo að honum þótti ósýnt að brjóta mundi mega. Borgarmenn höfðu vist gnóga og önnur föng þau er þeir þurftu til varnar.

Þá leitaði hann þess ráðs að fyglarar hans tóku smáfugla, þá er hreiðruðust í borginni og flugu á skóg um daga að taka sér mat. Haraldur lét binda á bak fuglunum lokarspónu af tyrvitré og steypti vaxi og brennusteini og lét slá eldi í. Flugu fuglarnir, þegar er lausir urðu, allir senn í borgina að vitja unga sinna og híbýla er þeir áttu í húsþekjum þar er þakt var reyr eða hálmi. Þá laust eldinum af fuglunum í húsþekjurnar. En þótt einnhver bæri litla byrði elds þá varð það skjótt mikill eldur er margir fuglar báru til víða um borgina í þekjur og því næst brann hvert hús að öðru þar til er borgin logaði. Þá gekk fólkið allt út úr borginni og bað sér miskunnar, þeir hinir sömu er áður höfðu margan dag drembilega mælt og háðulega til Grikkjahers og höfðingja þeirra. Gaf Haraldur öllum mönnum grið, þeim er þess beiddu, fékk síðan vald yfir þeirri borg.

 

Úr Ms. Codex 109, f137r.

Úr Ms. Codex 109, f137r.

 

Ojá. Nú er að vísu ekki hægt að halda því fram að Haraldur harðráði hafi nokkru sinni beitt þessu kænskulega bragði í raun og veru (ég verð líka að játa að ég skil ekki alveg hvernig þetta á að virka í praxís). Þegar rit eins og Morkinskinna og Heimskringla eru rituð er þessi aðferð fyrir löngu orðin að bókmenntalegu minni sem gengur aftur í margs konar hetjusögum af fræknum konungum og hershöfðingjum. Í útgáfu sinni á Morkinskinnu bendir Ármann Jakobsson á að sams konar frásögn sé að finna í Roman de Brut eftir Wace, sem sé nokkru eldra rit en Morkinskinna (Íslenzk fornrit XXIII, nmgr. 3, bls. 101) og Sigfús Blöndal hefur einnig bent á hliðstæðar sögur í Væringjasögu sinni (sjá bls. 131-32). Haraldur lætur ketti svo sem alveg eiga sig og mér er ekki kunnugt um það heldur að köttum sé svo hryllilega misbeitt í þágu hernaðar í íslenskum heimildum (ekki að það sé endilega skárra að beita fyrir sig „tröllum“ og „blámönnum,“ en siðfræði miðaldabókmennta er efni í heila aðra grein).

 

Úr handritinu LJS 442: Leiðbeiningarbæklingur fyrir fallbyssumann, f. 60r

Úr handritinu LJS 442: Leiðbeiningarbæklingur fyrir fallbyssumann, f. 60r

 

Síðustu fjórar myndirnar sem fylgja þessari grein eru allar fengnar af þessari vefsíðu sem hefur þær aftur úr ýmsum hernaðarbæklingum frá 16. og 17. öld. Þar er því haldið fram að upphafsmaður slíks hernaðar sé Franz nokkur Helm frá Köln sem ku hafa barist gegn Tyrkjum um miðja 16. öldina, samanber verk hans Buch von den probierten Künsten. Af ofangreindu er aftur á móti ljóst að hann hefur annað hvort haft mun eldri fyrirmynd þar sem hugmyndin þekkist á miðöldum, eða þá að hann hefur fundið upp á þessu án vitundar um brautryðjendur þessarar göfugu hernaðarlistar. Mætti þá spyrja sig hvort hugmynd getur talist jafngalin ef tveir fá hana hvor í sínu lagi.

 

Einhverjum kann að virðast þetta fjarstæðukennd hernaðartaktík. Þeim hinum sömu skal vísað á kvikmyndina um Júraveröldina. Eftir hana munu allir geta séð að logandi kettir og fuglar, mýs, tapírar eða flóðhestar eða hvað sem hægt er að senda logandi í átt að óvininum, er alls ekki svo galið í samanburðinum.

 

Smjörfjallið getur á hinn bóginn ekki mælt með að lesendur prófi þetta á óvinum sínum.