Ein frægasta barnastjarna sögunnar lék í furðulegum stuttmyndum þegar hún var enn á leikskólaaldri. Myndirnar eru vægast sagt vafasamar í augum okkar nútímamanna – hafa tilvísun í kynferðismál og kynþáttahatur. Í ævisögu sinni lýsti Temple þessum myndum sem „ljótri misþyrmingu á barnslegu sakleysi“. 

 

Ef þú pantar Shirley Temple á bar áttu von á því að fá óáfengan kokteil sem inniheldur engiferöl og grenadin síróp. Leikkonan sem drykkurinn var nefndur í höfuðið á þoldi hann ekki, fannst hann of sætur og hafði löngu misst húmor fyrir því þegar fólk pantaði hann óumbeðið fyrir hana í gríni.

 

Frægð Shirley var það mikil að Salvador Dalí notaði andlit hennar í málverkinu Shirley Temple, The Youngest, Most Sacred Monster of the Cinema in Her Time.

Frægð Shirley var það mikil að Salvador Dalí notaði andlit hennar í málverkinu Shirley Temple, The Youngest, Most Sacred Monster of the Cinema in Her Time.

 

Shirley sló í gegn sem barnastjarna á tímum kreppunnar miklu í Bandaríkjunum. Gleðilegt fas hennar og söng- og danshæfileikar gladdi kvikmyndahúsagesti á öllum aldri þegar hart var í ári og frægð hennar náði langt fyrir utan Bandaríkin.

 

shirley

 

Hún tilkynnti starfslok sín í kvikmyndabransanum þegar hún var aðeins 23 ára og helgaði sig fyrst um sinn því að búa öðrum eiginmanni sínum fallegt heimili og hugsa um barnauppeldi eins og þótti móðins þá fyrir konur eftirstríðsáranna í Bandaríkjunum. Seinna átti hún þó eftir að taka til hendinni á stjórnmálasviðinu.

 

Shirley bauð sig fram sem þingmaður fyrir Repúblikanaflokkinn árið 1967 en tapaði. Þó var ferlinum ekki lokið því hún var fulltrúi Bandaríkjanna á þingi Sameinuðu þjóðanna árið 1969 auk þess sem hún var sendiherra Bandaríkjanna í Ghana og síðan Tékkóslóvakíu ásamt ýmsum öðrum störfum. Hún kom til Íslands í fylgd með Vaclav Havel forseta Tékkóslóvakíu árið 1990 og hitti þá meðal annarra frú Vigdísi forseta.

 

Shirley á Íslandi 1990.

Shirley á Íslandi 1990.

 

Þrátt fyrir farsælan feril Shirley í kvikmyndum og stjórnmálum má segja að hann hafi hafist í frekar vafasömum kvikmyndum.

 

Shirley var uppgötvuð í dansskóla í Los Angeles af leikstjóranum Charles Lamont þegar hún var aðeins þriggja ára. Hann borgaði henni 10 dollara á dag fyrir að leika í stuttmyndaseríu sem nefndist Baby Burlesk. Alls voru átta slíkar myndir framleiddar og voru þær sýndar á undan aðalmynd kvöldsins í kvikmyndahúsum. Shirley lék í sjö af þeim og fékk greidda 50 dollara fyrir hverja mynd.

 

Tveir hermenn keppa um athygli Shirley með því að gefa henni sleikipinna í myndinni War Babies (1932).

Tveir hermenn keppa um athygli Shirley með því að gefa henni sleikipinna í myndinni War Babies (1932).

 

Baby Burlesk myndirnar voru hugsaðar sem stuttar grínútgáfur af þekktum kvikmyndum þess tíma þar sem börn í bleyju að neðan og fullorðinsklæðnaði að ofan stigu í hlutverk hinna fullorðnu.

 

Það er vægast sagt óþægilegt að horfa á sum atriði myndanna í dag þar sem það er augljós kynferðislegur og rasískur undirtónn í sumum þeirra.

 

Vídjó

Sem dæmi má nefna myndina Polly Tix in Washington (1933) þegar Shirley leikur tálkvendið Polly Tix sem sent er til að fá nýjan öldungardeildarþingmann til að kjósa rétt. Polly sést kyssa þingmanninn og þegar hann lýsir því yfir hversu falleg hún sé og hversu æstur hann sé í hana varar Polly hann við með þessum orðum: „I’m expensive.“

 

Vídjó

Dæmi um rasísk þemu í þessum myndum má finna í seinustu myndinni í seríunni sem nefnist Kid in Africa (1933). Þar leikur Shirley kristniboða í Afríku sem er handsamaður af innfæddum sem gera sig líklega til að sjóða hana í potti.

 

Kid in Africa (1933). Gamla afríska mannætustefið notað sem Íslendingar þekkja vel úr teiknimyndasögum Sigmunds úr Morgunblaðinu.

Kid in Africa (1933). Gamla afríska mannætustefið notað sem Íslendingar þekkja vel úr teiknimyndasögum Sigmunds úr Morgunblaðinu.

Að lokum kemur síðan Diaperzan (Bleyju-Tarzan) og bjargar Shirley úr prísundinni. Hún er afskaplega þakklát og ætlar að fá Diaperzan til að hjálpa sér að „siðvæða þessar hræðilegu mannætur“ eins og hún orðar það.
Myndirnar voru að sjálfsögðu framleiddar þegar tíðarandinn var annar en það er áhugavert að skoða hvað þótti í lagi að láta ung börn gera í kvikmyndum á þessum tíma. Shirley var ekki orðin 4 ára þegar hún lék í fyrstu myndinni.

 

Reyndar voru ekki allir sem töldu þetta í lagi og var framleiðslu Baby Burlesk myndanna hætt þar sem Kid in Africa þótti fara yfir strikið. Seinni myndir Shirley voru síðan það sem fólk mundi lýsa sem heilbrigð skemmtun fyrir alla fjölskylduna.