„Af hverju kaupa Bandaríkin ekki upp allan íslenskan fisk ætlaðan til útflutnings og gefa hann löndum á borð við Ísrael eða Spán, sem þurfa á prótíninu að halda?“

 

Svo spurði Dwight Eisenhower Bandaríkjaforseti 20. júlí 1954, er hann sat og fundaði með ráðgjöfum sínum um þjóðaröryggismál.

 

Tæpum tveimur árum áður höfðu Bretar sett löndunarbann á íslenskan fisk vegna einhliða ákvörðunar Íslendinga að stækka landhelgi sína úr þremur mílum í fjórar. Ísland hafði þannig misst aðgang að sínum helsta útflutningsmarkaði og landið var í krísu.

 

Bjarni Benediktsson og Dwight Eisenhower hershöfðingi.

Dwight Eisenhower hershöfðingi og Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra, 1951.

Í kjölfarið leituðu íslenskir ráðamenn í austur eftir nýjum viðskiptatengslum. Sovétríkin voru áhugsasöm um samstarf og féllust á að kaupa um þriðjung af útflutningsvörum Íslands gegnum umfangsmikinn vöruskiptasamning. Bandaríkjamönnum leist ekkert á blikuna og æðsta stjórn öryggismála fundaði um málið.

 

Eisenhower forseti þekkti til aðstæðna á Íslandi. Hann hafði heimsótt landið árið 1951 sem hershöfðingi og yfirmaður Evrópudeildar Norður-Atlantshafsbandalagsins, rætt við íslenska ráðamenn um varnarsamstarf landanna tveggja og leitað samþykkis fyrir viðveru bandarískra hermanna á Íslandi.

 

En nú var Eisenhower orðinn forseti Bandaríkjanna og Íslendingar reyndust erfiðir. Íslenskir sósíalistar höfðu mikið fylgi og voru sterkir innan verkalýðshreyfingarinnar. Ásamt öðrum flokkum spiluðu þeir á þjóðerniskennd landsmanna og ólu á andúð þeirra á herstöðinni.

 

Íslenskir ráðamenn voru einnig sífellt að blanda saman varnarmálum og efnahagsmálum. Gríðarlegur hagvöxtur stríðsáranna og sérlega rausnarleg Marshall-aðstoð á árunum eftir stríð var greinilega ekki nóg fyrir þessa 150 þúsund nýsjálfstæðu eyjarskeggja. Þeir vildu meira — niðurgreidd lán, fjárfestingu, aðgang að erlendum mörkuðum fyrir fiskinn — annars væri áframhaldandi viðvera herstöðvarinnar í hættu og jafnvel varnarsamstarfið sjálft.

 

Eisenhower hlustaði á aðstoðarmann sinn skýra frá þessu og spurði síðan um fiskútflutning Íslendinga. Aðstoðarmaðurinn svaraði að útflutningsverðmæti íslensks fisks væri um 45 milljón bandaríkjadalir á ári — smápeningar í stóra samhenginu. Í kjölfarið lagði forsetinn fram þessa furðulegu tillögu, að Bandaríkin keyptu hreinlega upp allan íslenska fiskinn og gæfu hann til bandamanna sinna sem þróunaraðstoð.

 

207. fundur National Security Council, 22. júli 1954.

Úr skjalinu sem greinir frá 207. fundi National Security Council, 20. júli 1954.  Allt skjalið hérna.

 

Ekkert varð þó af þessari hugmynd Eisenhowers forseta. Helstu ráðgjafar hans töldu þetta gefa slæmt fordæmi. Fengju Íslendingar slíkar viðskiptaívilnanir myndu önnur ríki snarlega reyna svipuð brögð, leika austur gegn vestri í von um bitlinga, sérmeðferð og niðurgreiðslur. Það þyrfti að friðþægja Íslendinga á annan veg, helst með því að tryggja þeim aðgang að sínum hefðbundnu mörkuðum á ný.

 

Ísland var á lykilstað í Norður-Atlantshafi.

Ísland þótti hernaðarlega mikilvægt, á lykilstað í Norður-Atlantshafi.

Fyrir rest féllust Bandaríkjamenn á að fjármagna byggingu sementverksmiðju sem yrði í eigu ríkisins. Íslendingum var auk þess tryggt 9 milljón dala lán gegnum NATO, einsdæmi í sögu varnarbandalagsins. Þrýstingur á Breta frá ráðamönnum vestanhafs  leiddi svo til þess að löndunarbannið á íslenskum fisk var afnumið árið 1956, skömmu eftir kosningar þar í landi.

 

Hvað á manni að finnast um þessa hugmynd Eisenhowers? Eftir á að hyggja hefði það sennilega ekki verið heppilegt fyrir Íslendinga að verða svo háðir einum stórum „viðskiptavini“ sem keypti vörur til þess eins að friðþægja þá. En hver veit? Maginn á svöngum Ísraelsmönnum og Spánverjum hefði svosem ekki verið síðri áfangastaður fyrir íslenskan fisk heldur en hver annar.

 

Þess má geta að Eisenhower kom aftur til Íslands árið 1955 og varð þannig fyrstur Bandaríkjaforseta til þess heimsækja Ísland í embætti. Þá stopp­aði hann stuttlega í Keflavík á leið sinni til Genfar og gæddi sér á íslenskum lax. Á móti honum tóku Ólafur Thors, Bjarni Benediktsson og Ásgeir Ásgeirsson, þáverandi forseti Íslands. Lemúrinn hefur áður fjallað stuttlega um þá heimsókn.

 

Dwight Eisenhower og Ásgeir Ásgeirsson

Dwight Eisenhower og Ásgeir Ásgeirsson, 16. júlí 1955.