Í júní árið 1990 hjólaði mjósleginn og rytjulegur maður eftir Suðurlandsbraut og beygði niður að Laugardalshöll. Við fyrstu sýn leit hann líklega út eins og róni sem flækist stefnulaust um á fararskjótanum, eins og loftsteinn sem skýst um himingeimana án áfangastaðar. En þessi steinn sem valt niður brekkuna í átt að Höllinni var enginn annar en Bob Dylan, sem kom á Listahátíð í Reykjavík þetta herrans ár.

 

„Það voru mikil læti þegar hann kom hjólandi og fólk var rekið á bak við bíla og svoleiðis,“ sagði Sigurður G. Sigurðsson síðar. Hann rak klúbb listahátíðar og meðal verkefna hans var að hanga fyrir framan hurð Dylans og „passa að enginn kæmi að drepa hann.“

 

Dylan kemur úr tollinum

Þjóðviljinn 27. júní 1990.

 

Ferð Dylans til Reykjavíkur byrjaði ekki vel. 12 tíma seinkun varð á flugi Flugleiða frá New York. Þotan bilaði og þurfti Dylan að hýrast í fimm tíma í vélinni á JFK-flugvelli áður en lagt var af stað.

 

Þegar til Íslands kom fór hann á Hótel Esju. „Það var svo sem mikil paranoja í gangi, en ég held að hann hafi aðallega húkt einn uppi á herberginu sínu á Hótel Esju og hundleiðst. Hann vildi ekki hitta einn einasta Íslending. Síðan leit hann varla upp úr gítarnum allan tímann á tónleikunum í Höllinni,“ rifjaði Sigurður upp.

 

Lengi vel var tvísýnt um komu Dylans til Íslands, en samningaviðræður við hann gengu treglega. Að lokum þáði hann boðið, og mun hafa þegið þrjár milljónir íslenskra króna fyrir vikið en það myndi reiknast sem rétt tæpar 8,5 milljónir að núvirði.

 

En þá tók við annað vandamál, en það voru sérlundaðar óskir goðsagnarinnar um allskyns lúxus sem ætti að vera innan handar á tónleikunum. Um það var skrifað í molanum „Kenjótt rokkstjarna“ í Þjóðviljanum.

 

Picture 10

 

En þrátt fyrir þessi vandkvæði fóru tónleikarnir fram. En hvernig heppnuðust þeir? Margir hafa sagt að þetta hafi ekki verið góðir tónleikar hjá Dylan. Í Þjóðviljanum var notuð fyrirsögnin „Sumir fúlir, aðrir glaðir“.

 

[Það] var huggulegt að heyra gömlu uppáhalds Dylan-lögin úr kassagíturum, kontra-bassa og nefmæltum barka meistarans… sem reyndar fór á stundum nokkuð óreglulega með textann miðað við hrynjandi laga, þannig að vart var fyrir nema vana bakraddasöngvara að syngja með honum – enda var lítið samband á milli sviðs og salar. Fólk klappaði að vísu vel fyrir hverju lagi, en þarna upplifði ég í fyrsta skipti að klapp fengi ekki að njóta sín… hitt er oftar á slíkum samkundum að manni finnist fólk heldur langdregið í fagnaðarlátunum. […] Það er gott til þess að vita, að enn er Bob ekki þurrausinn þar sem hann hefur alltaf verið sterkastur – á plötum, þar sem maður getur pælt í textunum og fílað sig heima hjá sér með sína gömlu hetju fyrir hugskotssjónum 7. áratugarins.

 

Árni Matthíasson rokksérfræðingur skrifaði dóm um tónleikana í Morgunblaðið. Hann var ánægður með kvöldið, notaði fyrirsögnina Glæsilegur lokapunktur (en tónleikarnir voru síðasti atburður Listahátíðar).

 

Bob Dylan kom á svið stundvíslega kl. 22.00 með framúrskarandi sveit sinni og renndi sér strax í Subterranean Homesick Blues frá 1965. Ekki var það vel flutt og ekki heldur næsta lag, Ballad of a Thin Man. Rifjuðust þá upp ömurlega leiðinlegir tónleikar sem ég sá með Dylan í Lundúnum fyrir nokkrum árum.

 

Greinilegt var að hann var óöruggur (ef til vill móður eftir hjólreiðatúrinn niðrí Höll) og hann tautaði textana í hljóðnemann eins og þetta væru samhengislaus orð sem skiptu hann og áheyrendur engu máli.

 

Í þriðja lagi tónleikanna, Memphis Blues Again, af Blonde on Blonde, virtist þó sem hann væri að ná sér á strik og annað lag af þeirri plötu, Just Like a Woman, var ágætlega flutt.

 

Fyrsta órafmagnaða lagið, It’s Allright, Ma (I’m Only Bleeding) vakti geysihrifningu, en það kynnti Dylan með þeim orðum að margir teldu þetta lag vera um móður sína, en svo væri ekki. Þau orð, sem voru þau fyrstu sem beint var til áheyrenda, bentu til að Dylan hafi kunnað vel við viðtökurnar. Því næst kom hver perlan af annarri; It’s All Over Now, Baby Blue, Girl From the North Country, A Hard Rain’s Gonna Fall og Don’t Think Twice.

 

Dylan í Höllinni