Sex tær

Sex tær

Venjulegir heimiliskettir eru með átján tær: fimm á framfótum og fjórar á afturfótum. Hins vegar eru til kettir með mun fleiri tær vegna fágætrar erfðafræðilegrar stökkbreytingar. Það eru kettir sem á erlendum málum kallast polydactyl kettir, eða margtæðir kettir. Þeir geta verið með allt að átta tær á fæti, og dæmi eru um ketti með samtals 27 tær.

 

Í dag eru margtæðir kettir fágætir í Evrópu þar sem menn töldu þá vera djöfullegar og andsetnar skepnur á öldum áður og murkuðu úr þeim lífið. Þeir urðu hins vegar sérlega vinsælir hjá enskum sjóurum á 17. öld og voru oft hafðir sem eins konar lukkudýr um borð í skipunum sem ferðuðust milli Evrópu og Norður-Ameríku á nýlendutímanum. Aukaklærnar auðvelduðu þeim klifur og gerðu þá að einstaklega góðum skipsköttum. Fyrir vikið eru margtæðir kettir sérlega algengir í Boston og öðrum stórum skipahöfnum meðfram austurströnd Bandaríkjanna.

 

Hemingway og margtæði kötturinn hans Snowball

Hemingway og margtæði kötturinn hans Snowball

 

Margtæður kettlingur

Margtæður kettlingur

Ernest Hemingway, nóbelsskáldið fræga, varð mikill aðdáandi margtæðra katta eftir að hann fékk einn slíkan, Snowball, að gjöf frá drykkjufélaga sínum, Stanley Dexter skipstjóra, á fjórða áratug síðustu aldar. Skáldið harðgerða var þrátt fyrir allt viðkvæm sál, var mikill kattaunnandi og átti yfir tuttugu ketti yfir ævina. Eftir að hann framdi sjálfsmorð árið 1961 var húsi hans í Flórída breytt í dvalarheimili fyrir kettina alla. Þar búa nú yfir fimmtíu afkomendur Snowball, en um helmingur þeirra hefur erft þennan sérkennilega erfðagalla. Margtæðir kettir hafa æ síðan verið þekktir sem Hemingway-kettir.

 

Heimildir geta að Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti hafi einnig átt margtæðan kött sem hét Slippers. Slippers mun hafa verið einn fyrsti kötturinn til þess að gera Hvíta húsið í Washington að heimili sínu.

 

Margtæður köttur fær sér lúr

Margtæður köttur fær sér lúr