Vídjó

 

Norski íþróttafréttamaðurinn Björge Lillelien starfaði á norska útvarpinu NRK í marga áratugi. Hann lýsti oftast fótboltaleikjum eða skíða- og vetraríþróttum. Hann hafði sérstakan talanda og takta sem víðfrægir voru um allan Noreg. Venjulega fór lítið fyrir honum, hann var stakur rólyndismaður sem vildi helst ekki hækka rödd sína mikið. Hann umturnaðist hins vegar og tók ofvirknisköst þegar hann lýsti íþróttaviðburðum, sérstaklega þegar mikið lá við.

 

Einhvern tímann sagði hann við vinnufélaga sinn: „Við skulum alls ekki búa til leiðinlegan útvarpsþátt þó að fótboltaleikurinn sé leiðinlegur. Við skulum stjórna útvarpsþætti sem æsir fólk upp!“

 

Þann 9. september 1981 sigruðu Norðmenn Englendinga 2-1 í Osló í undankeppni HM. Björge Lillelien trylltist af ánægju og öskraði á hámarkshljóðstyrk:

 

„Vi er best i verden! Vi er best i verden! Vi har slått England 2-1 i fotball!! Det er aldeles utroligt! Vi har slått England! England, kjempers fødeland. Lord Nelson, Lord Beaverbrook, Sir Winston Churchill, Sir Anthony Eden, Clement Attlee, Henry Cooper, Lady Diana–vi har slått dem alle sammen. Vi har slått dem alle sammen. Maggie Thatcher can you hear me? Maggie Thatcher, jeg har et budskap til deg midt under valgkampen. Jeg har et budskap til deg: Vi har slått England ut av Verdensmesterskapet i fotball. Maggie Thatcher, som de sier på ditt språk i boksebarene rundt Madison Square Garden i New York: Your boys took a hell of a beating! Your boys took a hell of a beating!“

 

Í íslenskri þýðingu myndi þetta hljóða einhvern veginn svona :

 

„Við erum bestir í heimi! Við unnum England 2-1 í fótbolta. Það er aldeilis ótrúlegt! Við unnum England! Föðurland stórmenna, lávarðanna Nelsons og Beaverbrooks, Sir Winston Churchills, Sir Anthony Edens, Clements Atlee, Henrys Cooper, lafði Díönu. Við unnum þau öll. Maggie Thatcher, heyrirðu til mín? Maggie Thatcher, ég er með skilaboð til þín í miðri kosningabaráttunni. Ég er með skilaboð til þín: Við höfum slegið Englendinga út í heimsmeistarakeppninni í fótbolta. Maggie Thatcher, eins og þeir segja á tungumáli þínu á börum hnefaleikamannanna við Madison Square Garden í New York: „Strákarnir þínir fengu aldeilis að finna fyrir því!““

 

Eftir leikinn urðu þessi orð svo fræg í Noregi að þau heyrðust alla leið til Englands. Þar voru þau prentuð á forsíður allra íþróttablaða. Festist þá sú hefð í sessi að breskir íþróttamenn færu stundum með svipaðar ræður og Björge Lillelien gerði árið 1981 þegar landslið höfðu tapað illa.

 

Björge Lillelien

 

Þegar Ástralar töpuðu fyrir Englendingum í krikket árið 2003 öskraði íþróttafréttamaður BBC: Kylie Minogue! Steve Irwin! Holly Valance! Crocodile Dundee! Natalie Imbruglia! Ian Thorpe! Mrs. Mangel! Can you hear me? Your boys took a hell of a beating!

 

Þegar Skotar unnu Norðmenn í fótbolta árið 2005 í Osló notaði dagblaðið Daily Record þessi orð á forsíðunni: „King Olaf, Roald Amundsen, Liv Ullmann, Edvard Munch, Vidkun Quisling, Thor Heyerdahl, Henrik Ibsen, Edvard Grieg, Monty Python’s Norwegian Blue, Morten Harket and Anni-Frid from ABBA. Your boys took a helluva beating!“

 

Daginn eftir skrifaði ritstjóri Daily Records hins vegar afsökunarbeiðni til norsku þjóðarinnar í leiðaradálki. Það hafði farið fyrir brjóstið á Norðmönnum að blaðið skyldi telja Vidkun Quisling, svikara allrar þjóðarinnar, sem eitt stórmenna hennar.

 

Maggie Thatcher, jeg har et budskap til deg!