Hæstu tré jarðar eru af tegund strandrisafura (Sequoia sempervirens) sem vaxa í Kaliforníu. Þær geta náð 115 metra hæð (munum að Hallgrímskirkja er 75 m á hæð). Þessi óskaplega stóru tré eru skyld öðrum risafurum á vesturströnd Norður-Ameríku en þessar lífverur eru meðal þeirra langlífustu, hæstu og stærstu í veröldinni.

 

Tegundin sem hér um ræðir er einnig nefnd rauðviður (redwood) og óx eitt sinn mjög víða við strandlengju Kaliforníuríkis og Oregon. En gríðarlegt skógarhögg á strandrisafurunni, sem er afar hentugur og fallegur viður fyrir húsgagnaframleiðslu og húsbyggingar, hefur minnkað hinn náttúrulega skóg um 95 prósent á örfáum öldum. Nú vaxa fururnar, sem geta orðið um tvö þúsund ára gamlar, aðeins á afmörkuðum svæðum og þjóðgörðum.

 

Hér sjáum við ljósmyndir sem Svíinn A.W. Ericson tók á árabilinu 1880 til 1920 af skógarhöggsmönnum sem brytjuðu niður hina merku furuskóga. Myndirnar eru varðveittar hjá Humboldt State University Library, en strandrisafurur setja mjög svip sinn á Humboldt-sýslu í Kaliforníu.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nýleg ljósmynd frá Redwood National Park í Kaliforníu. Þoka er algeng í strandrisafuruskógunum í þjóðgörðum fylkisins. (Wikimedia Commons)