Á miðjum sjöunda áratugnum hafði bandaríska leyniþjónustan CIA mikinn áhuga á einkafundum þjóðhöfðingja nokkurs í Asíu. Leyniþjónustumönnum á svæðinu gafst ekki tækifæri til að koma fyrir hlerunarbúnaði á skrifstofu hans en í skýrslu eins þeirra kom fram að þeir einu sem gátu farið frjálsir ferða sinna um skristofukynni þjóðhöfðingjans voru flækingskettir sem hann hafði mikið dálæti á.

 

Einhver snillingurinn heima í höfuðstöðvunum las skýrsluna og fékk við það þessa líka frábæru hugmynd: Hvað ef við setjum hljóðnema á kettina? Stjórnendur CIA féllu fyrir þessu og næstu mánuði vann hópur tæknimanna þrotlaust að því sem nefnt var „Operation Acoustic Kitty“.

 

Tæknimennirnir gerðu sér grein fyrir því að það mætti alls ekki sjást að kettirnir væri með hljóðnema á sér og þaðan af síður mætti hann detta af og laskast. Það var því ákveðið að koma hljóðnemanum fyrir innan í dýrunum.

 

Köttur nokkur var skorinn upp og tveggja sentimetra breiðu, sérsmíðuðu senditæki komið fyrir undir húðinni á hálsinum á honum. Senditækið var í sérstökum umbúðum til að þola hitann og rakann í kattarlíkamanum. Það gekk fyrir batteríum og til þess að skipta um batterí þurfti að gera aðgerð á kettinum upp á nýtt. Úr senditækinu lá svo leiðsla í hljóðnemann sjálfan, sem var komið fyrir í hlust dýrsins og gægðist út úr öðru eyranu. Loftnetinu var að sjálfsögðu komið fyrir í skottinu.

 

Aumingja kisi.

Aumingja kisi.

 

Ekkert var til sparað í rannsókn og þróun tilraunarinnar með hljóðnemaköttinn og alls kostaði ævintýrið bandaríska skattgreiðendur víst meira en 20 milljónir dollara. CIA gerði sér miklar vonir um að hér væri loksins komið leynivopnið sem myndi skipta sköpum í kalda stríðinu. Her katta myndi ganga óáreittur um götur Sovétríkjanna og hlera ýmis hernaðarleyndarmál.

 

En þetta gekk ekki alveg eins vel og aðstandendur Operation Acoustic Kitty höfðu vonað. Tilraunadýrið, svarthvít læða, reyndist afar ósamvinnuþýtt þar sem læðan var sísvöng, eins og katta er venja, og vildi heldur gæða sér á kattamat en að eltast við kommúnista.

 

Læðunni var loks byrlað lyf sem bældi niður hungrið. Síðan var farið með hana í almenningsgarð þar sem hún átti að hlera samtal tveggja sovéskra sendiráðsstarfsmanna sem sátu þar á bekk. En CIA-menn höfðu ekki fyrr sleppt henni lausri en að hún varð fyrir leigubíl og dó.

 

Kettir ku hafa meiri áhuga á mat en ríkisleyndarmálum.

Kettir ku hafa meiri áhuga á mat en ríkisleyndarmálum.

 

Eftir þennan harmleik gerði CIA sér grein fyrir að ekki væri hægt að reiða sig á ketti til að stunda njósnir og Operation Acoustic Kitty var lokað.

 

„Views of Trained Cats“. Leyniskýrsla CIA um notkun katta til njósna.

„Views of Trained Cats“. Leyniskýrsla CIA um notkun katta til njósna.