Vídjó

Um það bil hundrað ár eru nú liðin frá því að fyrri heimsstyrjöldin braust út. Styrjöldin varð níu milljón manns að bana og hafði afgerandi áhrif á framvindu evrópusögunnar á tuttugustu öld.

 

Lemúrinn hefur áður birt myndband sem sýnir víglínur seinni heimsstyrjaldar frá degi til dags. Hér sjáum við hins vegar myndband sem gerir það sama fyrir víglínur fyrri heimsstyrjaldar. Bæði myndböndin voru gerð af YouTube-notandanum EmperorTigerstar.

 

Merkilegt er að bera þessi tvö myndbönd saman. Víglínur fyrri heimsstyrjaldar breyttust lítið út stríðið, enda var hertækni á þeim árum þess eðlis að vörn var sterkari en sókn. Vélbyssuhreiður, gaddavírsgirðingar og jarðsprengjur reyndust sérlega vel til þess fallnar að halda landgönguliðum í skefjum og leiddu til hernaðarlegrar pattstöðu á vesturvígstöðvunum. Þetta breyttist síðar með tilkomu skriðdreka og sprengjuflugvéla, en frumstæðar útgáfur af þessum stríðsvélum voru einmitt fyrst notaðar á síðustu árum fyrra stríðs.